Hoppa yfir valmynd
11. september 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2001

Þriðjudaginn, 11. september 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 23. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. apríl 2001.

Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um fæðingarstyrks sem námsmanns.

Þann 6. apríl 2001 sækir kærandi um greiðslu fæðingarstyrks samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.) og óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur í fæðingarorlofi frá 1. apríl til 30. júní 2001. Kærandi ól barn 1. maí 2001.

Kærandi fer þess á leit að greiðslur til hennar í fæðingarorlofi verði endurskoðaðar, í kærunni segir:

"Með bréfi þessu kæri ég afgreiðslu umsóknar minnar um fullan fæðingarstyrk en samkvæmt bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) dags. 10. apríl s.l. fæ ég fæðingarstyrk í þrjá mánuði kr. 35.037 hvern mánuð. Ekki er amast við fjölda þeirra mánaða sem greitt er heldur við styrksupphæðina, það er að miðað er við lágmarksstyrk en ekki fullan fæðingarstyrk sem nú er kr. 79.077,-.

Til skýringa á kærunni er rétt að greina frá aðstæðum mínum síðustu tólf mánuði. Fyrir tæpu ári eða 24. maí 2000 fæddi ég barn. Í kjölfarið var ég í fæðingarorlofi í 6 mánuði eða til 1. nóv. 2000. Naut ég greiðslna samkvæmt þágildandi reglum sem byggðust á lögum nr. 117/1993. Tólf mánuði þar á undan hafði ég uppfyllt þá vinnuskyldu sem krafist var samkvæmt þágildandi lögum.

Á meðan ég var í fæðingarorlofi á síðasta ári verð ég barnshafandi að nýju og er áætlaður fæðingardagur 24. apríl 2001. Þar sem fæðingarorlof mitt á síðasta ári stóð til fyrsta nóvember hafði ég ekki tök á að sinna námi á haustönn 2000. Aukinheldur þrengdi það verulega möguleika mína á vinnumarkaði að vera barnshafandi að nýju. Þess utan var það ávallt mín stefna að ljúka Háskólanámi en ég hef verið skráð í Háskólann frá áramótum og mun ljúka námi í september n.k.

Sá tími sem líður frá lokum síðasta fæðingarorlofs þar til nám hefst að nýju, það er nóvember og desember síðastliðinn var ég sjálfstætt starfandi blaðamaður (í lausamennsku.) Þó erfitt sé að meta starfshlutfall í slíkum kringumstæðum hefur það lauslega áætlað verið a.m.k. 50 -75%, en þar sem starfsfólk TR hefur tjáð mér að engu máli skipti við úrlausn á erindi mínu hvert starfshlutfallið er hef ég ekki gert nákvæma skoðun á því.

Kæruefnið snýr að því að ekki virðist gert ráð fyrir því að síðustu mánuði fyrir fæðingu skiptist tími foreldris á milli launavinnu og náms. Mér er greint frá því að þar sem ég teljist ekki í fullu námi á viðmiðunartíma eigi ég ekki rétt á fullum fæðingarstyrk. Síðustu tólf mánuði hef ég verið í fæðingarorlofi í sex mánuði, þar á eftir í a.m.k. 50 -75% starfi í tvo mánuði og loks í fjóra mánuði í fullu námi. Hefði lögum ekki verið breytt hefði ég átt rétt á greiðslum uppá 79.077 kr á mánuði. Með túlkun TR á nýju lögunum skerðist þessi greiðsla í kr. 35.037.

Sú greiðsla miðast við heimavinnandi einstaklinga eða þá sem eru í minna en 25% starfi. Fæðingarorlofsgreiðsla til þeirra sem eru í 25%-49% starfi skal að lágmarki vera kr. 57.057. Námsmenn í fullu námi eiga rétt á kr. 79.077 á mánuði.

Ég geri kröfu um fulla greiðslu miðað við að ég sé í fullu námi. Ekki kemur til álita að miða við kr. 57.057 þar sem síðustu sex mánuði hef ég verið í fullu námi í fjóra mánuði og í meira en 50% starfi í tvo mánuði. Sé vilji til að líta til tólf mánaða tímabils ætti það að renna enn traustari stoðum undir kröfu mína.

Meginrök sem ég vísa til kröfu minni til stuðnings er ætlun löggjafans. Það gefur auga leið að löggjafinn ætlaði sér ekki að rýra rétt foreldra með nýjum lögum. Þvert á móti er iðulega vísað til þess að verið er að auka réttindi foreldra. Nægir að nefna athugasemdir með 19. gr. núgildandi laga (nr. 95/2000) þar sem segir: "Gert er ráð fyrir að frumvarpið leiði ekki til skerðingar frá núgildandi fæðingarorlofskerfi á greiðslum til foreldra sem eru í fullu námi."

Í reglugerð nr. 909/2000 er nánar tilgreint um tilhögun greiðslna á fæðingarstyrk en þar er fullt nám skilgreint í 14. gr. sem: "...samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi." En í sömu grein segir einnig: "Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst."

Með vísan til þessarar greinar hlýtur undirrituð að teljast uppfylla skilyrði um fullan fæðingarstyrk það er kr. 79.077. Þó að til álita komi orðalagið "samfellt" starf lít ég svo á að ekki sé annað hægt en að líta á fæðingarorlofstöku mín í sex mánuði á síðasta ári sem ígildi samfellts starfs. Að því loknu tekur við lausamennska í tvo mánuði þar sem starfshlutfall er að minnsta kosti 50-75%."

Með bréfi 25. apríl 2001 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 9. maí 2001. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi áður en hún skilaði inn umsókninni leitað upplýsinga um rétt sinn og að hún hafði fengið þær upplýsingar að hún ætti ekki rétt á að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður þar sem nám hennar uppfyllti ekki skilyrði sem sett væru í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 909/2000. Síðan segir:

"Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Umsókn hennar var afgreidd í samræmi við [þetta] og fékk hún þá senda tilkynningu um hverjar greiðslur til hennar yrðu.

Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir m.a.: Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks..."

Í 1., 2. og 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir: "Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi....

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst." ...

A var ekki í námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns og uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar fyrir því að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður.

Varðandi það hvort 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar eigi við þá er með því ákvæði komið á móts við foreldra sem hefðu uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði ef þeir hefðu ekki sagt upp starfi sínu til þess að fara í nám. Í skrám skattyfirvalda er ekki að finna neinar upplýsingar um að A hafi verið í starfi á árinu 2000. Hún fékk greiddan fæðingarstyrk og fulla fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins tímabilið apríl-september 2000 á þeim grundvelli að hún hefði á tímabili apríl-desember 1999 unnið 1032 vinnustundir (hún fékk samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra greidd laun fram í september 1999 en mun auk þess hafa unnið eitthvað sem verktaki). Ekki verður því litið svo á að A uppfylli undanþáguskilyrði 4. mgr. [14. gr.] fyrir því að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður þrátt fyrir að skilyrði um nám í sex mánuði sé ekki uppfyllt."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Með bréfi, dags. 5. júní 2001, var kæranda gefinn kostur á að koma að nánari upplýsingum um störf sem unnin voru á tímabilinu frá því að fæðingarorlofinu lauk á síðastliðnu ári og þangað til nám hennar hófst um síðastliðin áramót við Háskóla Íslands. Auk þessa var óskað eftir upplýsingum um skráningu kæranda við Háskóla Íslands á yfirstandandi ári.

Engar athugasemdir bárust né svör við þeim spurningum sem óskað var svara við með bréfi, dags. 5. júní 2001, málið er því úrskurðað með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum til A vegna töku fæðingarorlofs sem hefjast átti í apríl 2001.

Foreldrar í fullu námi eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks, sbr. 19. gr. ffl. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. reglugerðar, nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilyrði að námsmenn þurfa að hafa verið í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns síns í 75100% samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi. Í 4. mgr. 14. gr. framangreindrar reglugerðar er gerð undanþága frá ákvæðinu, þar sem heimild er til að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni, þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi hvorki skilyrði 1. né 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar til þess að fá greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður, er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta