Áratugur aðgerða til fækkunar umferðarslysum hafinn
Hleypt var af stokkunum í morgun alheimsátakinu áratugur aðgerða til fækkunar á umferðarslysum sem standa á frá 2011 til 2020. Á Íslandi fór atburðurinn fram hjá miðstöð ökukennslu á Kirkjusandi í Reykjavík að viðstöddum forseta Íslands, velferðarráðherra og innanríkisráðherra auk fulltrúa ýmissa aðila sem standa að átakinu.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árin 2011 til 2020 áratug aðgerða í umferðaröryggismálum og hvetja aðildarlönd sín til að efla hvers kyns aðgerðir í því skyni að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Átakið hófst því formlega í flestum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í dag. Meginmarkmið verkefnisins er að með samstilltum aðgerðum fækki umferðarslysum í heiminum og verður úttekt gerð á átakinu og hverju það hefur skilað árið 2020.
Starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins og fleiri aðila hefur sett fram áætlun um fyrstu skref sem miða að því að herða á ýmsum umferðaröryggisaðgerðum, auka rannsóknir og hvetja til aukinnar vitundar um afleiðingar umferðarslysa.
Takmarkið að útrýma banaslysum og alvarlegum slysum
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu þegar hann setti átakið að margir hefðu í áraraðir unnið hérlendis að umferðaröryggismálum. En bæði yfirvöld og einstaklingar mættu gera betur. Hann sagði það vera unnt meðal annars með því að auka fjármagn til umferðaröryggisaðgerða, auka rannsóknir, auka gagnasöfnun og úrvinnslu, auka fræðslu, bæta lagasetningu og auka samstarf við aðrar þjóðir. Hann sagði að enginn gæti verið undanskilinn í þessu átaki, það þyrfti að ná til þjóðhöfðingja, stjórnmálamanna, fjölmiðla, embættismanna, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. ,,Ef allir leggjast á eitt er ekki óraunhæft að ætla að í lok áratugarins hafi umferðarslysum hér á landi fækkað umtalsvert, en takmarkið er vitanlega að útrýma banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Á því leikur enginn vafi – við undirbúum okkur undir að taka upp núllsýn.”
Nemendur þriðja bekkjar N í Laugarnesskóla slepptu síðan 201 blöðru til minningar um jafnmarga sem létust í umferðarslysum árin 2001 til 2010.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sagði í ávarpi sínu að við hefðum enn verið minnt á alvöruna í umferðinni og vísaði til banaslyss sem varð í gærkvöld á Austfjörðum. Hann sagði brýnt að halda áfram forvörnum og minnti á hvernig tekist hefði að fækka mjög slysum á sjó.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði umferðarslys vera heilbrigðisvanda. Hann tók undir að herða þyrfti baráttu í umferðaröryggismálum og minnti á hinar alvarlegu afleiðingar umferðarslysa. Þannig þyrfti til dæmis að hvetja til aukinna rannsókna á mænuskaða enda glímdu margir við slíkan heilbrigðisvanda eftir umferðarslys.
Á hverju ári látast 1,3 milljónir manna í umferðarslysum
Talið er að árlega farist um 1,3 milljónir manna í umferðarslysum á heimsvísu. Ef ekkert yrði að gert er talið líklegt að árið 2020 verði þessi tala komin upp í 1,9 milljónir. Um 90% þessara umferðarslysa verða í þróunarlöndunum. Talið er að um 1-3% af vergri þjóðarframleiðslu aðildarríkja SÞ fari í kostnað vegna umferðarslysa, sem nemur um 500 milljörðum dollara árlega.
Verkefnaáætlun
Á 10 ára tímabili verkefnisins verður mikil áhersla lögð á að aðildarríki SÞ þrói umferðarkerfi sem geta betur tekið á mannlegum mistökum í umferðinni og dregið úr alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Áherslunni verður að vissu leyti beint frá vegfarendum að þeim sem hanna umferðarkerfið, þ.e. yfirvöldum vegamála á landsvísu og í sveitarfélögum. Verkefni þeirra byggjast á því að séð verði fyrir framlögum til umferðaröryggismála og þar kemur til kasta löggjafarvaldsins og stjórnmálamanna. Eftir sem áður er það á ábyrgð vegfarenda að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda í umferðinni.
Meðal verkefna sem ráðast á í hérlendis er að auka rannsóknir á umferðarslysum á gangandi vegfarendur og afleiðingar þeirra, setja markmið um fækkun umferðarslysa til ársins 2020, vinna að umbótum á slysaskráningu, reikna út á ný kostnað samfélagsins vegna umferðarslysa, að hvetja yfirvöld, sveitarstjórnir, félagasamtök og einstaklinga til að leggja sitt að mörkum. Einnig verður sjónum beint að framleiðendum ökutækja, lögregluyfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum, skólum, frjálsum félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum um að stuðla að framgangi verkefnisins. Lögð skal áhersla á þátttöku allra í verkefninu ekki eingöngu opinberra yfirvalda.
Sameinuðu þjóðirnar hafa skipt verkefnum áratugarins í umferðaröryggismálum í 5 hluta sem eru eftirfarandi:
- Umferðaröryggi vegakerfa
- Öruggari vegir og hreyfanleiki
- Öruggari ökutæki
- Öruggari vegfarendur
- Viðbrögð þegar umferðarslys hefur orðið.
Umferðarsamningar SÞ
Mikil áhersla er lögð á að samræma umferðarlöggjöf milli landa eins og unnt er og að aðildarríki SÞ fullgildi samninga SÞ á umferðarsviðinu. Ísland fullgilti nýlega samning Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi og gerðist aðili að honum þann 26. mars. Nú er unnið að því að fullgilda samning SÞ um framleiðslu ökutækja en í viðaukum við þann samning koma fram samræmdar reglur um framleiðslu ökutækja. Stefnt er að því að Ísland verði aðili að þeim samningi fyrir lok þessa árs.