Hoppa yfir valmynd
22. október 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 33/2001

Mánudaginn, 22. október 2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Úrskurður


Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 8. ágúst 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 31. júlí 2001.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 30. júlí 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í rökstuðningi með kæru kæranda segir m.a.:
"Samkvæmt bréfi dagsettu þann 30. júlí frá Tryggingastofnun ríkisins er mér synjað um fæðingarorlof þar sem ég uppfylli ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ég og fjölskylda mín flytjum heim frá Danmörku um síðastliðin áramót, fyrir flutninginn vorum við bæði hjónin í fullu starfi. Ástæða heimflutnings var ofvirkni/athyglisbrestur og ný uppgötvuð flogaveiki dóttur okkar B. Áttum við von á að hún fengi betri meðferð hér heima heldur en sem útlendingur í Danmörku. Var ég búin að fá loforð um vinnu við mitt fag sem er fótaaðgerðir og eiginmaður minn hefði fengið starf hjá C og hóf störf strax um áramót.

Til stóð að ég hæfi störf á þeim tíma einnig en þá fáum við þann slæma úrskurð frá deildarlækni Landspítalans Pétri Lúðvígssyni að dóttir okkar hafi greinst með heilaæxli og þurfi að fara í bráðaaðgerð. Allt það ferli sem á eftir hefur fylgt hefur af skiljanlegum ástæðum hamlað atvinnuþátttöku minni. Minn tími hefur farið í umönnun veikrar dóttur okkar og ég hef að þessum framansögðum sökum ekki haft færi á að afla mér þess starfstíma sem nauðsynlegur er vegna fæðingarorlofs.

Ég leyfi mér að kæra þennan úrskurð sem er þungt högg á fjölskylduhagi okkar, það er ekki af okkar völdum sem ég hef ekki getað stundað atvinnu heldur hefur líf og heilsa dóttur okkar gengið fyrir. Það getur ekki verið að lög og reglugerðir séu gerðar með það í huga að gera hagi þeirra fjölskyldna sem eru með langveik börn verri en annarra, nóg er samt á okkur lagt. Úrskurðurinn væri skiljanlegur ef um væri að ræða fullfríska fjölskyldu sem hefði af annarlegum orsökum ekki stundað vinnu, svo er alls ekki í okkar tilviki eins og ljóst ætti að vera á meðfylgjandi gögnum og vonandi bréfi þessu.

Það getur ekki verið á nokkurn hátt réttlætanlegt að neita mér um fæðingarorlof, bara sú ástæða að ég hafi ekki stundað vinnu síðastliðna sex mánuði er afkáraleg og ber vott um skrifræðislegt óréttlæti sem ætti ekki að fyrirfinnast í þjóðfélagi þar sem börnin okkar eiga að eiga forgang. "

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 25. september 2001. Í greinargerðinni segir:
"Með umsókn dags. 20. júní 2001 sótti A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. ágúst vegna væntanlegrar fæðingar þann 8. ágúst. Henni var með bréfi dags. 30. júlí synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. ágúst.

A fer fram á að tekið sé tillit til þess að veikindi dóttur hennar hafi haft það í för með sér að hún hafi ekki getað verið á vinnumarkaði eftir flutning sinn hingað til lands þann 15. desember 2000. Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er hins vegar ekki að finna heimild til að víkja frá því skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að umsækjandi hafi verið í starfi á þeim grundvelli að umsækjandi hafi ekki getað stundað starf vegna veikinda barns síns.

Þær greiðslur sem um er að ræða vegna langvarandi veikinda barna eru umönnunargreiðslur skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993 og reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997. Greiðslurnar byggjast á því að sjúkdómur eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Við Ákvörðun um fjárhæð umönnunargreiðslna eru læknisfræðilegar forsendur metnar og fötlun- og sjúkdómsstig en ekki er litið til þess hvaða áhrif umönnun barns hafi í för með sér á atvinnuþátttöku foreldris/foreldra þess.

Lífeyristryggingasvið telur það að A hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 10. október 2001, þar segir m.a.:
"Vitnað er í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og er tekið fram um að, ekki sé heimild til undanþágu af neinu tagi. Sé þetta raunin þá hlýtur TR að bera skyldu til að benda stjórnvöldum á þá misbresti sem í lögunum kunna að felast og krefjast úrbóta, þar sem einum þjóðfélagshópi (hópur foreldra langveikra barna ) sé mismunað.

Að auki leyfi ég mér að mótmæla þeirri skilgreiningu sem Tryggingastofnun leggur í umönnunarbætur til handa foreldrum langveikra og fatlaðra barna, þar er talið að ekki sé litið til hvaða áhrifa umönnun langveiks/fatlaðs barns hafi á atvinnuþátttöku foreldra/is. Þarna tekur Tryggingastofnun sér rétt til að álykta einhliða túlkun á þessu ákvæði sem snýr að greiðslu umönnunarbóta. En samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993 og reglugerð um fjárhagslega aðstoð við foreldra fatlaðra/langveikra barna, nr. 504/1997 en þar segir: "Greiðslur byggja á að sjúkdómar/fötlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka ummönnun og gæslu." Sérstök umönnun og gæsla hlýtur þá að fela í sér skerta hæfni foreldra/is til atvinnuþátttöku og því tel ég túlkun og niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins alranga og ósanngjarna og mótmæli hér með niðurstöðunni alfarið."

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingar-orlofs-sjóði í fæðingarorlofi, tímabilið 1. ágúst 2001 til 1. mars 2002.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að til samfellds starfs teljist ennfremur:
"a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa."

Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði á framangreindu tímabili né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. upptalningu í 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sem telja verður tæmandi.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.



ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.



Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta