Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2017 Matvælaráðuneytið

Dómur EFTA-dómstólsins um innflutningseftirlit með hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk

Með dómi sem kveðinn var upp í dag, komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenskar reglur er varða innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins.

Í 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og í reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins er kveðið á um leyfisveitingakerfi fyrir innflutningi á hráum kjötvörum, hráum eggjum og eggjavörum og vörum úr þeim og ógerilsneyddri mjólk. Íslensk stjórnvöld hafa verið þeirrar skoðunar að leyfisveitingakerfið samræmdist EES-samningnum og var þeim sjónarmiðum haldið uppi í málsvörnum íslenska ríkisins. EFTA-dómstóllinn kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að íslensku reglurnar séu ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar 89/662/EBE um heilbrigðiseftirlit með dýrum og dýraafurðum. Tilskipunin kveði á um að eftirlit fari fram í upprunalandi en ekki á viðtökustað. Innflutningseftirlit megi einungis við hafa sem úrtakskönnun eða þegar það eru grundsemdir um misferli. Hinar íslensku reglur feli því í sér viðbótartakmarkanir sem samræmist ekki EES-rétti.  Dómstóllinn hafnaði hins vegar kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA um að bann Íslands við markaðssetningu á ógerilsneyddum ostum bryti gegn tilskipun ESB.

Rétt er að taka fram að þessi dómur fjallar ekki um það magn sem flutt er inn af kjöti, eggjum og mjólk til landsins, eingöngu það heilbrigðiseftirlit sem viðhaft er við innflutning á þessum vörum.

Ljóst er að fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld brotið gegn EES samningum og þurfa nú að gera sitt ítrasta á þessu sviði til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls skulu hlutaðeigandi EFTA-ríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkinu ber samkvæmt þessu að breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu dómsins. Íslensk stjórnvöld munu vinna að því að heimildir EES-samningsins um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum verði nýttar, til dæmis varðandi salmonellu. Þessu tengdu verður áfram unnið að úrvinnslu á tillögum starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta