Hoppa yfir valmynd
18. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 220/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 220/2021

Föstudaginn 18. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. apríl 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á árunum 2018 til 2021. Samhliða atvinnuleysisbótum starfaði kærandi í 50% starfi hjá B. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2021, var kæranda tilkynnt að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið október 2018 til janúar 2021, að fjárhæð 1.260.639 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. apríl 2021. Með bréfi, dags. 30. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. maí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa á árunum 2018 og 2019 þegið atvinnuleysisbætur frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Kærandi hafi þegið atvinnuleysisbæturnar á móti hálfu starfi hjá B með fullri vitneskju Vinnumálastofnunar að um hálfar bætur hafi verið að ræða. Kærandi hafi fyrir mistök ekki hakað við að nýta ætti skattkortið hennar hjá Vinnumálastofnun og því hafi tekjur hennar ekki verið teknar til greina til lækkunar á bótum á móti starfinu heldur hafi hún fengið fullar 50% atvinnuleysisbætur á móti starfinu á meðan á tímabilinu hafi staðið. Kæranda hafi láðst að gera sér grein fyrir því að hún væri að fá ofgreiddar atvinnuleysisbætur og þegar hún hafi fengið bréf þess efnis frá Atvinnuleysistryggingasjóði hafi hún verið búin að safna upp allnokkurri skuld, eða 1.260.639 kr. Þetta sé búið að valda kæranda miklum kvíða, sérstaklega vegna þess að hún geti með engu móti borgað þessa skuld til baka. Kærandi sé nýkomin úr námi og sé byrjuð að borga Menntasjóði námsmanna til baka, auk þess sem hún sé einstæð og búi í leiguhúsnæði. Vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar sjái kærandi fram á það að hún þurfi að fara í gjaldþrot og vilji hún allra síst þurfa að fara þá leið. Kærandi fari því fram á að Greiðslustofa Vinnumálastofnunar falli frá ákvörðuninni um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysisbætur þann 2. maí 2018 og reiknast með 100% bótarétt. Þann 29. janúar 2018 hafi kærandi sætt biðtíma vegna ótilkynntra tekna og hafi enn verið þrír mánuðir eftir af þeim biðtíma þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur í maí 2018. Greiðslur til kæranda hafi hafist að þeim tíma loknum. Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi kærandi fengið launagreiðslur frá B en kærandi hafi hafið þar störf í 50% starfi. Það hafi verið skráð hjá Vinnumálastofnun þann 18. september 2019. Kæranda hafi síðan verið tjáð að hún ætti sjálf að skrá tekjurnar inn á Mínum síðum. Við yfirferð á gögnum frá Skattinum hafi komið í ljós að laun frá B hafi ekki skráðst sem skyldi. Frá september 2018 og fram til október 2019 hafi kærandi ekki áætlað tekjur sínar frá B. Þar sem ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun hafi kærandi safnað upp skuld á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Eftir þann tíma hafi kærandi áætlað tekjur frá B en þær hafi ekki í öllum tilvikum verið áætlaðar í samræmi við rauntekjur kæranda frá B. Af þeim sökum hafi myndast skuld hjá kæranda.

Kæranda hafi verið tilkynnt um fjárhæð skuldar sinnar með greiðsluseðlum og að ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi verið skuldajafnað sem hafi numið 25% af atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Þegar kærandi hafi hætt að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta þann 20. janúar 2021 hafi skuld kæranda numið 1.260.639 kr., án álags. Þann 23. mars 2021 hafi kæranda verið sent innheimtubréf vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið september 2018 til janúar 2021. Skorað hafi verið á kæranda að greiða skuld sína innan 90 daga. Tekið hafi verið fram í bréfinu að ef skuld væri ekki að fullu greidd innan þriggja mánaða yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Þar komi fram að þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans samkvæmt 32.-34. gr. séu hærri en sem nemi óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki samkvæmt 4. gr. skuli skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram séu. Hið sama gildi um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem séu komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skuli taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hafi haft á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur, sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum.

Sökum þess að kærandi hafi ekki skráð tekjuáætlun vegna starfa sinna frá september 2018 fram til október 2019 hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum hafi verið skuldajafnað sem hafi numið 25% af atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði á móti síðar tilkomnum greiðslum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Eftirstöðvar uppsafnaðar skuldar kæranda nemi nú 1.260.369 kr. og krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum á þeirri fjárhæð sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Bendi Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 49/2010. Jafnframt bendi Vinnumálastofnun á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 86/2013 um að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Í þeim tilvikum sem greiðslurnar hafi numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta geri ráð fyrir, komi þær til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda í samræmi við 36. gr. laga nr. 54/2006. Skuld þessi sé tilkomin vegna þess að tekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins hafi ekki komið fram fyrr en allnokkru eftir að þeirra hafi verið aflað. Þegar atvinnuleysisbætur séu reiknaðar út sé skerðing atvinnuleysisbóta vegna tekna reiknuð út í samræmi við áætlaðar tekjur, til að mynda í hlutastarfi, þar sem rauntekjur úr launagreiðendaskrá Skattsins berist ekki fyrr en í fyrsta lagi í mánuðinum á eftir. Vegna þessa geti atvinnuleysisbætur verið vanskertar við útborgun, eins og í tilfelli kæranda og þegar samkeyrslan verði á rauntekjum sé skerðingin leiðrétt og mismunur lendi í skuld.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda líkt og henni hafi verið tilkynnt um með bréfi, dags. 23. mars 2021.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2021, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið október 2018 til janúar 2021, að fjárhæð 1.260.639 kr., vegna tekna sem kærandi aflaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk tekjur frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Ljóst er að tekjurnar höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjuáætlun kæranda var ekki í samræmi við rauntekjur hennar fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. mars 2021, í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta