Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs afhent
Dr. Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs í ár. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Antoni Karli verðlaunin á Rannsóknarþingi 2017 sem fram fór í dag.
Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr á sínu sviði og talinn er líklegur til afreka í rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987 og eru til þess ætluð að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.
Yfirskrift Rannsóknarþings var Heimur örra breytinga og var dagskrá þingsins helguð nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2017-2019. Í stefnunni eru áherslur á að skilgreina samfélagslegar áskoranir, efla nýsköpun, auka gæði háskólastarfs og styrkja innviði. Í ávarpi sínu talaði mennta- og menningarmálaráðherra m.a. um tungu og tækni sem eitt af forgangssviðum í vísindum og nýsköpun:
„Á síðustu árum hefur íslenskan því miður dregist aftur úr á mörgum sviðum upplýsingatækninnar. Mikið af hugbúnaði sem notaður er dags daglega er eingöngu notaður á ensku eða öðrum erlendum tungumálum. Ég tel það skipta okkur afar miklu máli að tryggja að íslenskan verði fullgilt tungumál í hinum stafræna heimi, eigi hún að vera lífvænleg þjóðtunga til framtíðar. Því munum við, á næstu vikum, auglýsa sérstaka markáætlun um tungu og tækni sem hefur það markmið að efla stöðu íslenskunnar í tækni og efla nýliðun í rannsóknum á tungunni í okkar tæknivædda heimi.“
Nánar má lesa um Anton Karl og Hvatningarverðlaunin á vef Rannís.