Grundaskóli áfram leiðtogaskóli í umferðarfræðslu
Fulltrúar Grundaskóla á Akranesi og Umferðarstofu skrifuðu í dag undir áframhaldandi samning um umferðarfræðslu í skólum. Grundaskóli hefur með starfi sínu verið öðrum grunnskólum á Íslandi til fyrirmyndar og ráðgjafar á þessu sviði allt frá árinu 2005.
Samninginn undirrituðu Hrönn Ríkharðsdóttir, fyrir hönd Grundaskóla, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem staðfesti samninginn, og Gunnar Geir Gunnarsson, fyrir hönd Umferðarstofu.
Markmið fræðslunnar er að:
- Koma umferðarfræðslu inn í skólanámskrár allra grunnskóla.
- Halda námskeið í umferðarfræðslu fyrir grunnskólakennara í grunnskólum landsins þeim að kostnaðarlausu.
- Vera öðrum grunnskólum í landinu til fyrirmyndar og ráðgjafar á sviði umferðarfræðslu.
- Efla námsefnisgerð í umferðarfræðslu og stuðla að þróun náms- og fræðsluvefs um umferðarmál.
Grundaskóli hefur unnið að gerð fræðsluvefsins umferd.is samvinnu við Umferðarstofu og Námsgagnastofnun og var hann formlega opnaður í janúar 2006. Á vefnum er hægt að nálgast leiðbeiningar og fræðslu fyrir börn, foreldra og kennara sem annast umferðarfræðslu. Skólayfirvöld geta haft samband við Grundaskóla um allt er varðar umferðarfræðslu grunnskólabarna.