Hoppa yfir valmynd
30. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 191/2022- Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 191/2022

Fimmtudaginn 30. júní 2022

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 1. apríl 2022, um að greiða honum skerta fjárhagsaðstoð frá febrúar 2022 vegna höfnunar á virkniúrræði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ frá september 2021. Þann 3. febrúar 2022 var kærandi boðaður á atvinnuleitarnámskeið hjá B sem fara átti fram fjóra daga í febrúarmánuði. Með tölvupósti, dags. 7. mars 2022, var kæranda tilkynnt niðurstaða fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar um að skerða fjárhagsaðstoð kæranda vegna höfnunar á virkniúrræði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðu fjölskyldu- og barnamálasviðs til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar. Fjölskylduráð tók mál kæranda fyrir á fundi þann 1. apríl 2022 og staðfesti synjun á beiðni hans um óskerta fjárhagsaðstoð með vísan til 2. mgr. 3. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með tölvupósti, dags. 6. apríl 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. apríl 2022. Með bréfi, dags. 7. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð þann 3. maí 2022. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 9. maí 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ og verið boðaður á námskeið. Kæranda hafi aldrei borist boðið en það hafi farið beint í ruslpóst hjá honum. Nefnd hafi tekið skýringar kæranda gildar. Næstu mánaðamót hafi kærandi verið boðaður á næsta námskeið. Helgina fyrir námskeiðið hafi kærandi farið í heimsókn til vinar síns á C með enga tölvu og gleymt hleðslutæki fyrir símann sinn. Þessa helgi hafi mikið snjóað og bíllinn, sem vinur hans hafi verið á, hafi lokast í innkeyrslunni. Kærandi hafi þar af leiðandi verið fastur með enga tölvu og engan síma. Kærandi hafi látið vita með fyrirvara að hann kæmist ekki á námskeiðið og ítrekað beðið um að vera settur á næsta námskeið. Fátt hafi verið um svör og kæranda síðan verið synjað um fulla fjárhagsaðstoð. Það hafi verið líkamlega ómögulegt fyrir kæranda að mæta á þetta námskeið. Kærandi sé allur af vilja gerður að fara á næsta námskeið.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi sé atvinnulaus og án bótaréttar og hafi frá september 2021 fengið fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Í samræmi við 1. mgr. 3. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð hafi honum verið boðið virkniúrræði til undirbúnings atvinnuþátttöku. Kærandi hafi verið boðaður á námskeið hjá B í janúar 2022 sem hafi átt að fara fram á fjarfundi. Kærandi hafi ekki mætt á námskeiðið og gefið þá skýringu að tölvupósturinn hefði misfarist, eða farið í ruslpóst, en bæði B og starfsmaður ráðgjafardeildar fjölskyldu- og barnamálasviðs hafi sent honum póst um námskeiðið. Kærandi hafi þá fengið tækifæri til að mæta á næsta námskeið sem hafi verið haldið þann 7. febrúar 2022 en hann hafi ekki mætt. Kærandi hafi þá sagst vera staddur hjá vini sínum á C, hafa snjóað þar inni, tölvulaus og ekki með hleðslutæki fyrir síma. Þar sem kærandi hafi í tvígang verið búinn að fá tækifæri til að sitja námskeið eins og skilyrði sé samkvæmt reglum Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð en hafi í hvorugt skiptið mætt, hafi verið ákveðið að skerða fjárhagsaðstoð hans sem heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglnanna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð frá febrúar 2022 vegna höfnunar á virkniúrræði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. laganna að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði. Tilgangur aðstoðar er að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og að stuðla að valdeflingu þeirra.

Í máli þessu kemur til skoðunar ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð með vísan til þess að hann hafi hafnað virkniúrræði. Í 3. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð eru raktar aðstæður sem valda lækkun á framfærslustyrk. Í 1. mgr. segir að fjárhagsaðstoð skuli alla jafna veitt sem tilboð um tímabundið launað starf eða virkniúrræði samhliða fjárhagsstyrk, sé umsækjandi vinnufær. Þegar fjárhagsaðstoð sé veitt í formi tilboðs um tímabundið starf skuli kjarasamningsbundin laun að teknu tilliti til starfshlutfalls aldrei vera lægri en grunnframfærsla samkvæmt 11. gr. reglnanna. Þá segir í 2. mgr. 3. gr. að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða virkni eða hafi sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa sé heimilt að greiða honum allt að hálfri upphæð framfærslustyrks hans samkvæmt 11. gr. þann mánuð sem hann hafni vinnu eða úrræði svo og tvo mánuði þar á eftir.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kæranda var boðið á námskeið hjá B í janúar 2022. Kærandi mætti ekki á námskeiðið og kom með þær skýringar að tölvupóstar frá B hefðu farið í ruslpóst hjá honum og námskeiðið þar af leiðandi farið fram hjá honum. Kærandi var því boðaður aftur á námskeið hjá B með tölvupósti þann 3. febrúar 2022, en námskeiðið skyldi fara fram á Zoom dagana 7., 9. 14. og 16. febrúar 2022. Staðfesti kærandi móttöku í tölvupósti þann 4. febrúar 2022 og sagði: „Ok flott ég mæti þá online 13 á mánudag.“ Ljóst er að kærandi mætti ekki á umrætt námskeið. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að kærandi hafi fært fram viðhlítandi skýringu, í skilningi 2. mgr. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, fyrir því að mæta ekki á námskeiðið. Að því virtu er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð í febrúar 2022 og tvo mánuði þar á eftir, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að greiða A, skerta fjárhagsaðstoð í febrúar 2022 og tvo mánuði þar á eftir, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta