Nr. 92/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 92/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19020006
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. febrúar 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. janúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. auk 2. mgr. 36. gr. sömu laga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi og að hann nyti þar alþjóðlegrar verndar. Þá eru í gögnum máls afrit af dvalarleyfisskírteini kæranda í Grikklandi og flóttamannavegabréfi gefið út af grískum stjórnvöldum. Í kjölfarið var grískum stjórnvöldum send beiðni um upplýsingar um stöðu kæranda þar í landi. Í svari grískra yfirvalda, dags. 31. ágúst 2018, kemur fram að kæranda hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns þann 19. desember 2017 og að hann væri með gilt dvalarleyfi í Grikklandi til 4. janúar 2021. Kærandi mætti til viðtals hjá Barnahúsi, þann 9. október 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 14. janúar 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 22. janúar 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 4. febrúar 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 13. febrúar ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnun kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Grikklands.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi, í viðtali í Barnahúsi, greint frá erfiðum aðstæðum sínum og fjölskyldu sinnar í heimaríki eftir andlát föður síns. Í kjölfarið hafi frændi kæranda gætt fjölskyldunnar en hann hafi átt við fíknivanda að etja, verið ofbeldisfullur og komið illa fram við fjölskylduna. Hann hafi m.a. látið þau vinna erfiðisvinnu og beitt þau líkamlegu og andlegu ofbeldi. Kærandi hafi því yfirgefið heimaríki sitt, farið til Tyrklands og í kjölfarið til Grikklands. Kærandi kvað veru sína í Grikklandi hafa verið mjög erfiða en þar hafi hann dvalið í 10 mánuði. Við komuna hafi hann dvalið í einn mánuð á stað sem hann hafi talið vera fangelsi. Þar hafi hann sótt um alþjóðlega vernd en kærandi kvað að hann hafi ekki haft aðra möguleika en að skrifa undir pappíra sem fyrir hann voru lagðir. Í framhaldinu hafi kærandi verið sendur í flóttamannabúðir á eyju við skelfilegar aðstæður, þar hafi matur verið af skornum skammti og hafi hann upplifað mikla vanlíðan og hræðslu. Eftir að kærandi hafi hlotið vernd í Grikklandi hafi aðstæður hans breyst lítillega, hann hafi verið færður frá eyjunni til nágrennis Aþenu í búsetuúrræði ætlað einstaklingum undir 18 ára aldri. Í því úrræði hafi kærandi fengið mat, 30 evrur á mánuði og aðgang að ávísuðum lyfjum. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki getað stundað nám og ekki átt möguleika á því að læra grísku. Honum hafi jafnframt verið tjáð að eina vinnan sem honum stæði til boða væri í tengslum við sölu fíkniefna eða vændi. Þá hafi kærandi fengið mörg tilboð um að eiga í kynferðislegu samræði við karlmenn gegn greiðslu en kveðst aldrei hafa tekið þeim heldur frekar fengið peningalán. Kærandi kveður það vera erfitt að vera útlendingur í Grikklandi vegna fordóma og viðhorfs til útlendinga sem sé þar við lýði. Þá sé hættulegt að vera á götum úti og að fólk hafi stundum komið heim í búsetuúrræðið blóðugt eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi eða rænt. Kærandi kveðst hafa upplifað mikið ofbeldi á lífsleiðinni, í fyrsta lagi af hálfu frænda síns í heimaríki, í öðru lagi þegar hann hafi reynt að komast ólöglega yfir landamærin til [...] og í þriðja lagi af hálfu lögreglunnar í Grikklandi. Kæranda glími [...] af þeim sökum. Í Grikklandi hafi lögreglan lamið og sparkað í fólkið í flóttamannabúðunum og sett þau í klefa í 30-48 klukkustundir uns þeim hafi verið sleppt. Þá kvaðst kærandi vera [...], hann hafi [...] í Grikklandi sem hann hafi ekki getað lifað án en hér á landi hafi hann ekki [...]. Þá kvað kærandi að hann eigi í vandræðum með [...]. Einnig hafi sótt á hann [...] í Grikklandi og kvaðst hann aðspurður frekar vilja fara aftur til heimaríkis en að snúa aftur þangað.
Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi bendir kærandi á að óumdeilt sé að þegar kærandi hafi komið hingað til lands hafi hann verið fylgdarlaust barn. Kærandi bendir á að í ákvæðum útlendingalaga sé að finna ákvæði sem tryggi aukin réttindi barna við meðferð umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd og vísar kærandi til rannsóknarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og útlendingalaga ásamt málshraðareglu stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreindra reglna bendir kærandi á að það hafi liðið ríflega 5 mánuðir frá komu kæranda hingað til lands þar til ákvörðun hans var birt en til samanburðar hafi meðalmálsmeðferðartími í Dyflinnarmálum árið 2017 verið 88 dagar. Málsmeðferð kæranda hjá stofnuninni beri ekki með sér að mál hans hafi verið sett í forgang en vegna þeirra hagsmuna sem hafi verið í húfi fyrir kæranda um að fá skjóta úrlausn máls síns gerir kærandi athugasemd við svo langan málsmeðferðartíma. Sérstaklega í ljósi þess að kærandi hafi verið fylgdarlaust barn við komuna til landsins og hafi haft brýna hagsmuni af því að mál hans hlyti hraða afgreiðslu hjá stofnuninni. Þá beri Útlendingastofnun fyrir sig misskilning í samskiptum milli stofnunarinnar og barnaverndar að því er varðar rannsókn á móttökuskilyrðum fylgdarlausra barna í Grikklandi sem hafi átt þátt í töf á meðferð málsins, sbr. fylgiskjal í gögnum málsins. Þar komi m.a. fram að stofnunin hafi ekki afrit af þeim fyrirspurnum sem lagðar voru fram í síma. Kærandi bendir á í því samhengi að stjórnvaldi beri að gæta þess við rannsókn máls að skrá niður upplýsingar í samræmi við 27. gr. upplýsingalaga nr. 14/2012. Af gögnum málsins verði því ráðið að beiðni hafi verið borin upp munnlega en ekki hvenær hún hafi verið borin upp eða hvert efnisinnhald hennar hafi verið. Beiðnin hafi verið ítrekuð skriflega þann 17. desember 2018, daginn fyrir loka birtingardag hjá stofnuninni. Áréttar kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að vanda til málsmeðferðar þegar utanaðkomandi aðila hafi verið veitt umboð til að koma að undirbúningi málsins og af málshraðareglu stjórnsýslulaga leiði að stjórnvöld þurfi að ganga á eftir því með ítrekunum og öðrum virkum úrræðum. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 494/2016, frá 16. desember 2016, máli sínu til stuðnings en um hafi verið að ræða sambærilegt mál þar sem umsækjandi í Dyflinnarmeðferð hafi náð 18 ára aldri undir meðferð málsins og hafi Útlendingastofnun verið gert með úrskurðinum að taka mál hans til efnismeðferðar, sérstaklega með tilliti til aldurs og óhóflegs málsmeðferðartíma. Í ljósi framangreinds telji kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, reglum um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana auk málshraðareglum. Með tilliti til hagsmuna kæranda af því að fá skjóta úrlausn á máli sínu er þó ekki gerð krafa um að málið verði tekið til meðferðar að nýju heldur að kærunefndin bæti úr ágöllum og geri Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.
Kærandi gerir í öðru lagi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki metið hann í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Við komu hingað til lands hafi kærandi verið fylgdarlaust barn og hafi þá talist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Stofnuninni hafi því borið að fara með umsókn hans sem umsókn fylgdarlauss barns, en sökum þess að stofnunin hafi dregið lappirnar í upplýsingaöflun sbr. framangreinda athugasemd við rannsókn málsins hafi það ekki verið gert. Þá hafi kærandi greint frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hann hafi sætt á lífsleiðinni, ásamt erfiðum aðstæðum í Grikklandi. Í komunótum kæranda frá Göngudeild sóttvarna komi m.a. fram að kærandi hafi kvartað vegna [...] sem hann hafi orðið fyrir á uppvaxtarárum. Kærandi eigi einnig slæmar minningar tengdar [...]. Kærandi hafi jafnframt þegið sálfræðimeðferð hér á landi vegna [...] . Hafi gögn um sálfræðimeðferð verið lögð fram til Útlendingastofnunar þann 21. janúar 2019, en í hinni kærðu ákvörðun hafi ekkert verið fjallað um efni þessara gagna eða þýðingu þeirra við mat á aðstæðum kæranda. Þá hafi talsmaður kæranda hlutast til um að framkvæmt yrði sálfræðimat á kæranda en hann hafi þegar sótt sjö tíma hjá sálfræðingi og í viðtölum hafi m.a. komið fram að hann glími við [...]. Í ljósi framangreinds megi ljóst vera að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Þá gerir kærandi í þriðja lagi athugasemd við beitingu Útlendingastofnunar á ákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, og telur að stofnuninni hafi borið að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda en ekki einungis að horfa til afmarkaðra og þröngra skilyrða umræddrar reglugerðar. Þannig hafi í ákvörðun Útlendingastofnunar ekki verið minnst á ákvæði 7. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga varðandi ungan aldur kæranda. Með því hafi stofnunin látið hjá líða að fjalla um þau meginsjónarmið sem skuli vera ráðandi við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi gerir einnig athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar auk umfjöllunar stofnunarinnar um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Kærandi bendir á í því sambandi að svo virðist sem ekkert sjálfstætt mat hafi verið lagt á raunverulega möguleika hans til að leita eftir nauðsynlegri aðstoð í Grikklandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé fjallað um tiltekin réttindi sem standi honum til boða án þess að þær upplýsingar séu settar í samhengi við einstaklingsbundnar aðstæður hans, þ.m.t. andlegs ástands. Útlendingastofnun vísi í ákvörðun sinni til tveggja fréttatilkynninga frá árinu 2017 þar sem greint sé frá tveimur verkefnum á vegum Rauða krossins frá því í júlí og ágúst 2017 og fullyrt að ekki verði annað séð en að grísk stjórnvöld hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart kæranda með fullnægjandi hætti er hann hafi dvalið í þeirra umsjá. Kærandi gerir athugasemd við þetta og bendir m.a. á að þessi tímabundnu samstarfsverkefni sem gríski Rauði krossinn hafi komið að væri lokið, en jafnframt að Rauði Krossinn hefði enn aðkomu að öðru þeirra. Kærandi telur óvarlegt að gefa framangreindum heimildum svo mikið vægi og telur að þær séu vart til þess fallnar að varpa ljósi á aðbúnað fylgdarlausra barna í nágrenni við Aþenu. Þá vilji kærandi benda á, með vísan til þess að það sé niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi geti leitað fjárhagslegs stuðnings í Grikklandi vegna aðlögunaraðgerðar á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að það sé tímabundið úrræði og ekki hægt að treysta á að það sé í boði fyrir kæranda. Þá sé kærandi ólæs og nær óskrifandi og eigi því enn erfiðara en ella með að bjarga sér á eigin spýtur. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé einnig lagt til grundvallar að kæranda standi til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta í Grikklandi, sem honum sé nauðsynleg, þegar opinber gögn um ástand mála í Grikklandi staðfesti að það kunni að vera vandkvæðum bundið að sækja slíka þjónustu. Hafi þessi skilningur þá verið staðfestur af kærunefnd útlendingamála sem og nýlegri skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hann eigi rétt samkvæmt grískum lögum á grunnheilbrigðisþjónustu þar í landi sé ekki þar með sagt að hann eigi rétt á geðheilbrigðisþjónustu sem sé honum nauðsynleg vegna andlegrar vanlíðan.
Kærandi vísar til greinargerðar sinnar hjá Útlendingastofnun er varðar aðstæður og réttindi einstaklinga með viðurkennda stöðu í Grikklandi, þ. á m. fylgdarlausra barna. Kærandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að endursending hans til Grikklands muni fela í sér brot gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement í skilningi 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi bendi á að stjórnvöldum beri að skoða gaumgæfilega þær aðstæður sem umsækjendur um alþjóðlega vernd standa frammi fyrir við endursendingu, þ. á m. þeirra sem fengið hafa vernd í móttökuríki líkt og kærandi. Kærandi telji í ofanálag við ungan aldur hans að aðstæður hans í Grikklandi, t.a.m. varðandi möguleika á húsnæði, framfærslu, aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu, séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Kærandi byggir kröfu sína í öðru lagi á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og bendir á að úrskurðir kærunefndar útlendingamála gefi með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengist m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Þá telji kærandi að á stjórnvöldum hvíli skylda til að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður hans og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann. Viðkvæm staða kæranda muni valda því að hann muni eiga erfitt uppdráttar í Grikklandi. Kærandi sé [...] og hafi verið á flótta frá barnsaldri. Eftir því sem liðið hafi á dvöl hans hér á landi hafi [...] sem gögn málsins beri með sér. Á þessu stigi málsins sé ljóst að kærandi muni ekki njóta sömu aðstoðar barnaverndar í Grikklandi og fengi hann því ekki sambærilegan stuðning og áður þar í landi. Af framangreindri umfjöllun um aðstæður þeirra sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi og sérstökum aðstæðum kæranda megi telja að staða hans verði verulega síðri en staða almennings líkt og 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga kveði á um.
Að lokum óskar kærandi eftir því að kærunefnd hlutist til um að aflað verði formlegs sérfræðimats á andlegu ástandi kæranda og mögulegum afleiðingum neikvæðrar niðurstöðu á heilsu hans og velferð áður en úrskurður verði upp kveðinn.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi þann 19. desember 2017 og hefur gilt dvalarleyfi þar í landi til 4. janúar 2021. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] karlmaður sem kom einn hingað til lands. Af gögnunum verður ekki annað lagt til grundvallar við úrlausn málsins en að kærandi hafi verið [...] við komu til landsins. Í því sambandi liggur fyrir að í Grikklandi var kærandi skráður með fæðingardaginn [...] þótt að baki þeirri skráningu hafi hvorki legið gild skilríki né annars konar greining á aldri. Meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun tók jafnframt mið af því að kærandi hefði verið barn við komuna hingað, þ.m.t. viðtal sem tekið var við hann í Barnahúsi.
Kærandi kvaðst í viðtali vera [...] og að hann hafi [...] í Grikklandi en hér á landi sé hann ekki að [...]. Þá kemur m.a. fram í komunótum kæranda frá Göngudeild sóttvarna að hann fái reglulega [...]. Samkvæmt fyrirliggjandi heilsufarsgögnum hafi kærandi jafnframt hitt sálfræðing reglulega hér á landi vegna alvarlegra [...]. Þá kemur m.a. fram að kærandi glími við [...] og [...] líkt og sé algengt meðal fólks með [...] og hann sé í áframhaldandi meðferð hér á landi.
Það er mat kærunefndar að gögn málsins beri með sér að við meðferð máls kæranda hér á landi hafi hann haft slíkar sérþarfir að hann teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
- 2017 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 20. apríl 2018);
- Freedom in the World 2018 – Greece (Freedom House, 1. ágúst 2018);
- Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
- Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
- Report to the Greek Government on the visit to Greece carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 10 to 19 April 2018 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 19. febrúar 2019;
- Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
- UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014);
- ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
- Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
- Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
- EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
- Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017) og
- State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016).
Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst nú jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Þá eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu.
Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar en aðgengi þeirra að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.
Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegrar greiðslu. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. fyrir þolendur pyndinga.
Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, þ. á m. af hendi grísku lögreglunnar. Þá kemur fram að aðbúnaður í fangelsum og varðhaldsstöðvum sé víða ekki fullnægjandi. Klefar séu yfirfullir, óþrifnaður sé mikill og aðgengi að heilbrigðisþjónustu takmarkað. Einnig kemur fram að þarlend lög og stjórnarskrá leggi bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Enn fremur séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Af framangreindri skýrslu verður ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóla sé tryggt í framkvæmd, svo og réttindi brotaþola og sakborninga.
Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að grísk stjórnvöld hafa sérstaklega verið gagnrýnd fyrir móttöku fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd þar í landi. Í skýrslu Asylum Information Database frá árinu 2018 kemur m.a. fram að í gríska móttökukerfinu séu ríflega þúsund pláss fyrir fylgdarlaus börn en að áætlaður fjöldi barna sem þurfi á slíku plássi að halda sé rúmlega þrjú þúsund. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að vegna skorts á úrræðum fyrir fylgdarlaus börn sé varðhaldi beitt gagnvart þeim með kerfisbundnum hætti og jafnvel yfir lengri tímabil. Aðbúnaður fylgdarlausra barna í varðhaldi í Grikklandi hafi verið harðlega gagnrýndur, þ.m.t. af CPT-nefndinni og Mannréttindadómstól Evrópu.
Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.
Í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013 kemur m.a. fram að það eitt að efnahagsstaða einstaklings versni við brottvísun eða frávísun frá aðildarríki nái ekki alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmálans. Þá verði greinin ekki túlkuð þannig að í henni felist skylda aðildarríkja til að sjá einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum. Dómstóllinn áréttaði jafnframt að einstaklingur sem stendur til að vísa brott geti ekki gert kröfu um áframhaldandi dvöl í ríki í því skyni að njóta þar heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að valda broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæltu gegn endursendingu.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið varðandi börn og ungmenni sem líta ber til við mat á því hvort taka beri umsóknir til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna. Þar segir m.a. að sé barn fylgdarlaust beri að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun sé heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna samrýmist það hagsmunum þess og afstöðu. Þá segir að við mat á sérstökum ástæðum sé heimilt að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en sannanlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins.
Kærandi hefur greint frá því að hafa dvalið í sérstöku tímabundnu úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og yngri í Grikklandi en ljóst er að væri kæranda gert að snúa aftur myndi það úrræði ekki standa honum til boða. Eins og að framan greinir myndi kærandi sem fullorðinn einstaklingur með alþjóðlega vernd í Grikklandi njóta sambærilegrar félagslegrar aðstoðar og ríkisborgar Grikklands. Aftur á móti liggur fyrir að í slíkri aðstoð fælist ekki húsnæði fyrir kæranda auk þess sem hann þyrfti að yfirstíga tilteknar stjórnsýslulegar hindranir til að njóta félagslegrar þjónustu, t.a.m. í formi fjárhagsaðstoðar. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi þurfi á meðferð að halda við andlegum veikindum. Af framangreindum heimildum má ráða að kærandi eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Aftur á móti geti verið vandkvæðum bundið að sækja téða þjónustu, einkum sérhæfða heilbrigðisþjónustu s.s. vegna andlegra veikinda, og að þá sé túlkaþjónusta af skornum skammti.
Eins og að framan greinir eru gögn málsins þess eðlis að ekki er unnt að leggja annað til grundvallar við úrlausn þess að kærandi hafi verið fylgdarlaust barn við komu til landsins. Í samræmi við 32. gr. a reglugerðar um útlendinga telur kærunefnd því rétt að horfa sérstaklega til ungs aldurs hans við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans.
Að framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi hafi hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi þá séu einstaklingsbundnar aðstæður kæranda þess eðlis að rétt sé að taka umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna. Hefur kærunefnd við það mat bæði litið til þeirra félagslegu aðstæðna sem bíða kæranda í Grikklandi og ungs aldurs hans, eins og að framan hefur verið rakið. Því er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.
Samantekt
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Erna Kristín Blöndal Anna Tryggvadóttir