Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2001

Mánudaginn, 2. júlí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 26. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 25. apríl 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þann 30. nóvember 2000 staðfesti vinnuveitandi kæranda móttöku tilkynningar um fæðingarorlof. Með umsókn, dags. 14. desember 2000, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi fer þess á leit að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði verði endurskoðuð þar sem hún telur útreikning Tryggingastofnunar ríkisins ekki grundvallast á þeim tekjum sem hún hafði á því tímabili sem stuðst er við þegar reiknaðar eru út greiðslur til kæranda í fæðingarorlofi. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Undirrituð fékk launaflokksbreytingu þann 1.4.2000, sem þó kom ekki til framkvæmdar fyrr en nokkrum mánuðum síðar og er um að kenna seinagangi vinnuveitanda. Með vísan í ofangreint krefst ég að miðað verði við þau laun sem ég átti að fá þann 1.4.2000. Það væri mikið óréttlæti ef ekki væri miðað við þau laun sem mér bar að fá skv. meðfylgjandi bréfi, dagsett 15.12.2000, frá launagreiðanda. Það er minn réttur að miðað verði við þau laun sem ég hef sannanlega fengið, þótt útborgun hafi dregist. Ákvörðun meðaltekna hefur einnig áhrif á þær fjárhæðir sem ég fæ úr fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM og því er mikilvægt að unnið sé með réttar tölur frá upphafi. Með vísan í ofangreint óska ég eftir því að ákvörðun meðaltekna minna verði endurreiknaðar samkvæmt sannanlegum launum sem ég tel fram á skattframtali mínu og borga skatta af."

Með bréfi, dags. 26. apríl 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 9. maí 2001. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi með umsókn sinni, dags. 14. desember 2000, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá væntanlegum fæðingardegi barnsins, þann 26. janúar 2001. Síðan segir:

"Með umsókninni fylgdi staðfesting frá vinnuveitanda hennar þess efnis að hún raðist í launaflokk B05 frá 1. apríl 2000 (kr. 155.403 á mánuði) og í útborgun 21. desember hafi verið afgreidd launaflokksbreyting fyrir tímabilið apríl-nóvember.

Í 13. gr. laganna segir m.a. í 1., 2. og 4. mgr.: "Foreldri ... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs....

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum [um] tryggingagjald"

Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að það með mánuðum í 2. mgr. 13. gr. er átt við almanaksmánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir: "Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Þar sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til A hófust þann 26. janúar 2001 miðaðist útreikningur á greiðslum til hennar við laun hennar samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra tímabilið nóvember 1999-október 2000. Viðmiðunartímabilinu var þannig lokið þegar afturvirk launahækkun hennar mun hafa komið til framkvæmda í desember. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver launakjör hennar voru fyrir þann tíma en lægstu laun hennar á árinu 2000 (í átta af mánuðunum) voru kr. 150.843 (og hækkunin væri samkvæmt því kr. 4.560 á mánuði).

Lífeyristryggingasvið telur sér ekki fært að taka tillit til slíkrar afturvirkrar launahækkunar eftir að viðmiðunartímabilinu er lokið án þess að skýr heimild fyrir því liggi fyrir og óskar hér með eftir úrskurði nefndarinnar."

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegri greiðslu til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 26. janúar 2001 til 25. janúar 2002.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi hóf töku fæðingarorlofs 26. janúar 2001, viðmiðunartímabil við útreikning á greiðslum í fæðingarorlofi er því frá 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000.

Launafulltrúi B í Reykjavík staðfestir með bréfi, dags. 15. desember 2000, að kærandi sem er starfandi hjúkrunarfræðingur hjá B hafi fengið launaflokksbreytingu fyrir tímabilið 1. apríl 2000 til og með 30. nóvember 2000, sem afgreidd var með útborgun 21. desember 2000.

Launahækkun kæranda á rætur að rekja til breytinga á röðun í launaflokk samkvæmt gildandi kjarasamningi. Ljóst þykir að sú launahækkun sem kom til greiðslu í desember 2000 er fyrir tímabil sem fellur að hluta innan þess viðmiðunartímabils sem miða skal við þegar reikna skal út greiðslur kæranda í fæðingarorlofi.

Með hliðsjón af framangreindu ber að telja þann hluta famangreindrar launahækkunar kæranda sem sannanlega fellur innan viðmiðunartímabilsins, þ.e. 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000, til heildarlauna kæranda samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., þrátt fyrir að launahækkunin hafi komið til greiðslu eftir að viðmiðunartímabilinu lauk.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sem lagður er til grundvallar greiðslum til A, úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000, þar með taldar þær launahækkanir sem sannanlega falla innan viðmiðunartímabilsins.

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta