Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2001

Mánudaginn, 2. júlí 2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 18. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til kæranda í fæðingarorlofi.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 10. apríl 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Með umsókn sinni til Tryggingastofnunar ríkisins óskar kærandi eftir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 27. febrúar 2001 til og með 27. ágúst 2001. Kærandi ól barn 2. mars 2001.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 15. febrúar, var kæranda tilkynnt um greiðslur fæðingarstyrks í fæðingarorlofi. Kærandi telur sig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Í lögum nr. 95/2000 í 13. gr. "Réttur foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði" segir: "Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil. Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur 54.021,- á mánuði." Ég var í 30% starfi og því tel ég að ég eigi rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að upphæð 54.021,- á mánuði í stað þess að fá greiddan fæðingarstyrk. Þó að greitt tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi sé lág upphæð kemur hvergi fram í lögunum að sú upphæð skuli nema einhverju lágmarki. Sem sjálfstætt starfandi einstaklingur reikna ég sjálfri mér laun þegar búið er að greiða allan kostnað við rekstur fyrirtækisins, sem getur verið verulegur sérstaklega meðan verið er að koma því af stað. Og þó launin sem ég reikna mér séu lág þá er þetta nú það sem eftir er, þegar upp er staðið. Af þessum launum greiði ég þó það sem af mér er ætlast til ríkisins, í þá sjóði sem sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga að greiða. Ef ég væri heimavinnandi einstaklingur bæri mér ekki að greiða eina einustu krónu til ríkisins en þó fengi ég sömu upphæð í fæðingarstyrk og ég geri nú. Mér finnst vanvirðing við mitt fyrirtæki og mitt vinnuframlag að það sem ég legg af mörkum, þó lítið sé, sé ekkert metið, þó að í lögunum komi skýrt fram að þeir sem séu í 25-49% vinnu skulu aldrei fá lægri upphæð en 54.021,- á mánuði. Ég óska eftir að umsókn mín um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði endurmetin og tillit tekið til starfshlutfalls."

Með bréfi, dags. 4. maí 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 28. maí 2001. Í greinargerðinni segir:

"Með ódagsettri umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fylgdu staðfesting frá Bókhaldsþjónustunni B ehf. um að hún hefði verið í 30% starfi á árinu 2000 ásamt rekstrarreikningi, og einnig bárust með faxi staðfestingar um móttöku skilagreina fyrir hana vegna júlí-desember 2000 þar sem fram kemur að reiknað endurgjald greiðanda sé kr. 10.000 á mánuði. Í yfirliti ríkisskattstjóra fyrir reiknað endurgjald kemur fram að greitt hefur verið tryggingagjald á árinu 2000 vegna þessarar fjárhæðar og að áætlað reiknað endurgjald frá febrúar 2000 sé áfram kr. 10.000 á mánuði.

Í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir m.a. í 1., 2. og 4. mgr.:

"Foreldri... öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs....

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum [um] tryggingagjald...

Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25-49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur [57.057] kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50-100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur [79.077] kr. á mánuði."...

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir:

"Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir:

"Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir:

"Þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skal fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um er að ræða."

A sótti um að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hæfust frá 27. febrúar 2001 og til þess að hún ætti rétt á þeim greiðslum þurfti hún að uppfylla skilyrði um að hafa verið í starfi síðustu sex mánuði á undan og í a.m.k. 25% starfshlutfalli, þ.e. tímabilið ágúst 2000-janúar 2001.

Í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á árinu 2000 eru mánaðarlaun fyrir fullt starf í flokki E (menn sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem ekki fellur undir flokka A til D) kr. 125.000 (og á árinu 2001 kr. 140.000). Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var reiknað endurgjald A á árinu 2000 kr. 10.000 á mánuði sem samsvarar 8% starfi.

Lífeyristryggingasvið telur því að A hafi ekki uppfyllt það skilyrði að vera samfellt í starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuðina fyrir fæðingarorlof og að hún eigi ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Þann 12. júní 2001 barst úrskurðarnefnd bréf frá kæranda, í bréfinu er ekki um að ræða frekari upplýsingar um málið né kröfur sem ekki hafa áður komið fram.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 27. febrúar 2001 til 27. ágúst 2001.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með hliðsjón af gögnum málsins og viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu, þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris, sbr. 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í 25% samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þar af leiðandi hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A, er staðfest.

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta