Samið um kaup og þjálfun á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta
Í dag undirrituðu Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Halldór Sævar Guðbergsson formaður Blindrafélagsins samkomulag um kaup og þjálfun á fimm leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta. Undirritunin fór fram í húsi Blindrafélagsins, að Hamrahlíð 17.
Í ávarpi sínu minnti Siv Friðleifsdóttir á að eitt fyrsta embættisverk hennar sem heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra hafi verið að koma á fund hjá Blindrafélaginu vegna erfiðara og umdeildara máls. Það væri ólíkt skemmtilegra að koma núna. Hún kvaðst vera stolt af þessum degi og samstarfinu við Blindrafélagið.
Halldór Sævar Guðbergsson formaður Blindrafélagsins þakkaði ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir mikinn velvilja og skilning í þessu þýðingarmikla máli en það hafi verið í desember s.l. sem Blindrafélagið lagði upphaflega fram tillögur sínar um þá tilhögun á þjálfun leiðsöguhunda fyrir blinda sem samningur þessi byggir á.
Í samkomulaginu felst að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun leggja til rúmlega 17 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við kaup og þjálfun á fimm leiðsöguhundum frá Noregi. Blindrafélagið leggur fram á móti um 8 milljónir króna en heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljónir króna. Blindrafélagið hefur gert samning við hundaskóla norsku blindrasamtakanna um að þjálfa leiðsöguhundana og væntanlega notendur þeirra. Í lok þessa mánaðar halda fimm blindir og sjónskertir einstaklingar utan til fyrstu þjálfunar.
Leiðsöguhundar eru mikilvæg hjálpartæki fyrir blinda og sjónskertra og ekki síður mikilvægir félagar þeirra. Þeir auka frelsi og sjálfstæði notenda í daglegu lífi og gerir þeim kleift að sinna erindum hjálparlaust sem annars krefðust aðstoðar frá öðru fólki. Á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu eru leiðsöguhundar algeng sjón í samfélaginu, en hér á landi hafa til þessa aðeins tveir leiðsöguhundar verið þjálfaðir sem hjálpartæki fyrir blinda og aðeins annar þeirra er ennþá í notkun.
Blindrafélagið bindur miklar vonir við samkomulagið og fagnar þeim merka áfanga að nú skuli þeir einstaklingar, sem þurfa og geta nýtt sér hjálp leiðsöguhunda í athöfnum daglegs lífs, eiga þess kost að njóta aðstoðar þeirra.
Reglugerðir og lögreglusamþykktir hér á landi leyfa notkun leiðsöguhunda og forystumenn Blindrafélagsins eru ekki í nokkrum vafa um að Íslendingar munu taka þeim vel þegar þeir verða sýnilegri á götum úti.