Nr. 525/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 17. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 525/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24040153
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 23. apríl 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2024, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hans um vegabréfsáritun til Íslands.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 28. mars 2024, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins fyrir 11 daga dvöl frá 20. til 30. maí 2024. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2024. Hinn 23. apríl 2024 barst kærunefnd kæra frá kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 2. maí 2024, voru ástæður ákvörðunar Útlendingastofnunar bornar undir kæranda. Tekið var fram að frestur til að leggja fram greinargerð og frekari gögn vegna málsins væri til 8. maí 2024. Kæranda var jafnframt leiðbeint um að röksemdir og fylgigögn ættu að taka mið af synjunarástæðum hinnar kærðu ákvörðunar enda væri kærandi að sækjast eftir endurskoðun ákvörðunar Útlendingastofnunar. Frekari gögn voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 2. maí 2024.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í röksemdum sem kærandi lagði fram með kæru sinni kveðst hann búa og starfa í Bretlandi. Hann hafi fengið útgefnar vegabréfsáritanir á Schengen-svæðið oftar en þrisvar sinnum og ávallt borið sig eftir ferðaáætlunum sínum. Vegna tilvísunar Útlendingastofnunar í óstaðfestar flugferðir kveðst kærandi hafa sett sig í samband við ferðaskrifstofu sem staðfesti að flugbókanir hans væru gildar. Varðandi fyrirhugaðan dvalarstað á Íslandi þá kveðst kærandi hafa fengið ráðleggingar frá vini um að dvelja á einum stað og fara í dagsferðir á ferðamannastaði sem hann vilji heimsækja.
Með tölvubréfi, dags. 2. maí 2024, vísaði kærandi til áætlaðs málsmeðferðartíma en með hliðsjón af ferðadagsetningum sínum hafi hann ekki keypt flugmiða þar sem hann vilji fyrst fá útgefna vegabréfsáritun og síðan verða sér úti um flugmiða. Með tölvubréfinu lagði kærandi fram afrit af ferðaáætlun sinni ásamt hótelbókun.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Marokkó þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.
Í 21. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er fjallað um könnun á því hvort komuskilyrði umsækjenda séu uppfyllt og áhættumat. Í 8. mgr. ákvæðisins kemur fram að á meðan á meðferð umsóknar stendur er sendiskrifstofum eða miðlægum yfirvöldum heimild, þegar ástæða þykir til, að taka viðtal við umsækjanda og fara fram á að hann leggi fram viðbótargögn. Samkvæmt málayfirliti Útlendingastofnunar tók fulltrúi utanríkisþjónustunnar símaviðtal við kæranda 15. apríl 2024 en megintilgangur viðtalsins var að fá skýrari mynd á ferðaáætlun kæranda og uppfærðar flugbókanir.
Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við, sbr. viðauki 6 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðun í máli kæranda er merkt í reiti 10 og 11, þ.e. að upplýsingar um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar væru ekki áreiðanlegar auk þess sem rökstudd ástæða væri til að draga í efa áreiðanleika yfirlýsinga varðandi ferðaáætlun og ætlun um að heimsækja Ísland. Ákvörðuninni fylgdu viðbótarathugasemdir þar sem fram kemur að ekki hafi tekist að sannreyna flugbókanir. Enn fremur væri ferðaáætlun kæranda óraunhæf, með hliðsjón af fyrirhuguðum dvalarstað í [...]. Því væru verulegar efasemdir um fyrirætlun kæranda að ferðast til Íslands. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.
Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvörðunar í máli kæranda.
Meðferð umsóknar kæranda fór fram hjá Utanríkisráðuneytinu en umsóknin var lögð fram á skrifstofu VFS Global í London, Bretlandi, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þykir skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.
Kærandi er ríkisborgari Marokkó en með fastan dvalarstað í Bretlandi. Fram kemur í ferðaáætlun kæranda að hann hyggist dvelja í [...] í 11 daga og fara þaðan í dagsferðir, m.a. til að skoða Snæfellsjökul, Kirkjufellsfoss, Reykjavík, og Gullna hringinn. Í viðtali var kærandi m.a. spurður um ferðaáætlun sína. Fram kom að hann vilji dvelja á sama staðnum og fara í dagsferðir þaðan og nýta sér almenningssamgöngur, en ekki leigja sér bíl. Að mati fulltrúa utanríkisþjónustunnar væri ferðaáætlun kæranda óraunhæf með vísan til samgangna á milli [...] og annarra staða, einkum vegna ferðar til og frá Keflavíkurflugvelli, en samkvæmt framlögðum flugbókunum hafi kærandi átt að lenda kl. 23:40 að kvöldi og fara í loftið kl. 07:40 að morgni.
Við meðferð málsins hjá utanríkisþjónustunni lagði kærandi fram flugbókun með tölvubréfi, dags. 21. mars 2024. Samkvæmt bókun kæranda, nr. [...], átti hann bókaðan farmiða í flug með Icelandair nr. [...] frá Heathrow flugvelli til Keflavíkurflugvallar 20. maí 2024. Heimferð kæranda var fyrirhuguð með flugi Icelandair nr. [...] til Heathrow flugvallar 30. maí 2024. Eftir símaviðtal, dags. 15. apríl 2024, lagði kærandi fram nýja flugbókun. Hin nýja bókun kæranda gerði ráð fyrir sömu flugferðum, þ.e. nr. [...] og [...], en í þetta sinn var bókunarnúmer kæranda [...]. Við meðferð málsins hjá utanríkisþjónustunni tókst ekki að sannreyna framangreindar flugbókanir. Kærandi lagði ekki fram nýjar flugbókanir á kærustigi en fram kom í tölvubréfi kæranda, dags. 2. maí 2024, að hann hefði enn ekki keypt flugmiða þar sem hann væri að bíða eftir útgáfu vegabréfsáritunar. Á kærustigi hefur kærandi ekki bætt úr framangreindum annmarka. Þegar af þeirri ástæðu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að upplýsingar um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar væru óáreiðanlegar auk þess að rökstudd ástæða væri til að draga í efa áreiðanleika ætlunar kæranda að heimsækja Ísland, sbr. ii-lið a-liðar og b-lið 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður