Drög að lögum um rekstur og uppbyggingu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í samráðsgátt
Drög að frumvarpi að nýjum heildstæðum lögum um rekstur og uppbyggingu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið felur í sér innleiðingu varaflugvallargjalds. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar til og með 5. desember nk.
Með frumvarpinu er lagt til að ný heildstæð lög komi í stað óskýrra og dreifðra lagaákvæða sem nú eru í gildi. Skort hefur í lögum skýr ákvæði um verkefni samgönguyfirvalda á þessu sviði og þau markmið sem stýra eiga för við framkvæmd þeirra. Meginmarkmiðið er að flugvellir landsins og þjónusta við flugumferð þjóni þörfum samfélagsins með skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í fyrirrúmi í samræmi við stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, eins og hún birtist m.a. í flugstefnu og samgönguáætlun.
Frumvarpið kynnir jafnframt til sögunnar varaflugvallargjald. Er því ætlað að bregðast við og tryggja fjármagn til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum. Markmiðið er að flugvellirnir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið og varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll með fullnægjandi hætti. Til að svo megi vera er nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir á völlunum.
Í frumvarpinu er jafnframt kveðið á um brottfall úreltra laga og lagaákvæða á þessu sviði. Það mun því fela í sér töluverða einföldun regluverks og jafnframt draga fram verkefni stjórnvalda á þessu sviði með mun skýrari hætti en í gildandi lögum.
Það skal tekið fram að um almennar kröfur til starfrækslu flugvalla, rekstrarstjórnunar flugumferðar og veitingu flugleiðsöguþjónustu fer samkvæmt lögum um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.