Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra heimsótti Landspítalann
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, heimsótti Landspítalann í vikunni þar sem Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, tók á móti henni ásamt starfsfólki sem sinnir heilbrigðis- og upplýsingatækni og þjónustusviði spítalans. Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu er ein af megináherslum ráðherra og ræddu þau m.a. áskoranir spítalans og þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að innan hans þar sem nýsköpun er í lykilhlutverki.
Landspítalinn hefur síðustu ár unnið ötullega að aukinni nýtingu hugvits og nýsköpunar í þjónustu sinni og má þar nefna ýmsa stafræna þróun, rafræna sjúkraskrá og samstarf við nýsköpunarfyrirtæki. Lengi má þó gott bæta og er aukin nýsköpun í heilbrigðisþjónustu lykilforsenda þess að kostnaðaraukning við rekstur Landspítalans verði haldið í lágmarki í náinni framtíð.
Meiri nýsköpun í starfi Landspítalans sparar tugi milljarða árlega
Spár McKinsey ráðgjafafyrirtækisins um vöxt Landspítalans fram til ársins 2040 sýna að vegna öldrunar þjóðarinnar muni þurfa að fjölga starfsfólki spítalans um 45% og kostnaður við rekstur hans aukast um 90%, þ.e. 70 milljarða króna aukning, verði ekki ráðist í grundvallarbreytingar til að stórauka notkun hugvits og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Greining McKinsey sýnir að ef rekstur Landspítalans er lagaður að nýjum ferlum, stafrænum lausnum og nýsköpun mun þessi gríðarlega aukning ekki leiða til nema 3% fjölgunar starfsfólks og um 30% hækkunar heildarkostnaðar árið 2040. Þetta þýðir að með aukinni nýtingu hugvits í rekstri spítalans sparast nærri 50 milljarðar króna árlega.
Ljóst er að Landspítalinn og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið eiga samleið þegar kemur að framtíðarsýn um aukna notkun hugvits og nýsköpunar til framtíðar. „Lykillinn að því að fjölga starfsfólki um einungis 3% í stað 45% er hugivitið,“ segir ráðherra. „Þessari þróun verður ekki breytt án nýsköpunar, tækni, vísinda og stafrænna lausna.“
Styrkir til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu
Áslaug Arna fjallaði nýlega um að ekki sé nóg að fjárfesta í nýsköpun ef nýjar lausnir eru ekki nýttar í íslensku samfélagi. „Eftir að hafa fundað með fjölda frumkvöðla blasir við að veggir hins opinbera eru of háir og lokaðir fyrir hugmyndum nýsköpunarfyrirtækja. Þetta skýtur skökku við þegar við sem samfélag fjárfestum í nýsköpun fyrir um 30 milljarða króna en nýtum ekki þær lausnir sem verða til fyrir okkar eigin kerfi.“
Nauðsynlegt er að innleiða nýjungar til að gera íslenskt heilbrigðiskerfi skilvirkara og betra. Liður í því verkefni er að horfa til innlendrar nýsköpunar. Ráðherra hefur í því skyni kynnt 60 milljóna króna úthlutun til styrkveitinga í nýsköpunarverkefni í heilbrigðisþjónustu og er unnið að undirbúningi þess. Styrkveitingin verður háð því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkinn hlýtur. Þá verður lögð sérstök áhersla á stuðning við samstarf milli hins opinbera og einkaaðila um land allt.
Góð raun af heilbrigðislausnum sem fengið hafa stuðning úr íslensku styrkjakerfi
Gróska í nýsköpun á Íslandi hefur ekki síður átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins og hefur fjöldi nýsköpunarfyrirtækja hlotið styrki til verkefna sinna og átt í góðu samstarfi við Landspítalann. Má þar nefna Sidekick Health sem þróað hefur smáforrit sem vaktar og fræðir krabbameinssjúklinga á ónæmisörvandi meðferð og Risk sem þróað hefur áhættureikni á augnsjúkdómum vegna sykursýki. Þessi verkefni, auk tíu annarra, fengu fjármögnun úr fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu árið 2020.
Þá má einnig nefna stærri fyrirtæki á borð við Controlant sem notið hafa góðs af stuðningi íslenskra stjórnvalda við nýsköpun. Fyrirtækið, sem þróað hefur mælitækni og vöktunarkerfi til að fylgjast með flutningaferli vöru sem þarfnast sérstakrar vöktunar, s.s. lyf og bóluefni, naut góðs af stuðningi sem það fékk í gegn um skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna og Tækniþróunarsjóð. Skiptu þessir styrkir sköpun við að ná þeim árangri sem Controlant hefur náð í dag.
Landspítalinn vinnur einnig að nýsköpun og þróun innan spítalans og má þar nefna verkefni á borð við staðsetningalausnir sem auka öryggi og hámarka afköst, auka aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að Landspítalanum og þróun Heilsugáttar, þar á meðal notkun gervigreindar.