Akranes tengist leiðarkerfi Strætó
Samgönguráðherra var fyrr í dag viðstaddur undirritun samninga um almenningssamgöngur á milli Reykjavíkur og Akraness. Annars vegar var undirritaður samningur á milli Akraneskaupstaðar og Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur á milli Reykjavíkur og Akraness og hins vegar var undirritaður samningur Akraneskaupstaðar og Strætó bs. um tengingu Akraness við leiðakerfi Strætó, sem kemur til með að valda byltingu í samgöngum á milli Akraness og höfuðborgarinnar.
Hér er um að ræða samstarfsverkefni samgönguyfirvalda, Akranesbæjar og Strætó bs. en tekin var ákvörðun um það að undanskilja rútuakstur frá Reykjavík til Akraness í útboði á séleyfum sem fram fór nú í haust. Vegagerðin fyrir hönd samgönguráðuneytisins leggur fjármuni til verkefnisins.
Frá og með áramótum mun leiðakerfi Strætó bs. tengjast Akranesi en boðið verður upp á yfir 80 ferðir á viku á milli Akraness og Reykjavíkur. Þetta mun hafa í för með sér byltingu í samgöngumálum fyrir Skagamenn og þá sem vilja heimsækja Akranes frá Reykjavík.
Með tilkomu Strætó verður mun auðveldara fyrir íbúa nágrannasveitarfélaga t.d. á Kjalarnesi, að nýta sér ýmsa þjónustu á Akranesi, t.d. verslun og aðra þjónustu m.a. Fjölbrautaskólans á Akranesi og Sjúkrahúss Akraness.
Almennt fargjald Strætó er 220 krónur en ýmsir afsláttarmöguleikar eru í boði. Hægt er að kynna sér nánar afsláttarkjör og almenn fargjöld Strætó, ásamt leiðakerfi og öðrum gagnlegum upplýsingum á vef Strætó bs., www.straeto.is, en hin nýja leið á Akranes verður sett þar inn og kynnt nánar á næstu dögum.