Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Mannúðarráðstefna um Gaza í París

Martin Griffiths mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í gær til þess á mannúðarráðstefnunni í París um Gaza að hlé yrði gert á yfirstandandi átökum og varð að ósk sinni því um svipað leyti var greint frá því að stjórnvöld í Ísrael hefði samþykkt daglegt fjögurra klukkustunda hlé á bardögum.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi í myndbandsskilaboðum á ráðstefnunni „viðurstyggileg hryðjuverk" Hamas gegn Ísrael og kallaði eftir skilyrðislausri lausn allra gísla. Guterres lagði áherslu á brýna þörf fyrir áþreifanlegar aðgerðir til að takast á við endalausa martröð mannúðar sem blasir við óbreyttum borgurum á Gaza. Þótt einhver aðstoð hafi borist til Gaza lagði Guterres áherslu á að hún væri ófullnægjandi í ljósi þess hversu þörfin væri gríðarleg meðal óbreyttra borgara. Hann kallaði eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum, fullri virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og verndun nauðsynlegra mannvirkja eins og sjúkrahúsa, aðstöðu Sameinuðu þjóðanna, neyðarskýla og skóla.

Guterres hvatti alþjóðasamfélagið til að efla aðstoð og lagði áherslu á mikilvægi þess að íbúar GAZA fái viðvarandi aðgang að vistum, þar á meðal eldsneyti. Að auki kallaði hann eftir framlögum til ákalls Sameinuðu þjóðanna um mannúðaraðstöð í þágu íbúa Gaza.

Philippe Lazzarini yfirmaður palestínsku flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, vakti athygli á sorglegu ástandi barna á Gaza og sagði frá örvæntingarfullum óskum þeirra um mat og vatn. Í máli hans kom fram að rúmlega 700 þúsund manns hafi leitað skjóls í 150 skólum og öðrum byggingum UNRWA. Aðbúnaðurinn sé víða óviðunandi með öllu. Húsakynnin troðfull og matur og vatn af skornum skammti. Salernis- og hreinlætisaðstaða er svo slæm, að lýðheilsu stafar hætta af.

Ráðstefnan í París er haldin að frumkvæði Emmanuel Macron forseta Frakklands. Hann tilkynnti á ráðstefnunni að Frakkland ætli að auka mannúðaraðstoð við íbúa Gaza úr 20 milljónum evra í 100 milljónir.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta