Stefna um íslenskt táknmál í Samráðsgátt
Menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnir til samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu um íslenskt táknmál og meðfylgjandi aðgerðaáætlun.
- Hér má finna drögin í Samráðsgátt stjórnvalda: Málstefna um íslenskt táknmál
Íslenskt táknmál (ÍTM) er hefðbundið minnihlutamál á Íslandi skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011.
Stefnudrögin voru unnin af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra með víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum.
Samkvæmt stefnunni skulu íslenska ríkið og sveitarfélög stuðla að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðja að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu táknmálsfólks.
Drögin taka mið af lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, þingsályktun um menntastefnu fyrir árin 2021–2030 og þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.
Málstefnan tekur til fimm meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins ÍTM:
- Jákvætt viðhorf er kjarni málstefnu ÍTM og grundvöllur jafnra tækifæra
- ÍTM í máltöku táknmálsbarna er lykillinn að framtíðinni
- Rannsóknir á ÍTM skipta sköpum fyrir varðveislu menningarverðmæta
- Jöfn þátttaka í íslensku þjóðlífi fæst með fjölgun umdæma ÍTM
- Lagaumhverfi á að tryggja stöðu ÍTM
- Hér má finna drögin í Samráðsgátt stjórnvalda: Málstefna um íslenskt táknmál
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sá um túlkun á aðgerðaráætlun, þingsályktun og fréttinni.