Hoppa yfir valmynd
22. október 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2001

Mánudagurinn, 22. október 2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 26. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 25. apríl 2001.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um höfnun á greiðslum úr Fæðingar-orlofssjóði, með bréfi dags. 27. febrúar 2001.

Kærandi fer þess á leit að umsókn hennar varðandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði endurskoðuð. Í rökstuðningi með kæru segir:
"Umsókn minni var hafnað, en fæðingarstyrkur greiddur, samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum um tekjur í ágústmánuði 2000, eins og kemur fram í meðf. bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins. Þessu vil ég ekki una og kæri því þessa ákvörðun. Forsaga þessa máls er sú að í apríl 1999 ræð ég mig til starfa hjá fyrirtækinu B í Brussel, Belgíu og starfa þar, þar til í desember 1999, en þá flytja skrifstofur C til Kaupmannahafnar, Danmörk, og ég með. Og þar starfa ég þar til mánaðarmótin júlí-ágúst 2000. B og C eru í rekstri tvær deildir, en eitt fyrirtæki, og ekki gildandi sömu reglur í hvoru landi fyrir sig. Vegna þessara flutninga fékk ég greitt sumarfrí mitt sem ég átti ótekið í Belgíu, þar sem þau réttindi fluttust ekki með. Þar sem ég síðan starfa í Danmörku frá því í desember 1999 til júlí loka 2000, og var þá orðin ófrísk og ákveðin í að flytja aftur til Íslands, ákvað ég að taka ólaunað sumarfrí í ágúst, til að ganga frá mínum málum erlendis, en hafði þá einungis tekið u.þ.b. 10 daga af mínu sumarleyfi. Enda hafði ég fengið þær upplýsingar á skrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins í júní 2000, að ef ég skilaði inn lögboðnum flutnings og sjúkrasamlagsvottorðum frá Danmörku, sem ég og gerði, þá væri ég með allt mitt á hreinu. Sömuleiðis fékk ég þær upplýsingar að vinnutímar mínir erlendis yrðu metnir til jafns við unna tíma á Íslandi.

Í reglum um rétt til greiðslna í fæðingarorlofi 1. mgr. 13. gr. segir meðal annars "Ekki skal draga frá þann tíma sem starfsmaður hefur verið í orlofi eða leyfi samkv. lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningi þótt ólaunaður sé að hluta eða öllu leiti. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES ríkjum hafi foreldrið unnið hér á landi í að minnsta kosti einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs." Upplýsingar þessar eru sóttar inn á síðu Félagsmálaráðuneytis þann 06.03.2001.

Þetta voru þær forsendur sem ég hafði, þegar ég tók þá ákvörðun að segja upp starfi mínu og flytja aftur heim.

Fljótlega eftir að ég kom til Íslands aftur, hóf ég störf á tveimur vinnustöðum til að ná nægum vinnutímum, miðað við þær reglur sem í gildi voru á þeim tíma. Síðan kemur það, að um áramótin 2000-2001 breytast lög um fæðingarorlof. Á þeim tíma sem ég sæki um mitt fæðingarorlof, lágu upplýsingar greinilega ekki á lausu, því aldrei var mér bent á að umsókn mín mundi hugsanlega ekki fá eðlilega afgreiðslu. Eyðublöð til umsóknar fæðingarorlofs lágu heldur ekki fyrir, heldur þurfti ég að sækja þau á netinu.

Ég tel að þarna hafi sökum lélegra, eða jafnvel rangra upplýsinga, og sömuleiðis sú tímasetning sem umsókn mín lendir í vegna lagabreytinga skapast kringumstæður sem alls ekki eigi að bitna á umsókn minni um fæðingarorlof.

Ég er einstæð móðir og fæ í dag greiddan fæðingarstyrk frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 35.037,- á mánuði, sem ekki duga fyrir minni framfærslu og barnsins. Ég tel að gróflega sé brotið á mér, því með þessari ákvörðun verður mér ekki gert kleyft að vera heima með barninu mínu, lögboðinn fæðingarorlofstíma, eins og öðrum mæðrum, heldur neydd til þess að koma barninu mínu fyrir og snúa aftur á vinnumarkaðinn."

Með bréfi, dags. 30. apríl 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 9. maí 2001. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi með umsókn sinni, dags. 29. desember 2000, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. febrúar 2001 vegna væntanlegrar fæðingar 8. febrúar. Síðan segir:
"Henni var með bréfi dags. 27. febrúar synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þar sem í skrám skattyfirvalda kæmu ekki fram tekjur í ágústmánuði. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. febrúar.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir m.a.:
"Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. "

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir:
"Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands var A búsett í Svíþjóð frá 16. janúar 1999, í Danmörku frá 12. desember 1999 og hún flutti síðan til Íslands þann 1. ágúst 2000. Með umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fylgdu samnorrænt flutningsvottorð, staðfestingar á því að hún hefði verið í starfi hjá fyrirtækinu B meðan hún var búsett erlendis, staðfesting á því að hún hafi starfað hjá D. frá 5. nóvember 18. desember 2001 í 50% starfi og tilkynning um fæðingarorlof frá 15. janúar 2001 til E þar sem fram kemur að hún sé í 100% starfshlutfalli. Fyrir liggur einnig vottorð E 104 dags. 15. september 2000 útgefið af Köbenhavn Kommune um sjúkratryggingatímabil hennar í Danmörku þann tíma sem hún var með lögheimili þar.

Í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hefjast launagreiðslur til A frá fyrirtækinu E í september 2000. Þar sem væntanleg fæðing barns hennar var 8. febrúar 2001 og hún sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. febrúar var ágústmánuður innan þess sex mánaða tímabils sem skilyrði er gert um samfellt starf á samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Hún var þá flutt til Íslands og er staðfest af vinnuveitanda hennar erlendis að starfstíma hennar þar var lokið.

Lífeyristryggingasvið telur samkvæmt framansögðu að A uppfylli ekki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Með bréfi, dags. 22. maí 2001, kom kærandi að frekari athugasemdum, þar segir m.a. orðrétt:
"Þá erum við komin að ágústmánuði sem úrskurður Tryggingastofnunar byggist á. Ég tók þá ákvörðun að hætta hjá fyrirtækinu C um [mánaðarmótin] júlí-ágúst og taka mér sumarfrí í ágúst, allir eiga jú rétt á því að taka sér sumarfrí, jafnvel ófrískar konur. Ég þurfti að ganga frá mínum málum erlendis gagnvart barnsföður mínum sem búsettur er í Belgíu og fleiru áður en ég færi heim....

Hagstofu upplýsingar eru ekki réttar vegna þess að í apríl 1999 flyt ég frá Svíþjóð til Belgíu og frá Belgíu til Danmerkur í desember 1999."

Þann 17. september 2001 bárust viðbótargögn í málinu. Um er að ræða launaseðla sem sýndu fram á að kærandi hafi starfað hjá B, frá 13. apríl 1999 til 30. nóvember 1999 og hjá C frá þeim tíma til og með júlí 2000. Staðfest er af hennar vinnuveitanda, F, hjá C að kærandi hafi öðlast rétt til orlofs, þar sem hún hafi unnið í ár hjá fyrirtækinu á þeim tímapunkti sem hún lét af störfum í júlí 2001, sem hún kaus að taka í ágúst 2001.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að hafna kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði tímabilið 1. febrúar 2001 til og með 31. júlí 2001.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samfellt starf samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er meðal annars orlof samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi. Kærandi lét af störfum hjá fyrirtækinu C 31. júlí 2000 og flutti til Íslands 1. ágúst 2000. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi með starfi sínu hjá fyrirtækinu áunnið sér rétt til orlofs, sem hún tók í ágúst 2000. Kærandi hóf síðan störf hjá fyrirtækinu E í september 2000 og starfaði þar fram að upphafsdegi fæðingarorlofs, ásamt því að starfa hjá Íslenskri miðlun ehf. á tímabilinu frá 5. október 2000 til og með 18. desember 2000.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A, í fæðingarorlofi er hafnað. A uppfyllir skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og ber að afgreiða málið með hliðsjón af því.

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta