Fundargerð 26. fundar stjórnarskrárnefndar
1. Inngangur
Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 6. febrúar 2007 klukkan 17.30 síðdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Þorsteinn Pálsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson (formaður). Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson voru forfallaðir. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð. Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athugasemda.
2. Áfangaskýrsla
Lögð voru fram endurskoðuð drög að áfangaskýrslu. Var ákveðið að fundargerðir nefndarinnar og vinnuhópa hennar myndu fylgja með sem fylgiskjöl auk þriggja helstu greinargerða sérfræðinganefndarinnar. Tekið yrði fram að vinnuhópunum hefði verið ætlað að setja fram hugmyndir, sem síðan yrðu ræddar í fullskipaðri nefnd. Yrði því að skoða fundargerðir þeirra í samhengi við umræður sem síðan urðu inni í nefndinni sjálfri, en þær væru raktar í fundargerðum nefndarinnar og áfangaskýrslunni. Var ritara falið að senda út lokadrög á næstu dögum þar sem gefinn yrði stuttur frestur til athugasemda.
3. Önnur mál
Birgir Ármannsson gat þess að sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármálefni hefði komið saman og vænta mætti frá henni hefðbundins bréfs þar sem upplýst væri um þingmál á yfirstandandi þingi er vörðuðu stjórnarskrána. Lagt var fram bréf formanns til forsætisráðherra dags. 5. feb. með tillögu nefndarinnar um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar ásamt fylgiskjölum. Kom fram ábending um lagfæringu á orðalagi í greinargerð með frumvarpinu og var ritara falið að koma henni áleiðis. Ritara var falið að kanna hvenær væri hentugur tími fyrir lokafund nefndarinnar í þessari lotu en ekki ætti að vera þörf á sérstökum fundi til að ljúka áfangaskýrslunni, það ætti að vera hægt með tölvupóstsamskiptum.