Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 180/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 180/2024

Föstudaginn 13. september 2024

A

gegn

Akureyrarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Akureyrarbæjar á umsóknum hennar um stuðningsfjölskyldu og skammtímavistun fyrir son sinn.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. maí 2023, sótti kærandi um stuðningsfjölskyldu fyrir son sinn. Umsóknin var tekin fyrir á fundi barna- og félagsþjónustuteymis 7. júní 2023 þar sem henni var synjað með vísan til þess að barnið dveldi aðra hvora viku hjá hvoru foreldri. Með umsókn, dags. 27. júní 2023, sótti kærandi um skammtímavistun fyrir son sinn, tvær helgar í mánuði. Umsóknin var tekin fyrir á fundi barna- og félagsþjónustuteymis 23. ágúst 2023 þar sem henni var synjað með vísan til reglna um skammtímavistunardvöl. Þá sótti kærandi um félagslega liðveislu fyrir son sinn með umsókn, dags. 20. apríl 2024. Félagsleg liðveisla var samþykkt í 10 tíma á mánuði til sex mánaða þann 29. apríl 2024 en foreldrum drengsins tilkynnt að hann væri kominn á biðlista eftir þjónustunni.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. apríl 2024. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2024, var óskað eftir gögnum frá kæranda. Sú beiðni var ítrekuð 8. maí 2024. Gögn bárust 21. maí 2024 og með bréfi, dags. 23. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Akureyrarbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Akureyrarbæjar barst úrskurðarnefndinni 21. júní 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. júní 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. júlí 2024 og voru þær kynntar Akureyrarbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá Akureyrarbæ 20. ágúst 2024 sem voru kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. ágúst 2024. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 3. september 2024 sem voru kynntar Akureyrarbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. september 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún eigi einhverfan son, hann sé með dæmigerða einhverfu og þroskahömlun á háu stigi. Með umsókn, dags. 29. maí 2023 hafi kærandi sótt um stuðningsfjölskyldu fyrir hann. Umsóknin hafi verið tekin fyrir á fundi 7. júní 2023 og hafi í raun verið synjað en umsóknin áfram skráð í vinnslu. Ástæða synjunarinnar hafi verið sú að foreldrarnir hafi drenginn viku og viku en bærinn forgangsraði öðrum inn í stuðningsfjölskylduúrræðið. Þau foreldrarnir þurfi þó virkilega á þessu að halda, að minnsta kosti sé kærandi oft alveg heila viku að jafna sig eftir að hafa verið ein með drenginn í viku. Þann 27. júní 2023 hafi kærandi sótt um skammtímavistun þar sem stuðningsfjölskyldu hafi verið hafnað. Því hafi verið synjað 5. júlí 2023 og aftur 23. ágúst 2023 en umsóknin sé skráð í bið. Kærandi hafi því ekki fengið rökstudda formlega synjun. Kærandi telji son sinn eiga rétt á og hafa þörf fyrir þessa þjónustu, þó sérstaklega stuðningsfjölskyldu sem hann hefði átt að fá fyrir einhverjum árum.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að umsókn um stuðningsfjölskyldu hafi verið synjað munnlega í júní 2023 sem sé brot á 12. gr. reglna bæjarins um stuðningsfjölskyldur. Sama hafi verið með umsóknina um skammtímavistun. Bærinn hafi nefnt í sínu svari að talið væri að kærandi ætti rétt á því að kæra þrátt fyrir að langur tími hefði liðið í báðum tilfellum og það vilji hún þakka fyrir.

Í meðfylgjandi niðurstöðu athugunar (ICD-10) Ráðgjafar- og greiningarstöðvar frá apríl 2024 komi eftirfarandi fram:

1. Einhverfa F84.0

2. Þroskahömlun, alvarleg F72

3. Orsök óþekkt, rannsóknir hafa ekki farið fram

Í skjalinu sé því lýst hvernig prófanir hafi farið fram og niðurstöður verið fengnar. Sonur kæranda sé með vitsmunaþroska undir tveggja ára aldri og ekki hafi tekist að meta málþroska hans. Í skjalinu sé staðfest að hann þurfi mikla umönnun og aðstoð, sérkennslu, þjálfun og stuðning bæði í leikskóla, skóla og einnig á heimili. Þar segi líka að það þurfi að skipuleggja félagsleg stuðningsúrræði eftir þörfum og framboði, til dæmis stuðningsfjölskyldu, skammtímavistun, liðveislu og sumarnámskeið. Í meðfylgjandi skýrslu sálfræðings, sama sálfræðings og hafi skrifað undir niðurstöðu greiningar fyrir hönd teymisins hjá RGR, komi fram að niðurstöður sálfræðings bendi til verulegra frávika í vitsmunaþroska og að barnið þurfi áfram markvissa sérkennslu, þjálfun og stuðning, bæði heima og í skólanum. Það þurfi að gera hann sjálfstæðan og vinna með málörvun.

Reglur um stuðningsfjölskyldur séu mjög matskenndar og það sé algerlega látið í hendur teymisfunda í barna- og fjölskylduþjónustu að meta hvort þörf sé á stuðningsfjölskyldu. Einu rökin sem hafi komið með niðurstöðunni um höfnun í júní 2023 hafi verið að barnið dveldi í viku/viku fyrirkomulagi hjá hvoru foreldri. Ekkert komi fram um að teymið hafi metið stöðu hans að öðru leyti, aflað gagna frá leikskóla, talmeinafræðingi, sjúkraþjálfara, RGR og þeim niðurstöðum sem hafi verið komnar á þessum tíma, eða öðrum sérfræðingum sem hafi annast hann. Það komi heldur ekki fram í svari Akureyrarbæjar til úrskurðarnefndarinnar frá júní 2024, einungis að þörfin hafi verið metin í samráði við foreldra, sem geti ekki verið nægilegt. Í svarinu segi að markmið stuðningsfjölskyldu sé að létta álagi á fjölskyldur barna en það hafi verið metið svo að foreldrar fengju næga hvíld vegna viku/viku fyrirkomulagsins. Kærandi hafni því alfarið og auk þess sé það ekki eini þátturinn í málinu heldur sé félagslegi stuðningurinn við barnið sjálft verulega stór þáttur sem ekki sé tekið tillit til.

Á vef Reykjavíkurborgar um stuðningsfjölskyldur segi „Stuðningsfjölskyldur veita foreldrum barna stuðning við foreldrahlutverkið hvort sem það er innan eða utan heimilis. Hlutverk þeirra er m.a. að veita foreldrum tækifæri til hvíldar, styrkja stuðningsnet barnanna og auka möguleika þeirra á félagslegri þátttöku“. Við mat Akureyrarbæjar á umsókn um stuðningsfjölskyldu virðist vera að einungis sé horft til mögulegrar hvíldar foreldranna og viku/viku fyrirkomulags þeirra en ekki til þarfa barnsins á öflugra félagslegu neti eða félagslegri þátttöku. Það sé ítrekað nefnt í niðurstöðum athugunar RGR að það sé mikilvægur þáttur fyrir barnið að styrkja sjálfstæði þess og félagslegt net. Þá hafi kærandi sérstaklega nefnt í umsókninni að það væri gott fyrir barnið að kynnast nýju fólki og börnum en ekki sé tekið tillit til þess við mat umsóknarinnar. Einnig telji kærandi að það að nota viku/viku fyrirkomulagið sem ástæðu höfnunarinnar sé í raun rökvilla. Þróunin á almennum vinnumarkaði hafi meðal annars verið á þá leið að hætta með langar 12 tíma vaktir en fjölga styttri vöktum í staðinn á þeim forsendum að það sé betra fyrir launþegann. Styttri vaktir séu þannig auðveldari en margar langar. Viku/viku fyrirkomulag ætti því að skoðast sem erfiðari umönnun en þegar tveir foreldrar séu á heimilinu og geti skipt með sér verkum eftir hentugleika. Auk þess gangi viku/viku fyrirkomulag ekki alltaf upp vegna ýmissa breytinga og þá hafi þau foreldrarnir drenginn mögulega 10 til 14 daga í röð, sem sé orðið mikið álag. Þetta fyrirkomulag sé einnig erfitt fyrir þau foreldrana ef engin aðstoð komi til þar sem það komi í veg fyrir að foreldrarnir eigi sér áhugamál sem kalli á að vera án barnsins á tilteknum tíma í hverri viku, sem sé eitthvað sem eigi við um flestallt félagsstarf, líkamsrækt og hreyfingu og þar með heilsu foreldranna. Það að vera ein með drenginn geri líka öll veikindi þeirra foreldranna erfiðari, þau geti lent í því að þurfa að sinna drengnum þótt þau hafi enga burði til þess vegna veikinda. Þá sé faðir drengsins lítið heima vegna vinnu sinnar þær vikur sem drengurinn dvelji hjá kæranda og því sé engin leið að fá hann til að sinna drengnum ef hana vanti hjálp og annað stuðningsnet sé veikt.

Umsókn um skammtímavistun hafi verið synjað munnlega á grundvelli reglna um skammtímavistunardvöl. Kærandi telji að þær reglur séu einnig mjög matskenndar. Í reglunum sé ekki skylda, eins og komi fram í svari Akureyrarbæjar, að barnið sé í umönnunarflokki 2, mat 85% samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins. Í reglunum komi fram að við afgreiðslu umsókna eigi börn samkvæmt ákveðnum flokkum hjá Tryggingastofnun ríkisins að njóta forgangs. Það sé ekki það sama og að það sé skylda til að flokkunin sé á ákveðinn veg. Það hafi því ekki verið nein ástæða til að veita undanþágu um þessa umsókn, heldur hefði þurft að meta málið betur í heild og tala við þá sérfræðinga sem hafi annast drenginn á þessum tíma áður en umsókninni hafi verið svarað. Í svarinu frá Akureyrarbæ komi ekkert fram um að það hafi verið gert, heldur bara talað um þessi „skilyrði“. Sonur kæranda sé í umönnunarflokki 2, mat 43% samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins en vegna niðurstöðu athugunar hjá RGR sé á dagskrá að óska eftir endurmati þar.

Kærandi vísi til niðurstöðu athugunar hjá RGR og til skýrslu sálfræðings. Að hennar mati sé ljóst samkvæmt þeim að staða sonar hennar sé þannig að hann þurfi á meiri þjónustu að halda. Það sé sérstaklega tekið fram í niðurstöðu athugunar að hann þurfi til dæmis stuðningsfjölskyldu, skammtímavistun, liðveislu eða sumarnámskeið. Eina þjónustan sem hafi verið samþykkt hjá bænum sé liðveisla, ákveðið margir tímar á mánuði en bærinn hafi tiltekið langan biðtíma eftir þeirri þjónustu, eða 12-18 mánuði. Það hljóti að teljast óviðunandi biðtími. Ef núverandi kröfur kæranda um stuðningsfjölskyldu og/eða skammtímavistun yrðu samþykktar yrði staðan eflaust sú sama og með liðveisluna og langur biðtími tæki við. Bærinn hafi brugðist seint við í þessum málum og virðist ekki vinna í því að stytta biðlistann, að minnsta kosti sjáist ekki oft auglýst eftir stuðningsfjölskyldum. Kærandi fari fram á að Akureyrarbær eigi ekki að geta samþykkt þjónustu sem þessa en sleppt því að greiða fyrir hana með því að setja barnið á biðlista sem sé ekki unnið í að stytta. Það sé hægt að líta á það þannig að Akureyrarbær hafi fjárhagslegan ávinning af frekari töfum við að koma þjónustunni á. Nú viti kærandi ekki hvort úrræði séu til við því, svo sem sektir í ríkissjóð eða bótagreiðslur til foreldra. Kærandi óski þess að þetta verði skoðað sérstaklega.

Málin hafi verið óskýr frá byrjun af því að höfnun hafi í báðum málum verið munnleg og engar röksemdir með þeim. Það sjáist líka á skjalinu „Staða umsóknar um skammtímavistun“ frá Akureyrarbæ að staðan sé skráð „í bið“ og eins og umsókn hafi verið synjað bæði 5. júlí og 23. ágúst 2023. Einnig sé skjalið “Staða umsóknar um stuðningsfjölskyldu“ skráð „í vinnslu“ síðan í nóvember 2023, sem sé eftir höfnunina. Þessi skjöl komi úr kerfi Akureyrarbæjar. Þetta geri samskipti og skilning á málsmeðferð og reglum ekki betri fyrir þau foreldrana.

Kærandi taki fram að þrátt fyrir að þau foreldrarnir séu með drenginn viku og viku fái þau oft ekki nægan svefn í heila viku. Drengurinn glími við mikla svefnóreiðu. Hann sofi mjög óreglulega, vakni oft á nóttunni og vaki þá iðulega stóran hluta nætur. Það gerist þrátt fyrir að þau foreldrarnir reyni sitt besta til að koma í veg fyrir að hann sofi á daginn. Það sé því ekki það sem valdi þessari svefnóreglu. Svefnleysi foreldranna bitni á vinnu og heimilisstörfum sem verði þá verulega mikil þá viku sem drengurinn sé ekki á heimilinu. Oft taki líka alla þá viku að ná upp svefni og gera allt á heimilinu sem hafi ekki komist í verk. Til dæmis þurfi kærandi í sínu starfi að vinna upp þá tíma sem hafi tapast í þeim vikum sem drengurinn sé hjá henni. Oftast hafi kærandi svo ekki orku í meira en það að sinna hans lágmarksþörfum, svo stuðningsfjölskylda og frekari þjónusta frá bænum myndi breyta miklu.

Drengurinn sé orðinn 30 kg. og sé líkamlega hraustur. Hann geti til dæmis hlaupið út á umferðargötu fyrirvaralaust eða sest niður í miðjum göngutúr og neitað að halda áfram. Honum finnist gaman á skíðum, á skautum, í sundi og alls konar útivist. Það þurfi samt hrausta manneskju til að fylgja honum og það geti það ekki hver sem er. Sjálf sé kærandi nokkuð hraust og geti borið drenginn ef nauðsyn krefji en það megi ekkert út af bera. Kærandi hafi til dæmis fengið tak í bakið síðasta vetur og þá hafi hún ekki getað farið neitt með hann ein, lengra en inn og út úr bíl.

Þægilegast sé að fara með drenginn í sund en frá og með haustinu geti kærandi hins vegar ekki nýtt sér það nema að fá einhvern karlkyns með sér í sund þar sem hún muni ekki hafa kost á því að hafa hann með sé í kvennaklefann. Drengurinn þurfi mikla aðstoð í búningsklefanum, hann geti klætt sig úr en þurfi stanslausar áminningar. Hann þurfi aðstoð við að losa af sér bleyju og fara í sundfötin. Hann þurrki sér ekki sjálfur eftir sund og það þurfi að setja á hann bleyju, aðstoða hann við að klæða sig, að fötin snúi rétt og að hann fari í þau í réttri röð. Hann geti ekki munað að taka hlutina sína með út úr klefanum sjálfur en tíni þá saman og í pokann sinn ef hann fái áminningu um það. Hann þurfi þannig manneskju sem hann þekki vel og treysti sér til að sinna þessum verkum með honum og fyrir hann. Því reikni kærandi með því að þessi skemmtun verði mun sjaldnar í boði fyrir drenginn þegar hann byrji í grunnskóla og geti ekki komið með henni í kvennaklefann og engin önnur aðstoð eða þjónusta sé í boði. Fjölskylda kæranda hjálpi eins og hægt sé og þau foreldrarnir hjálpist líka að. Þau búi hins vegar við frekar veikt stuðningsnet. Það væri því gott að hafa fleira fólk í innsta hring ef eitthvað komi upp. Líka til þess að stækka tengslanet drengsins og að hann kynnist fleira fólki og mögulega börnum.

Kærandi vilji fá það staðfest hverju drengurinn eigi rétt á varðandi þjónustu, óháð því hvort hægt sé að manna þá þjónustu, sem virðist einnig vera vandamál. Viðurkenning á rétti til þjónustu myndi að minnsta kosti þýða að kærandi geti reynt að finna þjónustuna sjálf, þrátt fyrir mögulega biðlista eins og að framan greini.

Kærandi viti að það sé langt frá þessum tveimur höfnunum, um eitt ár, og að síðan þá, eða nú í apríl, hafi komið niðurstaða frá RGR. Í svarinu til úrskurðarnefndar segi Akureyrarbær að ákvörðun um synjun umsóknanna hafi byggt á þeim gögnum sem hafi legið fyrir þegar umsóknin hafi verið metin. Eins og að framan greini telji kærandi rökstuðning bæjarins samt ekki benda til þess, enda sé ekki vísað til neinna gagna. Þótt niðurstaða RGR hafi ekki verið komin á þeim tíma sem þessar hafnanir hafi komið hafi önnur gögn og upplýsingar verið til staðar frá öllum þeim sérfræðingum sem hafi komið að málum drengsins. Bærinn hafi ekki lagt fram þau gögn sem sagt sé að hafi verið farið eftir við matið, hvorki um stuðningsfjölskyldu né skammtímavistun, né gert grein fyrir röksemdum að öðru leyti. Telji nefndin að þörf sé á þeim gögnum til þess að leysa úr málinu verði orðið við því.

Kærandi bendi einnig á að niðurstöður greiningar RGR og skýrsla sálfræðings hafi verið sent til Akureyrarbæjar af hálfu RGR, bæði til fræðslu- og lýðheilsusviðs og velferðarsviðs, sem og leikskóla og grunnskóla og fleiri, þremur mánuðum áður en Akureyrarbær hafi skilað svari sínu til úrskurðarnefndar í júní 2024. Að mati kæranda komi fram í niðurstöðum matsins og skýrslu sálfræðings nægar upplýsingar til þess að bærinn hefði getað átt viðtöl við foreldra um málið þegar þessi greining hafi orðið ljós. Þá hefði verið möguleiki af hálfu bæjarins að samþykkja og ræða þau stuðningsúrræði sem óskað hafi verið eftir árið 2023 og mælt sé með í þessum niðurstöðum, í stað þess að senda frekari rökstuðning um höfnun til úrskurðarnefndarinnar í júní 2024 eftir að niðurstöður greiningar hafi verið komnar. Í svarinu komi fram að ef einhverjar breytingar verði á greiningu eða aðstæðum þurfi að meta málið að nýju. Það hafi engin tilraun verið gerð til þess. Kærandi fari fram á að niðurstöðu bæjarins um höfnun, bæði vegna skammtímavistunar og stuðningsfjölskyldu, verði snúið við og beiðnirnar samþykktar, með öll fyrirliggjandi gögn í huga. Akureyrarbær verði að taka ábyrgð á því að hafa ekki tekið málið upp og skoðað stöðuna eftir að ný gögn hafi legið fyrir í málinu fyrir nokkrum mánuðum síðan, heldur haldið höfnun sinni til streitu. Ef ekki sé fallist á það fari kærandi fram á að því verði beint til bæjarins að endurskoða málið á grundvelli nýrra gagna og samþykkja beiðnirnar út frá því.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er ítrekað að niðurstöður greiningar RGR og skýrsla sálfræðings hafi borist Akureyrarbæ í apríl 2024 en ekki nú í sumar líkt og vísað sé til í svari sveitarfélagsins, eða um þremur mánuðum áður en bærinn hafi skilað svari sínu til úrskurðarnefndarinnar. Á þeim tíma hafi engin tilraun verið gerð af hálfu Akureyrarbæjar til þess að hafa samband við foreldra til að bæta þjónustuna eða endurmeta málið. Engu að síður komi nú fram í athugasemdum bæjarins að tilefni sé til að endurmeta umsókn um skammtímavistun, sem sé auðvitað gott. Einnig sé nefnt að breyttar forsendur geti kallað á endurmat en á sama tíma sagt að foreldrar þurfi að sækja um á ný. Þetta verði að teljast heldur óskýrt en vonandi finnist lausn á því. Þar sem enn hafi ekki verið boðuð viðtöl né verið haft samband vegna málsins til að leiðbeina um hvað bærinn hyggist gera og hvort endurmat fari fram geri kærandi ráð fyrir því að leggja inn nýjar umsóknir til að fá málið af stað. Kærandi ítreki fyrri röksemdir sínar og kröfu um að höfnun skammtímavistunar og stuðningsfjölskyldu verði snúið við. Að beiðnirnar verði samþykktar með öll fyrirliggjandi gögn í huga. Akureyrarbær verði að taka ábyrgð á því að hafa ekki tekið málið upp, leiðbeint foreldrum um nýjar umsóknir eða endurmat og skoðað stöðuna þegar ný gögn hafi legið fyrir í málinu í apríl 2024, heldur haldið höfnun sinni til streitu. Ef ekki verði fallist á það sé farið fram á að því verði beint til bæjarins að endurskoða málið á grundvelli nýrra gagna, eins og virðist vera ætlunin hjá bænum þótt það hafi ekki verið kynnt foreldrum.

III.  Sjónarmið Akureyrarbæjar

Í greinargerð Akureyrarbæjar kemur fram að sótt hafi verið um félagslega liðveislu fyrir son kæranda þann 20. apríl 2024. Félagsleg liðveisla hafi verið samþykkt í 10 tíma á mánuði til sex mánaða þann 29. apríl 2024. Foreldrum hafi svo verið tilkynnt að drengurinn væri kominn á biðlista eftir þjónustunni og að haft yrði samband við þau þegar ljóst væri hvenær þjónustan gæti hafist. Vegna aukinnar eftirspurnar um þjónustu og sama tíma manneklu sé erfitt að segja til hversu langur biðtími sé eftir þjónustu en gera megi ráð fyrir biðtíma í allt að 12-18 mánuði og foreldrarnir hafi verið upplýstir um það.

Umsókn um stuðningsfjölskyldu hafi verið móttekin þann 28. maí 2023. Umsóknin hafi verið tekin fyrir á meðferðarfundi barna- og félagsþjónustuteymis þann 7. júní 2023. Umsókninni hafi verið synjað á þeim grundvelli að aðstæður foreldra uppfylltu ekki markmið reglna Akureyrarbæjar um stuðningsfjölskyldur. Markmið stuðningsfjölskyldu sé að létta álagi á fjölskyldur barna, meðal annars með hvíld. Þörf drengsins hafi verið metin í samráði við foreldra og horft sé til aldurs þess, eðlis og umfang fötlunar, mats á stuðningsþörf og annarrar þjónustu sem veitt sé og félagslegum aðstæðum. Foreldrar séu skilin og fari sameiginlega með forsjá. Drengurinn dvelji hjá foreldrum sínum í svokölluðu viku/viku fyrirkomulagi og aðstæður þeirra hafi verið metnar með þeim hætti að tvær vikur í mánuði væri ákveðin hvíld. Starfsmanni velferðarsviðs hafi verið falið að upplýsa foreldra um ákvörðun teymisins um að umsókn þeirra hefði verið synjað. Það hafi verið gert í viðtali. Í þessu tilfelli hafi láðst að senda kæranda formlegt bréf þess efnis en foreldrum hafi verið tilkynnt um synjunina í formlegu viðtali og sú ákvörðun rökstudd. Foreldrar eigi svo vissulega rétt á að kæra ákvörðunina vilji þeir ekki una henni. Þó að langt sé liðið frá ákvörðuninni sé það mat sveitarfélagsins að kærandi verði að fá að njóta vafans og bera ákvörðun undir kærunefnd þar sem þau hafi ekki fengið nein bréf um kærufresti heldur hafi aðeins verið farið yfir það með þeim í viðtali. Sveitarfélagið telji því rétt að kæran verði tekin til greina en það breyti þó ekki ákvörðuninni um synjun á þjónustunni.

Umsókn um skammtímavistun hafi verið móttekin þann 27. júní 2023. Þá hafi verið búið að synja foreldrum um stuðningsfjölskyldu. Umsókn þeirra hafi verið tekin fyrir á meðferðarfundi barna- og félagsþjónustuteymis þann 23. ágúst 2023 og henni synjað á þeim grundvelli að þau uppfylltu ekki áskilin skilyrði reglna Akureyrarbæjar um skammtímadvöl og frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Drengurinn sé í umönnunarflokki 2, mat 43%, en lágmarksviðmið samkvæmt fyrrgreindum reglum sé 2. flokkur, mat 85%. Ekki hafi þótt réttmætt í máli þessu á þessum tíma að veita undanþágu frá umönnunargreiðsluflokkum Tryggingastofnunar ríkisins líkt og heimilt sé samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 11. gr. reglna Akureyrarbæjar um skammtímadvöl og frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Mat á þörf fyrir þjónustu sé gert út frá umsókn og gögnum og horft sé til fötlunar, umönnunarþyngd, aldurs, fjölskylduaðstæðna og fleira. Starfsmanni velferðarsviðs Akureyrarbæjar hafi verið falið að gera foreldrum grein fyrir ákvörðun teymis. Það hafi einnig verið gert í viðtalið og láðst að gera það með formlegu bréfi. Rétt þyki því að kæra þeirra fái sömuleiðis efnislega meðferð þrátt fyrir að langur tími sé liðinn. Það breyti því þó ekki að á þessum tíma hafi skilyrði skammtímavistunar ekki verið uppfyllt og þarf af leiðandi hafi umsókninni verið synjað.

Með vísan til alls þess sem að framan hafi verið rakið sé ljóst að ákvörðun um synjun byggi á þeim gögnum sem hafi legið fyrir þegar umsókn hafi verið metin. Drengurinn sé með málstjóra sem sé ráðgjafi í málefnum fatlaðra og sé starfsmaður velferðarsviðs. Foreldrarnir hafi notið ráðgjafar og aðstoðar við að komast í viðeigandi þjónustu hverju sinni. Þá sé umræddur ráðgjafi sömuleiðis tengiliður þeirra við Ráðgjafar- og greiningarstöð. Sömuleiðis hafi ráðgjafinn setið teymisfundi á leikskóla og muni áfram vera í teymi þegar drengurinn fari í skóla haustið 2024. Þá hafi foreldrarnir einnig fengið stuðning Öskjunnar árið 2021. Önnur ráðgjöf hafi verið í höndum sérkennsluráðgjafa á fræðslu- og lýðheilsusviði eins og venja sé þegar börnin séu á leikskóla. Það verði því áfram hlúið að velferð fjölskyldunnar og ef einhverjar breytingar verði á greiningu eða aðstæðum þurfi að meta málið að nýju.

Í athugasemdum Akureyrarbæjar, dags. 20. ágúst 2024, kemur fram að ekki sé skýrt hverjar athugasemdir kæranda um liðveisluna séu aðrar en að mótmæla því verklagi sem sé viðhaft, þ.a. að umsækjendur lendi á biðlista. Því miður sé það svo að eftirspurn eftir þjónustunni sé meiri en framboðið og það hafi þær afleiðingar að það myndist biðlisti. Það sé reynt eins og hægt sé að upplýsa aðila um lengd biðlistans og verði haft samband þegar þjónustan geti hafist. Þá sé þjónustan einstaklingsmiðuð og leitað sé eftir aðila sem líklegt sé að komi til móts við þarfir hver og eins. Vonandi sé því biðtíminn styttri en áætlað sé.

Athugasemdir kæranda vegna stuðningsfjölskyldu lúti helst að verklagi og mati. Ekki verði séð að nokkuð athugavert hafi verið við verklagið. Það sé eðlilegt að málastjóri leggi mál fyrir fund og matsteymi beri að meta umsóknir. Einnig hafi kærandi gert athugasemdir við skort á gögnum en mikið af gögnum sem foreldrar hafi lagt fram hafi legið fyrir. Mál kæranda hafi verið metið af matsteymi eins og áður hafi verið sagt, auk samtala við foreldra, út frá þeim gögnum sem hafi legið fyrir. Sem dæmi um gögn megi nefna greiningargögn frá RGR, meðal þeirra gagna sé ráðgjafarviðtal sem málastjóri hafi tekið að beiðni RGR sem hluti af þeirri greiningu. Einnig hafi málastjóri setið skilafund RGR 2022 og aftur 2024 um sálfræðimat, upplýsingar frá teymisfundum sem málastjóri hafi setið eða fengið upplýsingar frá í samráði við sérkennsluráðgjafa. Þá hafi málastjóri einu sinni farið með ráðgjöf á heimili föður og barns en kærandi hafi hafnað slíkri heimsókn. Auk þess hafi málastjóri unnið tillögur að umönnunarmati fyrir drenginn í samtali við foreldra, út frá fyrirliggjandi gögnum, auk læknisvottorðs. Það sé því alveg ljóst að þegar ákvörðunin um að synja umsókn kæranda um stuðningsfjölskyldu hafi verið tekin hafi á þeim tíma legið fyrir fullnægjandi gögn.

Kærandi virðist mjög ósátt við það að viku/viku fyrirkomulagið hafi áhrif á matið og bendi jafnframt á að meta eigi félagslegan stuðning við barnið meira, en samkvæmt matsreglum beri að meta félagslegar aðstæður. Í öllum málum sé horft til þess hvernig umgengnisfyrirkomulag foreldra sé, það sé ekki þar með sagt að það sé eini þátturinn en hann hafi áhrif á matið. Ekki sé vitað hvað sé átt við með því að slíkt mat sé „rökvilla“ líkt og kærandi nefni. Við mat á aðstæðum hafi það áhrif hve mikið foreldri sé með barn sitt á heimilinu. Með því sé ekki verið að segja að það sé algjör hvíld, síður en svo, en í heildarmati þá hafi þetta áhrif. Einnig megi benda á að þegar umsókn kæranda hafi verið tekin fyrir hafi barnið verið fimm ára leikskólabarn og almennt sé ekki veitt þjónusta til að sinna félagslegum þörfum barna á þeim aldri. Almennt sé það svo að helsta net leikskólabarna sé fjölskyldan, þeir sem foreldrar umgangast, nemendur og  starfsfólk leikskóla. Við sex ára aldur sé svo hægt að sækja um félagslega liðveislu, þar sé þá metið hver þörfin sé og það hafi verið gert eins og rakið hafi verið í fyrra erindi. Bent sé að félagsleg þátttaka hjá leikskólabarni sé almennt unnin sem hluti af leikskólastarfi.

Akureyrarbær bendi að ekki sé verið að efast um það á neinn hátt að það sé mikið álag á heimili beggja foreldra. Það sé þó ekki talið óeðlilegt heldur hluti af því að eiga barn. Að hluta til sé þessu mætt með mánaðarlegum umönnunargreiðslum en foreldrar njóti slíkra greiðslna og þeim sé ætlað að mæta ýmsum viðbótarkostnaði sem umönnun fatlaðs barns krefjist og teljist umfram það sem venjulegt megi telja fyrir barn á sama aldri. Þá sé það áréttað að velferðarsvið Akureyrarbæjar meti þörf út frá reglum sveitarfélagsins en ekki reglum Reykjavíkurborgar, sem kærandi vísi til í athugasemdum sínum.

Kærandi geri einnig athugasemd við að reglur um skammtímavistun séu matskenndar. Það eitt og sér eins og áður hafi verið sagt sé ekki óeðlilegt. Í umræddum reglum komi fram að hægt sé að víkja frá ákveðnum skilyrðum í einstökum tilfellum. Umrædd umsókn hafi ekki verið metin þannig að hún myndi falla undir umrætt undanþáguákvæði. Þá bendi kærandi einnig á að á dagskrá sé að óska eftir endurmati hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þegar ákvörðun matsteymisins hafi verið tekin á sínum tíma hafi ekki legið fyrir ný greining. Með nýrri greiningu geti foreldrar sótt um hærri greiðslu sem ráðgjafi þeirra á velferðarsviði geti aðstoðað við, sé þess óskað. Það sé svo í höndum Tryggingastofnunar ríkisins að meta umsóknir, óska eftir tillögu frá ráðgjafa og taka ákvörðun um hækkun.

Það liggi nú fyrir að ný greining hafi verið móttekin hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar sumarið 2024 sem geti haft þau áhrif að umönnunarflokkur barnsins hækki. Því þyki rétt að benda foreldrum á að sækja um aftur á grundvelli nýrra gagna og breyttra forsendna. Það breyti því þó ekki að þegar umsókn kæranda hafi verið tekin fyrir á sínum tíma hafi þessi nýja greining ekki legið fyrir og því hafi verið synjað á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Breyttar forsendur geti kallað á endurmat og þyki rétt að málið fari í þann farveg. Ráðgjafi velferðarsviðs muni aðstoða foreldra í því ferli eins og ávallt.

Að lokum sé því hafnað að Akureyrarbær hafi fjárhagslegan ávinning af töfum máls kæranda líkt og hún nefni. Rétt sé það sem greint hafi verið frá að ákvörðun teymisfundar um að synja kæranda um annars vegar stuðningsfjölskyldu og hins vegar skammtímavistun hafi verið munnleg. Hún hafi verið gerð í viðtali, enda haldi ráðgjafi þétt utan um mál aðila. Í þeim samtölum sem ráðgjafi hafi átt hafi verið útskýrt hvers vegna umsóknunum hafi verið synjað. Láðst hafi að senda kæranda formlegt bréf þess efnis og að tryggja að kæruleiðir væru rækilega kynntar aðila. Þetta þyki velferðarsvið Akureyrarbæjar miður og beðist sé velvirðingar á því. Það breyti því þó ekki að ákvörðunin um að synja umræddri þjónustu á þeim tíma breytist ekki miðað við þau gögn sem hafi legið fyrir. Kærandi fá nú tækifæri til þess að láta fara yfir málsmeðferðina að öðru leyti.

Í ljósi nýrra gagna sem hafi borist velferðarsviði sumarið 2024 þyki rétt að endurmeta umsókn kæranda um skammtímavistun og verði henni bent á það. Það geti þó aðeins gilt frá móttöku nýrra gagna verði niðurstaðan sú að réttur til þjónustu sé fyrir hendi.

Með vísan til alls framangreinds, fyrra erindis og gagna málsins sé það svo að af þremur umsóknum hafi kæranda verið synjað um tvær umsóknir á málefnalegum rökum þar sem horft hafi verið á aðstæður foreldra og byggt á fyrirliggjandi gögnum, auk samtala. Hefðbundið mat með vísan til reglna sveitarfélagsins hafi einnig átt sér stað eins og í öllum sambærilegum málum. Varðandi liðveisluna hafi sú þjónusta verið samþykkt en umsóknin sett á biðlista og kærandi hafi verið upplýst um áætlaðan biðtíma. Hvað gerist svo í framhaldinu á grundvelli nýrra gagna sé óháð niðurstöðu þessara mála.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Akureyrarbæjar á umsóknum hennar um stuðningsfjölskyldu og skammtímavistun fyrir son hennar. Umsóknum kæranda var synjað á fundum barna- og félagsþjónustuteymis 7. júní 2023 og 23. ágúst 2023. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. apríl 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að kæranda var tilkynnt munnlega um framangreindar ákvarðanir og því liggur ekki fyrir að henni hafi leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður hún því tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð Akureyrarbæ vegna framangreindra umsókna kæranda. Samkvæmt 12. gr. reglna Akureyrarbæjar um stuðningsfjölskyldur og 11. gr. reglna um skammtímadvöl og frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni ber að senda umsækjendum skriflegt svar um afgreiðslu umsókna. Beinir nefndin því til sveitarfélagsins að haga málsmeðferð sinni framvegis í samræmi við þá skyldu og einnig að gæta að viðeigandi kæruleiðbeiningum.

Í IV. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fjallað um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. að tryggja skuli að fötluð börn fái nauðsynlega þjónustu svo að þau geti notið mannréttinda og mannhelgi til jafns við önnur börn, lifað sjálfstæðu lífi og tekið þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Þá skuli fötluð börn hafa raunverulegan aðgang að og njóta menntunar, þjálfunar, starfsundirbúnings og tómstunda. Í öllum aðgerðum sem snerti fötluð börn skuli fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem sé viðkomandi barni fyrir bestu og stuðla að félagslegri aðlögun og þroska þess. Fötluð börn hafi rétt til að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós með tilliti til aldurs þeirra og þroska. Þá segir í 2. mgr. 13. gr. að fjölskyldur fatlaðra barna skuli fá nægilega þjónustu til þess að fötluð börn þeirra geti notið réttinda sinna til fulls og jafns við aðra.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 38/2018 eiga fjölskyldur fatlaðra barna rétt á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefji. Dvöl fatlaðs barns hjá stuðningsfjölskyldu skuli bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil. Þá segir í 2. mgr. að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd þjónustunnar og að sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna.

Í 2. mgr. 1. gr. reglna Akureyrarbæjar um stuðningsfjölskyldur kemur fram að markmið þjónustunnar sé að létta álagi á fjölskyldur barna og gefa börnunum möguleika á aukinni félagslegri þátttöku, auk þess sem um sé að ræða úrræði innan barnaverndarþjónustu og félagsþjónustu. Markmiðið sé jafnframt að veita barnafjölskyldum stuðning og skuli hann vera í samræmi við það sem sé barni fyrir bestu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. stendur þjónustan til boða fyrir fjölskyldur fatlaðra barna sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu eða innan þess þjónustusvæðis sem ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar. Þá stendur þjónustan einnig til boða fyrir ófötluð börn sem úrræði innan barnaverndarþjónustunnar. Jafnframt getur félagsþjónustan boðið þjónustuna fyrir fjölskyldur sem eiga í félagslegum erfiðleikum og eru metnar í þörf fyrir aukinn stuðning, svo sem vegna félagslegra erfiðleika eða fjölskylduaðstæðna.

Í 2. mgr. 3. gr. framangreindra reglna segir að þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu sé alltaf metin í samráði við foreldra þess. Leitast skuli við að veita barninu þjónustu inn á heimili þess eftir því sem kostur sé. Við matið sé horft til aldurs barns, eðlis og umfangs fötlunar, mats á stuðningsþörf sem og annarrar þjónustu sem veitt sé og félagslegra aðstæðna.

Akureyrarbær hefur vísað til þess að aðstæður foreldra hefðu ekki uppfyllt markmið reglna sveitarfélagsins um stuðningsfjölskyldur. Markmið stuðningsfjölskyldu sé að létta álagi á fjölskyldur barna, meðal annars með hvíld. Foreldrar séu skilin og fari sameiginlega með forsjá. Drengurinn dvelji hjá foreldrum sínum í svokölluðu viku/viku fyrirkomulagi og aðstæður þeirra hafi verið metnar með þeim hætti að tvær vikur í mánuði væri ákveðin hvíld. Í öllum málum sé horft til þess hvernig umgengnisfyrirkomulag foreldra sé en það sé þó ekki það eina sem horft sé til.

Í 17. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um skammtímadvöl. Þar segir í 1. mgr. að fötluð börn og ungmenni eigi rétt á skammtímadvöl utan heimilis þegar þörf krefji. Skammtímadvöl sé ætlað að veita fötluðum einstaklingum tímabundna dvöl vegna mikilla umönnunarþarfa umfram jafnaldra. Foreldrar barns sem eigi rétt á skammtímadvöl geti fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis óski foreldrar þess.

Í 1. mgr. 2. gr. reglna Akureyrarbæjar um skammtímadvöl og frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni segir að skammtímadvöl sé tímabundin dvöl fyrir fötluð börn og ungmenni með umfangsmiklar og langvarandi þjónustuþarfir til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem vegna veikinda eða annars álags.

Í 11. gr. reglnanna er fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar segir í 2. mgr. að börn í umönnunargreiðsluflokkum 1 og 2 hjá Tryggingastofn ríkisins skuli njóta forgangs. Undir flokk 1, 85-100% mat falli börn sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar og/eða fjölfötlunar séu algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs. Undir flokk 2, 85% mat falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, t.d. vegna alvarlegrar eða miðlungs þroskahömlunar og/eða hreyfihömlunar sem krefjist notkunar hjólastóls, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu, heyrnarskerðinga, sem krefjist notkunar táknmáls/varalesturs og/eða blindu. Þá segir að heimilt sé að veita undanþágu frá framangreindu meti ráðgjafi þörf á skammtímaþjónustu þrátt fyrir að umönnunarmat sé lægra. Í 4. mgr. 11. gr. reglnanna segir að mat á þörf fyrir þjónustu sé gert út frá umsókn og öðrum fyrirliggjandi gögnum. Við matið sé meðal annars litið á fötlun, umönnunarþyngd, aldur umsækjanda, fjölskylduaðstæður og aðra þjónustu sem fjölskyldan fái.

Af hálfu Akureyrarbæjar hefur komið fram að sonur kæranda sé í umönnunarflokki 2, mat 43%, en lágmarksviðmið samkvæmt fyrrgreindum reglum sé 2. flokkur, mat 85%. Ekki hafi þótt réttmætt að veita undanþágu frá umönnunargreiðsluflokkum Tryggingastofnunar ríkisins líkt og heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 11. gr. framangreindra reglna sveitarfélagsins.

Í 30. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur. Í 3. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig veita megi þjónustu í samræmi við óskir hans. Teymið skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og það skuli byggjast á viðurkenndum og samræmdum matsaðferðum. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að barn eigi rétt á að tjá sig um mál sem það varði. Við meðferð og úrlausn máls sem varði barn skuli taka réttmætt tillit til sjónarmiða og skoðana barnsins í samræmi við hagsmuni þess hverju sinni.

Það stjórnvald sem tekur ákvörðun um þjónustu við fatlaðan einstakling skal tryggja að hún sé studd nægjanlegum gögnum áður en ákvörðunin er tekin. Í því skyni skal sveitarfélag leiðbeina umsækjendum um hvaða gögn skuli leggja fram eða, eftir atvikum, afla sjálft gagna hjá öðrum opinberum aðilum að fenginni heimild umsækjanda, sbr. 33. gr. laganna.

Líkt og að framan greinir var umsókn kæranda um stuðningsfjölskyldu synjað á þeim grundvelli að sonur hennar dveldi hjá henni aðra hvora viku og metið hefði verið sem svo að tvær vikur í mánuði væri ákveðin hvíld. Þá var umsókn kæranda um skammtímadvöl synjað með vísan til þess að hann væri undir lágmarksviðmiði reglna sveitarfélagsins um skammtímavistun er varðar umönnunargreiðsluflokka Tryggingastofnunar ríkisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála getur ekki fallist á að framangreind sjónarmið Akureyrarbæjar eigi sér stoð í þeim reglum sem settar hafa verið um þá þjónustu sem kærandi sótti um. Ekki verður séð af gögnum málsins að önnur sjónarmið hafi legið að baki hinum kærðu ákvörðunum og þá hefur Akureyrarbær ekki lagt fram nein gögn eða upplýsingar um hvernig lagt var mat á aðstæður kæranda og sonar hennar.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 33. gr. laga nr. 38/2018 og 10.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Akureyrarbæ að taka umsóknir kæranda til nýrrar meðferðar.

Í greinargerð Akureyrarbæjar og athugasemdum kæranda við hana er að finna umfjöllun um umsókn um félagslega liðveislu sem barst sveitarfélaginu sama dag og lögð var fram kæra hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, eða 20. apríl 2024. Fyrir liggur að umsóknin var samþykkt á biðlista 29. apríl 2024 og hefur kærandi gert athugasemd við þá afgreiðslu sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Kærandi getur lagt inn nýja kæru hjá nefndinni standi vilji til þess að fá umfjöllun um hvort afgreiðsla á umsókn um félagslega liðveislu hefur dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akureyrarbæjar, dags. 7. júní 2023, um að synja umsókn A, um stuðningsfjölskyldu, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar. Ákvörðun sveitarfélagsins, dags. 23. ágúst 2023, um að synja umsókn kæranda um skammtímavistun, er einnig felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

ólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta