Hoppa yfir valmynd
23. maí 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2001

Miðvikudaginn, 23. maí 2001

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

Þann 6. mars 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Málavextir eru þeir að A sendir inn kæru, dags. 2. mars 2001, til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Þann 15. desember 2000 staðfestir vinnuveitandi kæranda móttöku tilkynningar um fæðingarorlof. Með umsókn, dags. 11. desember 2000, óskar kærandi eftir samfelldri greiðslu frá 12. janúar 2001 til og með 12. febrúar 2001 úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk samkvæmt lögum nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi fer þess á leit að mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði verði endurskoðuð þar sem hann telur útreikning Tryggingastofnunar ríkisins ekki grundvallast á þeim tekjum sem hann hafði yfir viðmiðunartímabilið, þ.e. frá nóvember 1999 til og með október 2000. Í rökstuðningi með kæru segir:

"Það vantar októbermánuð inn í heildarmeðallaun þar sem ég var til sjós á B frá 06.10.00-10.11.00. Þar sem túrinn er allur gerður upp í nóvembermánuði þá dettur október út úr orlofsviðmiðun. Ég held því fram að orlofssjóður geti miðað við meðallaun hvern dag sem ég var til sjós í október þ.e. 06.10-31.10., sem eru þá 26 dagar eða 20.913.- á dag."

Með bréfi, dags. 6. mars 2001 óskar úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins barst 10. apríl 2001. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi fengið greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 12. janúar11. febrúar 2001 vegna fæðingar barns hans þann 12. janúar 2001. Mánaðarleg greiðsla til kæranda nam 110.078 kr., þ.e. 80% af meðaltekjum fyrir tímabilið nóvember 1999 til og með október 2000 með vísan til 8., 13. og 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, og 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Síðan segir:

"A leggur fram staðfestingu frá vinnuveitanda sínum um að laun að fjárhæð kr. 752.876 sem samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK eru greidd fyrir nóvember 2000 (og reiknast ekki með í meðaltalinu vegna þess að hann byrjaði í fæðingarorlofi í janúar) séu vegna vinnu tímabilið 6. október-10. nóvember. Þar af séu því kr. 543.738 í raun laun fyrir vinnu í október sem hann fer fram á að reiknist með við útreikning á greiðslum til hans í fæðingarorlofi.

Með umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fylgdu tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitandans D ehf. og staðfestingar um launatekjur hans frá vinnuveitendum hans á viðmiðunartímabilinu, þ.e. E ehf., F hf. og G ehf. Þessi gögn báru ekki með sér að verið væri að óska eftir að tekið væri tillit til þess að um hefði verið að ræða launagreiðslur fyrir vinnu á viðmiðunartímabilinu sem rangar upplýsingar væru um í staðgreiðsluskrá RSK. Við afgreiðslu umsóknar hans var því við útreikning á greiðslum til hans eingöngu miðað við upplýsingar í staðgreiðsluskrá RSK en þar var þá að finna upplýsingar um launagreiðslur til hans þangað til í nóvember 2000 sem er eðlilegt þar sem almennt er ekki búið að skrá þar laun síðustu tvo mánuði.

Tryggingastofnun ríkisins telur að skv. 3. mgr. 15. gr. laganna sé heimilt að taka til greina gögn sem umsækjandi framvísar þess efnis að laun sem skv. staðgreiðsluskrá RSK eru greidd fyrir ákveðinn mánuð séu í raun greidd fyrir annað tímabil og bendir á að það var gert við afgreiðslu umsóknar hans þegar tekið var tillit til þess að þrátt fyrir að laun A í ágúst 2000 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK kr. 9.172 voru laun hans í september 2000 [] kr. 325.817 og var þannig talið að um samfellt starf á síðustu sex mánuðum hefði verið að ræða, þ.e. að hann hefði verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu júlí-desember 2000.

Hins vegar hefur nú komið í ljós að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK fékk hann ekki greidd laun í desember 2000 og þar sem í því felst að hann uppfyllir ekki skilyrði um að hafa verið samfellt í starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs óskar Tryggingastofnun ríkisins hér með eftir áliti úrskurðarnefndarinnar á því hvort A hafi yfir höfuð átt rétt á því að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði."

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. apríl 2001, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Hinn 27. apríl sl. bárust viðbótargögn, þ.e. launaseðill kæranda, þar sem fram kemur að hann var á launaskrá hjá D ehf. í desember 2000.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á mánaðarlegri greiðslu til kæranda vegna töku fæðingarorlofs tímabilið 12. janúar 2001 til og með 11. febrúar 2001.

Eins og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. apríl 2001, þá óskar stofnunin eftir áliti úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála um það hvort kærandi ætti rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem komið hafi í ljós að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafði kærandi ekki fengið laun í desember 2000.

Kærandi tilkynnir töku fæðingarorlofs 15. desember 2000 til vinnuveitanda síns og staðfesti hann móttöku tilkynningarinnar. Vinnuveitandi hans, H f.h. D ehf. ritar jafnframt undir umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk skv. lögum nr. 95/2000. Í viðkomandi umsókn kemur fram að skattkort föður muni berast strax eftir áramót, þar sem það sé í fullri notkun í desember 2000. Þar sem viðkomandi upplýsingar voru ekki komnar inn í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda en sjá mátti af gögnum málsins að viðkomandi var í starfi hjá D ehf. í desember var mikilvægt að gefa kæranda kost á að koma að frekari gögnum máli sínu til stuðnings, sbr. 3. mgr. 15. gr. ffl.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum mátti Tryggingastofnun ríkisins vera ljóst að málið þyrfti frekari rannsóknar við, nauðsynlegar upplýsingar skorti til þess að hægt yrði að taka ákvörðun um rétt kæranda til greiðslna í fæðingarorlofi.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hafa borist gögn frá kæranda, sem óskað var eftir og staðfesta áunnin rétt kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála er sammála þeirri afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að skv. 3. mgr. 15. gr. ffl. sem fram kemur í greinargerð stofnunarinnar í máli þessu að heimilt sé að taka til greina gögn sem umsækjandi framvísar þess efnis að laun sem samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK eru greidd fyrir ákveðinn mánuð séu í raun greidd fyrir annað tímabil.

Kærandi hefur með starfi sínu frá 12. júlí 2000 til og með 11. janúar 2001 áunnið sér rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi skal skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skal við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Með hliðsjón af því skulu mánaðarlegar greiðslur til kæranda nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að fallast á kröfu kæranda um að útreikningur á mánaðarlegri greiðslu til hans úr Fæðingarorlofssjóði skuli endurskoðaður með hliðsjón af gögnum um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sem lagður er til grundvallar greiðslum til A, úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna fyrir tímabilið 1. nóvember 1999 til og með 31. október 2000.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta