Hoppa yfir valmynd
5. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 208/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 208/2022

Fimmtudaginn 5. maí 2022

A og

B

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. apríl 2022, kærðu A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála bréf velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 28. febrúar 2022, vegna umsóknar þeirra um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 15. apríl 2022 vegna bréfs velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 28. febrúar 2022, þar sem kærendum er tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun vegna umsóknar þeirra um félagslegt leiguhúsnæði.

Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 25. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvort fyrir lægi endanleg ákvörðun í máli kærenda. Svar barst 2. maí 2022 þess efnis að svo væri ekki en ákvörðun myndi liggja fyrir innan nokkurra daga.

II.  Niðurstaða

Kærendur lögðu fram kæru vegna bréfs velferðarsviðs Reykjavíkurborgar frá 28. febrúar 2022 vegna umsóknar þeirra um félagslegt leiguhúsnæði.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Um húsnæðismál er fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í sömu málsgrein segir að nefndin meti að nýju alla þætti kærumáls og að nefndin geti fellt úr gildi ógildanlegar ákvarðanir í heild eða að hluta en ekki tekið nýja ákvörðun í máli fyrir hönd sveitarfélags.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Í bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er kærendum tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðun vegna umsóknar þeirra um félagslegt leiguhúsnæði. Tekið er fram að skilyrði fyrir samþykkt umsóknar inn á biðlista og þar með úthlutun húsnæðis væri að vera ekki í vanskilum með leigugreiðslur við Félagsbústaði hf. Umsókn yrði því aðeins samþykkt hafi umsækjandi gert full skil á vangoldnum leigugreiðslum eða að samið hafi verið um skuldina. Kærendur ættu óuppgerða skuld  sem þeir þyrftu að gera upp eða semja um. Þá var tekið fram að velferðarsvið væri reiðubúið að veita aðstoð við það uppgjör eins og unnt væri samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, kæmi fram formleg ósk um það.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að kærendur leituðu til umboðsmanns Alþingis í kjölfar þess að þeim barst bréf Reykjavíkurborgar. Í bréfi umboðsmanns frá 13. apríl 2022 kemur fram að hann hafi aflað frekari upplýsinga frá Reykjavíkurborg og meðal annars óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til þess hvort kærendur gætu kært málið til úrskurðarnefndar velferðarmála ef lyktir þess yrðu þær að umsókn yrði hafnað á grundvelli framangreinds skilyrðis. Í svari sveitarfélagsins kom fram að þar sem skuldin hafi ekki verið gerð upp eða samkomulag náðst um uppgjör hennar muni velferðarsvið innan tíðar hefja það ferli að afturkalla stjórnvaldsákvörðun um að samþykkja umsókn um húsnæði á biðlista. Komi til þess sæti sú ákvörðun kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Að framangreindu virtu og gögnum málsins er ljóst að ekki lá fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kærenda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Vegna þess og í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin bendir á að kærendur geta lagt inn kæru til úrskurðarnefndarinnar þegar endanleg ákvörðun Reykjavíkurborgar liggur fyrir.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, og B, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta