Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2015

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                

Miðvikudaginn 10. júní 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 13/2015:

 

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:


A hefur með kæru, dags. 9. mars 2015, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 16. febrúar 2015, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.


I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þann 22. janúar 2015. Kærandi var þá óvinnufær vegna veikinda og beið eftir svari frá stéttarfélagi sínu vegna umsóknar um sjúkradagpeninga. Í framhaldinu var samþykkt að greiða kæranda fjárhagsaðstoð frá umsóknardegi en kærandi óskaði þá eftir að fá óskerta fjárhagsaðstoð fyrir janúarmánuð. Með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 4. febrúar 2015, var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann synjað með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 13. febrúar 2015 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um óskerta fjárhagsaðstoð í janúar með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem umsókn var ekki lögð fram fyrr en 22. janúar og umsækjandi hefur ekki sýnt fram á nauðsyn fjárhagsaðstoðar á þeim tíma sem umsókn tekur til.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. febrúar 2015. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 9. mars 2015. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 11. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun ásamt öðrum gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 29. apríl 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 4. maí 2015, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi veikst skyndilega þann 15. desember 2014. Hann hafi þá verið í fullri vinnu en vegna óvissu um heilsufar hans hafi honum verið sagt upp starfinu. Kærandi hafi þá leitað til stéttarfélags síns en fengið þær upplýsingar að hann hafi ekki áunnið sér nægilegan rétt til greiðslna úr sjúkrasjóði og að læknisvottorð hafi borist of seint. Í ljósi þessa hafi kærandi snúið sér til félagsþjónustunnar í Hafnarfjarðarbæ og óskað eftir láni. Hann hafi fengið rúmlega 41.000 krónur þar sem hann hafi ekki sótt um fyrr en þann 20. janúar 2015 en þá hafi verið ljóst að hann fengi ekki greitt frá stéttarfélagi sínu fyrr en í febrúar eða mars 2015. Kærandi bendir á að samkvæmt reglum Hafnarfjarðarbæjar sé hægt að sækja um fjárhagsaðstoð þrjá mánuði aftur í tímann og því óski hann eftir að fjallað verði um mál hans á ný.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi verið í vinnu en veikst um miðjan desember 2014. Hann hafi kannað rétt sinn til greiðslna úr sjúkrasjóði stéttarfélags um miðjan janúar 2015 en þar sem læknisvottorð hafi ekki skilað sér inn nógu tímanlega hafi greiðslur úr sjúkrasjóði dregist um einn mánuð. Kærandi hafi þá óskað eftir að fá greidda fjárhagsaðstoð frá 1. janúar 2015 og tekið fram að hann hafi ekki sótt um fyrr þar sem hann hafi vonast til þess að hann þyrfti ekki að nýta sér fjárhagsaðstoð og fengið lán hjá ættingjum.

Í 2. mgr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ segi að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef veita skuli fjárhagsaðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um. Að mati afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar og fjölskylduráðs Hafnarfjarðar hafi kærandi ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoð hafi verið honum nauðsynleg frá 1. til 22. janúar 2015, enda hafi komið fram að hann hefði fengið aðstoð annarra, og því hafi hann aðeins átt rétt á fjárhagsaðstoð frá umsóknardegi.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann var synjað með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoð hafi verið honum nauðsynleg á þeim tíma sem umsókn tók til. Í 7. gr. reglnanna kemur fram að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um grunnfjárhæð framfærslustyrks. Þar kemur fram að framfærslugrunnur taki mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og breytist í janúar ár hvert miðað við vísitölu neysluverðs. Grunnfjárhæð fyrir einstakling er 158.552 krónur á mánuði á árinu 2015. Í 10. gr. reglnanna segir að frá upphæð fjárhagsaðstoðar dragist heildartekjur, sbr. 12. gr. Fram kemur í 1. mgr. 12. gr. að allar tekjur umsækjanda og maka ef við eigi, í þeim mánuði sem sótt sé um og mánuðinum á undan, séu taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins nema greiðslur með börnum o.s.frv., og komi þær til frádráttar. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. 

Við ákvörðun um fjárhagsaðstoð til kæranda fyrir janúar 2015 bar því að horfa til tekna kæranda í þeim mánuði og desember 2014. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi tekjulaus í janúar 2015 en fékk 423.175 krónur í launatekjur í desember 2014. Tekjur kæranda voru því nokkuð yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ákvæði 1. mgr. 11. gr. reglnanna áskilur. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á óskertri fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2015.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um fjárhagsaðstoð er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður 

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta