Börn föst í vítahring flótta og brottvísana
Börn og ungmenni, sem flýja ofbeldi, skipulagða glæpastarfsemi og fátækt í Mið-Ameríku, eiga á mikilli hættu að festast í vítahring flótta og brottvísana. Þar eru fylgdarlaus börn og konur í hvað viðkvæmastri stöðu og eiga á verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun, seld mansali eða jafnvel drepin á leið sinni. Við þessu varar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, í nýrri skýrslu um börn og ungmenni á flótta og faraldsfæti frá Mið-Ameríku og Mexíkó sem kom út í gær.
Ofbeldi, glæpir og gengjastríð, fátækt og skortur á tækifærum til menntunar eru helstu ástæður þess að börn og fjölskyldur í Mið-Ameríku (El Salvador, Gvatemala og Hondúras) og Mexíkó leggja af stað í hættulegt ferðalag í leit að betra lífi, yfirleitt með stefnuna á Bandaríkin. Mörg þeirra hafa borgað smyglurum í upphafi ferðarinnar, standa í mikilli skuld, og eru líklegri til að upplifa enn meiri fátækt, ofbeldi, hótanir og félagslega einangrun ef þeim er vísað aftur til heimalands síns.
„Eins og skýrslan leiðir í ljós þá eru milljónir barna á svæðinu sérlega viðkvæm sökum fátæktar, mismununar, ofbeldis og ótta við brottvísanir,“ segir Marita Perceval, svæðisstjóri UNICEF fyrir Mið-Ameríku og Karíbahaf. „Í mörgum tilvikum eiga börnin, sem send eru aftur til upprunalandsins, ekkert heimili til að snúa aftur til, eru með miklar skuldir á bakinu eða verða skotmörk glæpagengja. Að senda þau aftur í svo ómögulega stöðu gerir það enn líklegra að þau leggist á flótta á ný,“ bætir Perceval við.
Strangara landamæraeftirlit leysir ekki vandann
Frá því í október í fyrra og þangað til í júní á þessu ári voru rúmlega 280 þúsund flóttamenn stöðvaðir eða handteknir á landamærum Bandaríkjanna, þar af tæplega 40 þúsund fylgdarlaus börn. Eins og fram hefur komið í fréttum hafa börn og fjölskyldur verið hneppt í varðhald á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og hefur stefna Bandaríkjanna verið harðlega gagnrýnd.
Varðhald og aðskilnaður barna og foreldra á landamærum, svo vikum eða mánuðum skiptir, getur skaðað börn fyrir lífstíð og gert þau enn berskjaldaðri en þau voru upprunalega. UNICEF á Íslandi hefur fordæmt þennan aðskilnað barna frá fjölskyldum sínum á landamærum Bandaríkjanna.
„Strangara landamæraeftirlit kemur í raun ekki í veg fyrir það að börn og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu freisti þess að komast yfir landamærin, en eykur þess í stað óþarfa þjáningu fólks á flótta. Barn er fyrst og fremst barn, hverjar svo sem aðstæður hans eða hennar eru. Það þarf að ráðast að rót vandans og tryggja um leið öryggi barnanna á ferð sinni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Skýr krafa um aðgerðir
Skýrslan skoðar orsakir og afleiðingar þess að börn og fjölskyldur freista þess að leggja í hættulega ferð, oft með því að fara ólöglegar leiðir með hjálp smyglara, frá Mið-Ameríku og Mexíkó yfir til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Í skýrslunni er að finna aðgerðaráætlun UNICEF um hvernig skuli takast á við orsakir vandans og um leið hvernig tryggja skuli öryggi barna og fjölskyldna á ferðalaginu og áfangastað. Efla þarf þjónustu við börn og fjölskyldur á flótta og faraldsfæti, og styðja önnur úrræði en að hneppa fólk í varðhald.
UNICEF styður verkefni í öllum þeim löndum sem um ræðir sem snúa meðal annars að bættu aðgengi að menntun og atvinnutækifærum, fjölskyldusameiningu og þjónustu við börn og fjölskyldur sem búa við mikla fátækt. Það þarf þó að stórauka slíkar aðgerðir til að mæta þörfum allra þeirra barna sem eru í viðkvæmri stöðu.
Aðgerðaráætlun UNICEF fyrir börn á flótta og faraldsfæti
Kallað er eftir því að stjórnvöld og aðrir hluteigandi aðilar vinni saman að orsök vandans og setji í forgang röð aðgerða til að tryggja öryggi og réttindi barna á flótta og faraldsfæti:
- Verja þarf börn á flótta og faraldsfæti, sérstaklega fylgdarlaus börn, gegn ofbeldi og misneytingu.
- Hætta þarf að hneppa í varðhald þau börn sem sækja um stöðu flóttamanns eða eru á faraldsfæti.
- Halda þarf fjölskyldum saman en það er sterkasta vopnið til að tryggja öryggi barna, veita þarf fjölskyldunum síðan lagalega stöðu.
- Halda þarf öllum börnum á flótta og faraldsfæti í námi, og veita þeim heilbrigðisþjónustu sem og aðra grunnþjónustu.
- Þrýsta þarf á aðgerðir til að takast á við undirliggjandi orsakir hinnar stórfelldu aukningar flóttamanna og fólks á faraldsfæti í heiminum.
- Vinna þarf gegn útlendingahatri, mismunun og jaðarsetningu minnihlutahópa.
Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF fyrir réttindum barna um allan heim. Á Íslandi eru ríflega 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.
Skýrsluna má nálgast hér.