Í ljósi umræðu síðustu daga um samninga um bóluefni og afhendingu efnanna vill heilbrigðisráðuneytið árétta eftirfarandi:
Það er styrkur Íslands að hafa átt þess kost að vera með í breiðu og öflugu samstarfi Evrópuþjóða um samninga og kaup á bóluefni. Við höfum þegar tryggt okkur með þeim samningum bóluefni sem er mun meira en við þurfum á að halda. Ísland er samferða Evrópusambandinu og hinum Norðurlöndum og reiknað er með því að stór hluti Íslendinga verði bólusettur fyrir sumarið.
Frá bóluefnaframleiðandanum Pfiser fær Ísland um 250.000 skammta sem duga fyrir um 125.000 einstaklinga. Fyrsta sending barst 28. desember og var 10.000 skammtar og fram í mars 2021 munu okkur berast að lágmarki 50.000 skammtar af bóluefni Pfizer.
Samningur Íslands við Moderna var undirritaður 30. desember. Mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) er forsenda markaðsleyfis og áætlað er EMA haldi matsfund vegna Moderna 6. janúar 2021 en til vara 12. janúar 2021. Ísland fær um 128.000 skammta sem duga fyrir um 64.000 einstaklinga og áætlað er að afhending hefjist á fyrsta ársfjórðungi.
Ísland fær einnig um 230.000 skammta sem duga fyrir um 115.000 einstaklinga af bóluefni frá Aztra Zeneca og fyrirtækið stefnir að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi.
Ísland fær bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga frá Janssen og áætlað að byrja afhendingu á þriðja ársfjórðungi.
Upplýsingar um fjölda skammta frá fyrirtækjunum Sanofi og Curavac liggja ekki fyrir.