Hoppa yfir valmynd
23. maí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2001

Miðvikudaginn, 23. maí 2001

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 5. apríl 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda á mánaðarlegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Málavextir eru þeir að A sendi inn kæru, dags. 4. apríl 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Hún tilkynnti sínum atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs 1. febrúar 2001. Í febrúar 2001 sækir hún um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða um fæðingarstyrk samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.). Hún óskar eftir því að fá samfelldar greiðslur frá 1. mars 2001 til 1. september 2001. A ól barn 26. febrúar 2001.

Kærandi fer þess á leit að tekið verði tillit til aðstæðna sinna og að gerð verði undanþága frá þeirri reglu að starfsmaður þurfi að hafa verið í samfelldu launuðu starfi í sex mánuði fyrir upphaf greiðslna í fæðingarorlofi. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Ég eignaðist annað barn mitt hér á Íslandi 1997 og tók fæðingarorlof hér á landi. Ég hóf aftur störf eftir fæðingarorlof 1. apríl 1998 í saumastofunni hjá B. Þar vann ég þar til tengdarfaðir minn lést síðastliðið sumar. Ég fór ásamt fjölskyldu minni til D til að jarða tengdaföður minn og syrgja hann. Þegar ég hafði verið í mánuð í D gerði ég mér grein fyrir að mánuður væri ekki nægur tími. Ég hafði því samband við vinnuveitanda minn hér heima og bað um frekara frí. Vinnuveitandinn hafnaði því og sagði mér upp. Ég var í tvo mánuði í D og kom þá heim. Ég hóf störf hjá E í byrjun september 2000. Það munar aðeins tveimur dögum að ég nái 6 mánaða samfelldu launuðu starfi fyrir upphaf greiðslna í fæðingarorlofi.

Í lok ágúst 2000 fór ég [í] Tryggingastofnun ríkisins og var mér tjáð að ég væri komin með nægar vinnustundir til að eiga rétt á fæðingarorlofi. Mér voru gefnar rangar upplýsingar. Ef ég hefði fætt drenginn minn í desember þá hefði ég fengið fæðingarorlof sem væri 74.867 kr. á mánuði en ekki fæðingarstyrk sem er 35.037 kr. á mánuði en það fæ ég í dag."

Með bréfi, dags. 17. apríl 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 7. maí 2001. Í greinargerðinni kemur fram að A hafi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. mars 2001, síðan segir:

"Henni var með bréfi dags. 6. mars synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir uphafsdag fæðingarorlofs. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. febrúar.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir m.a.:

"Foreldri...öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs."

Í [2. og ] 3. mgr. 8. gr. laganna segir:

"Réttur til fæðingarorlofs stofnast við fæðingu barns. Þó er konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Kona skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns."

Í 3. mgr. 15. gr. laganna segir:

"Útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skulu byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar."

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk A í júní 2000 greidd laun að fjárhæð kr. 9.400, [hún] var án launa í júlí og ágúst en fékk greidd laun aðra mánuði ársins. Þar sem væntanleg fæðing barns hennar var 16. febrúar 2001 var ágústmánuður innan þess sex mánaða tímabils sem skilyrði er gert um samfellt starf samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof."

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. maí 2001, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna töku fæðingarorlofs.

Kærandi hefur samkvæmt gögnum málsins starfað hjá E hf. frá 1. september 2000 og starfaði hún þar þegar hún hóf töku fæðingarorlofs, 1. febrúar 2001, þar sem hún samkvæmt læknisvottorði, dags. 1. febrúar 2001, reyndist óvinnufær með öllu.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Kærandi uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði í ágúst 2000 né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta