Utanríkisráðherra fundar með Evrópumálaráðherra Íra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Lucindu Creighton, Evrópumálaráðherra Íra en Írar fara með formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins fyrrihluta þessa árs. Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem Creighton heimsækir Ísland.
Á fundi sínum ræddu þau helstu áherslur í formennskuáætlun Íra en stækkun ESB er þar á meðal. Þau ræddu stöðuna í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og nýlega samþykkt ríkisstjórnarflokkana um meðferð viðræðnanna fram að kosningum.
Utanríkisráðherra tók upp stöðuna í makrílviðræðum Íslendinga, ESB og Norðmanna og lýsti vonbrigðum með nýlega einhliða ákvörðun hinna tveggja síðarnefndu um makrílkvóta. Lagði hann áherslu á að allir málsaðilar setjist að samningaborði til að finna varanlega lausn sem tryggi sjálfbæra nýtingu stofnsins.
Þá kynnti utanríkisráðherra Creigthon stöðuna í Icesave-dómsmálinu en á mánudag kveður EFTA dómstóllinn upp úrskurð sinn í málinu. Ráðherra sagði mikilvægt að virða niðurstöðu dómsins, hver sem hún yrði, og minnti á að um helmingur allra innistæðna á Icesave-reikningunum hefði nú þegar verið endurgreiddur úr búi Landsbankans.