Frumvarp gegn kynferðisbrotum.
Fréttatilkynning
10/2006
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Ragnheiður Bragadóttir, lagaprófessor við Háskóla Íslands, hittust á fundi í dag, 8. mars, til að ræða lokagerð frumvarps til laga um breytingar á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Ráðherra mun leggja til við ríkisstjórn, að frumvarpið verði flutt á alþingi.
Hinn 14. febrúar síðastliðinn var frumvarpið, sem Ragnheiður Bragadóttir samdi að ósk dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnt opinberlega og frá því skýrt, að hinn 8. mars yrði ákvörðun tekin um lokagerð þess, enda gæfist kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið á vefsíðu ráðuneytisins og við höfund þess á málstofu, sem efnt var til í lagadeild Háskóla Íslands hinn 3. mars síðastliðinn.
Við endanlegan frágang frumvarpsins verður tekið mið af ábendingum, sem fram hafa komið á umsagnartímanum. Ráðherra tekur ekki undir sjónarmið þeirra, sem gagnrýnt hafa frumvarpið á þeirri forsendu, að þar sé ekki farin hin svonefnda sænska leið við breytingu á ákvæðinu um vændi. Hann telur, að aðstæður hér og í Svíþjóð séu svo ólíkar, að óþarft sé að sníða íslenska löggjöf eftir úrræðum, sem Svíar leiddu í lög, einkum til að bregðast við mansali og götuvændi.
Reykjavík 8. mars 2006