Ingibjörg Jóhannsdóttir skipuð safnstjóri Listasafns Íslands
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur skipað Ingibjörgu Jóhannsdóttur til að gegna embætti safnstjóra við Listasafn Íslands.
Ingibjörg hefur undanfarin ár verið skólastjóri Myndlistarskólans í Reykjavík og Landskotsskóla samanlagt hátt í tvo áratugi. Hún er því reyndur stjórnandi og hefur góða þekkingu á laga- og starfsumhverfi forstöðumanna og reynslu af mannahaldi. Áður hafði hún starfað um þriggja ára skeið við Listasafn Íslands, verið stundakennari við Listaháskóla Íslands og fleiri skóla. Ingibjörg nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Myndlistaskólann í Reykjavík og Pratt Institute í New York þar sem hún lauk Master of Fine Art prófi.
Umsækjendur um starfið voru sjö en einn umsækjenda dró umsókn sína til baka. Skipuð var hæfnisnefnd sem mat þrjá umsækjendur vel hæfa til að gegna embætti safnstjóra. Að loknum ráðningarviðtölum ráðherra var það heildstætt mat að Ingibjörg stæði öðrum umsækjendum framar, sakir stjórnunarreynslu sinnar, menntunar og sýn hennar á framtíð Listasafns Íslands.
Skipunin er til fimm ára samkvæmt meginreglu um skipan forstöðumanna ríkisstofnana. Ingibjörg mun taka við embætti safnstjóra hinn 1. mars 2023 en fram að því mun Guðrún Jóna Halldórsdóttir verða starfandi safnstjóri.