Löggilding á starfi stoðtækjafræðinga
Heilbrigðisráðherra undirritaði í dag reglugerð um löggildingu stoðtækjafræðinga þar sem kveðið er á um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga. Samkvæmt reglugerðinni geta aðeins þeir sem fengið hafa starfsleyfi heilbrigðisráðherra og hafa lokið viðurkenndu námi í stoðtækjafræði kallað sig stoðtækjafræðinga og starfað sem slíkir hér á landi. Sama gildir um þá sem heilbrigðisráðherra staðfestir að hafi leyfi til að starfa sem stoðtækjafræðingur í landi sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Um 10 stoðtækjafræðingar eru starfandi á Íslandi í dag.
Viðstaddir undirritun reglugerðarinnar voru fulltrúar Félags stoðtækjafræðinga sem hefur um árabil beitt sér fyrir löggildingu stoðtækjafræðinga.
Starf stoðtækjafræðinga felst í gerð, viðhaldi og eftirliti stoðtækja en með stoðtæki er átt við vélrænan eða tæknilegan búnað sem er liður í meðferð sjúkdóma eða aðlögunar útlima. Dæmi um slík stoðtæki eru gervilimir sem koma að hluta eða öllu leyti í stað útlims og spelkur sem koma í staðinn fyrir eða laga skerta getu líkamshluta.
Stoðtækjafræðingar starfa á eigin ábyrgð en eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti Landlæknis.