Húsfyllir á fundi samgönguráðherra um samgöngumál á Austurlandi
Húsfyllir var á opnum fundi Jóns Gunnarssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á Reyðarfirði á mánudagskvöld en þar voru samgöngumál fjórðungsins í forgrunni. Hátt í eitt hundrað manns sóttu fundinn sem haldinn var í safnaðarheimili kirkjunnar.
Samgöngumál fjórðungsins voru fundarmönnum hugstæð og spurðu fundarmenn fjölmargra spurninga um fyrirhugaðar samgöngubætur á svæðinu. Göng undir Fjarðarheiði á milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, uppbyggður vegur um Öxi, vegurinn á milli Héraðs og Borgarfjarðar eystri og framtíðarlega þjóðvegar 1 voru meðal þeirra mála sem hæst bar á fundinum.
Í máli ráðherra kom m.a. fram að unnið væri að gerð nýrrar samgönguáætlunar sem vonir stæðu til að fram kæmi á Alþingi síðla hausts eða í vetrarbyrjun. Þrátt fyrir að samgöngumál hefðu fengið auknar fjárveitingar á þessu ári, væri ljóst væri að miðað við fjármálaáætlun til næstu 5 ára sem samþykkt var á Alþingi sl. vor, væri framkvæmdum í málaflokknum skorður settar. Ráðherra kvaðst munu gera sitt ítrasta til að fá auknar fjárveitingar til málaflokksins, enda biðu mörg brýn verkefni úrlausnar, bæði á Austurlandi og víðar.
Varðandi jarðgöng til Seyðisfjarðar sagði ráðherra að þau jarðgöng yrðu stærsta og dýrasta einstaka framkvæmd sem nokkru sinni hefði verið ráðist í á Íslandi og því þyrfti að vanda mjög til ákvarðanatöku. Kanna yrði þá valkosti sem fyrir liggja og hvaða áhrif þeir myndu hafa í atvinnulegu tilliti, m.a. með tengingu atvinnusvæða á Austfjörðum í huga og uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar. Kvaðst hann munu skipa starfshóp til að meta fýsileika þeirra valkosta sem fyrir liggja og bæta munu samgöngur við Seyðisfjörð. Þar er annars vegar um að ræða jarðgöng undir Fjarðarheiði og hins vegar jarðgöng sem tengja myndu saman Seyðisfjörð, Mjóafjörð, Norðfjörð og Fljótsdalshérað. Kostnaður við hvora framkvæmd, þ.e. Fjarðarheiði annars vegar og samtengingu áðurnefndra fjarða hins vegar, er hátt á þriðja tug milljarða króna í hvoru tilviki.
Ráðherra var sammála fundarmönnum um að mörg brýn verkefni biðu úrlausnar á Austurlandi, en hvaða verkefni yrði farið í, réðist af þeim fjárveitingum sem Alþingi myndi samþykkja að verja til málaflokksins annars vegar og þeirri forgangsröð hins vegar sem samgönguáætlun mælti fyrir um.
Á fundinum reifaði ráðherra hugmyndir um að ráðast í framkvæmdir á stofnleiðum út frá Reykjavík og fjármagna þær með gjaldtöku á þeim leiðum. Sagði hann að tillögur starfshóps sem unnið hefur að útfærslu málsins yrðu kynntar í haust. Benti hann á að hlytu þær tillögur brautargengi á Alþingi myndi það skapa aukið rými í fjárveitingum til brýnna framkvæmda víða um land og hraða uppbyggingu þjóðvegakerfisins á landsbyggðinni.