Mennta- og menningarmálaráðuneyti hlýtur jafnlaunavottun
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest hér á landi í júní 2017 og hafa stofnanir og fyrirtæki unnið að innleiðingu hennar en í því felst að óháður aðili staðfestir að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki starfræki stjórnunarkerfi sem uppfyllir ákveðnar kröfur, m.a. um að málefnaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við ákvörðun launa og þau feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Nú hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti fengið staðfestingu þess að jafnlaunakerfi þess samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og tóku Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri við staðfestingu þess í dag ásamt Stefáni Baldurssyni skrifstofustjóra, Jónu Pálsdóttur jafnréttisráðgjafa og Önnu Maríu Urbancic rekstrarstjóra. Skírteinið afhenti Emil B. Karlsson úttektarmaður hjá Vottun hf.
Unnið er að innleiðingu jafnlaunavottunar á vegum Stjórnarráðsins og hafa forsætis-, félagsmála-, heilbrigðis- og umhverfis- og auðlindaráðuneyti þegar hlotið slíka vottun.