Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 711/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 711/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23090079 og KNU23090080

 

Kæra [...]og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. september 2023 kærðu [...], fd. [...] (hér eftir nefndur A) og [...], fd. [...] (hér eftir nefnd B), ríkisborgarar Indlands (saman nefnd kærendur), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 12. september 2023, um að synja þeim um vegabréfsáritanir til Íslands.

Af kæru má ráða að kærendur krefjist þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veittar vegabréfsáritanir til Íslands.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og bárust kærur þeirra fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 6. september 2023, óskuðu kærendur eftir vegabréfsáritunum til Íslands og Schengen-svæðisins í átta daga, frá 10. til 17. október 2023. Umsóknum kærenda var synjað með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 12. september 2023. Hinn 16. september 2023 barst kærunefnd kæra frá kærendum ásamt fylgigögnum. Frekari fylgigögn voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 20. september 2023.

III.    Málsástæður og rök kærenda

Í kæru vísa kærendur til fyrirliggjandi ákvarðana Útlendingastofnunar og kveða þær hafa valdið þeim miklum vonbrigðum. Kærendur vísa til ástæðu synjunar á umsóknum þeirra og vilja koma á framfæri frekari skýringum til þess að sýna fram á áreiðanleika umsókna þeirra. Í fyrsta lagi árétta þau tilgang ferðarinnar, sem sé að búa til minningar saman, með því að kanna og upplifa menningu og náttúrufyrirbrigði á Íslandi og í Sviss, sem þau vilji líka heimsækja. Vísað er til ferðaáætlunar, sem var meðal fylgigagna með umsókn, þar sem greint er frá fyrirhuguðum ferðalögum og áfangastöðum. Þar að auki greinir kærandi A frá atvinnu sinni og fjármálum og tilgreinir fjárhæð sem hann hafi til ráðstöfunar á bankareikningi. Kærandi B sé í framhaldsnámi í háskóla í Bretlandi og sé nýbúin að skila lokaritgerð, sem marki endalok námsins. Varðandi tilgang ferðar og synjunarástæðu í ákvörðunum Útlendingastofnunar þá vilji kærendur koma tveimur atriðum á framfæri, til þess að styrkja grundvöll umsókna þeirra. Í fyrsta lagi árétta þau tilgang ferðarinnar og skuldbindingu þeirra að virða lög og reglur á meðan dvöl þeirra á Íslandi og í Sviss stendur. Þau geri sér grein fyrir regluverki sem búi að baki vegabréfsáritunum og hafi engar fyrirætlanir um að brjóta gegn þeim. Í öðru lagi er vísað til fjármuna á bankareikningi kæranda A og greint frá myndbandsupptöku þar sem fjárhæðin er sýnileg í netbanka hans. Í ljósi framangreinds óska kærendur þess að fyrri ákvarðanir íslenskra stjórnvalda verði endurskoðaðar. Þá óska þau jafnframt eftir leiðbeiningum um hvernig þau geti borið sig að vegna umsókna um vegabréfsáritanir í ljósi annmarka umsókna þeirra.

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi eru bókanir fyrir dagsferðir á Íslandi, m.a. um Gullna hringinn og Suðurland, svo og myndband sem sýnir fram á innstæðu á bankareikningi kæranda A.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauki 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu. 

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðunum kærenda er merkt í reiti 10 og 11 vegna synjunar á umsóknum þeirra, þ.e. að upplýsingar um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar hafi ekki verið áreiðanlegar svo og að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa áreiðanleika yfirlýsinga varðandi ætlun um ferð til Íslands. Uppfylltu kærendur þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kærendum jafnframt leiðbeint um að þau gætu óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvarðana kærenda.          

Meðferð umsókna kærenda fór fram hjá utanríkisþjónustunni en þær voru lagðar fram í íslenska sendiráðinu í London, sbr. viðauka 10 við reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. og 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar eru mál lögð fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar vegna mála kærenda þar sem málsmeðferð umsókna þeirra hjá utanríkisþjónustunni er rakin. Fram kemur í málaskrám að þeim hafi báðum verið synjað um vegabréfsáritun af eistneskum stjórnvöldum fyrr á þessu ári. Þá hafi fulltrúi utanríkisþjónustunnar tekið símaviðtöl við þau bæði, en endurrit viðtalanna, hvort tveggja dags. 11. september 2023, eru meðal gagna málsins. Í viðtölunum hafi kærendur fyrst neitað því að hafa sótt um vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið áður og því ekki gefið upp að hafa verið synjað. Þá breytti kærandi B framburði sínum hvað það varðar, og játar að hafa verið synjað um vegabréfsáritun í júní 2023. Kærandi A hafi hins vegar staðfastlega haldið því fram að hafa ekki sótt um vegabréfsáritun áður. Þá er sérstaklega tekið fram í endurriti vegna kæranda B að hún hafi verið mjög taugaóstyrk, og hafi sett hljóðnema sinn á þögn eftir hverja spurningu. Þar að auki kemur fram í málaskrá Útlendingastofnunar að ekki hafi tekist að sannreyna allar flugbókanir þeirra, n.t.t. fyrir tvö flug af fjórum. Taldi fulltrúi utanríkisþjónustunnar að val kærenda á áfangastöðum væri ekki stutt knýjandi rökum umfram það að þau hafi talið áfangastaðina fallega, og veðurfar ekki of kalt. Að mati fulltrúa utanríkisþjónustunnar væri mjög líklegt að kærendur væru að stunda svokallað áritanasnap, eða „visa shopping“ á ensku og taldi ólíklegt að þau myndu ferðast til Íslands. Lagði fulltrúi utanríkisþjónustunnar því til að þeim yrði synjað um vegabréfsáritanir.

Að mati kærunefndar eru framlögð gögn og þær málsástæður sem kærendur byggja á ekki þess eðlis að ástæða sé til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á umsókn þeirra um vegabréfsáritun. Við mat á því hefur kærunefnd m.a. litið til fyrrgreindra símaviðtala við kærendur. Þá hefur kærunefnd undir höndum upplýsingar úr upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir, sbr. til hliðsjónar 9. mgr. 20. gr. laga um útlendinga og reglugerð um íslenskan hluta upplýsingakerfis (N-VIS) um vegabréfsáritanir nr. 1275/2021. Þar kemur fram að kærendur hafi lagt fram umsóknir, dags. 15. og 16. júní 2023, um vegabréfsáritanir til Eistlands fyrir sex daga dvöl á tímabilinu 25. til 30. ágúst 2023, en umsóknum þeirra verið synjað með ákvörðunum, dags. 26. júní 2023. Umsóknir kærenda sem nú eru til meðferðar voru lagðar fram tæpum þremur mánuðum síðar, vegna ferðar til Íslands og Sviss. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur vissu, eða máttu vita, að þau væru ekki í góðri trú þegar framangreind svör voru gefin í símaviðtölum við fulltrúa utanríkisþjónustunnar. Enn fremur bendir skammur tími og ólíkar ferðaáætlanir til þess að vilji kæranda standi frekar til þess að fá útgefna vegabréfsáritun heldur en endilega að ferðast til Íslands. Í ljósi framangreinds þá tekur kærunefnd undir mat utanríkisþjónustunnar og Útlendingastofnunar að líklegt sé að um svokallað áritanasnap sé að ræða, þ.e. að rökstudd ástæða sé til að yfirlýsingar um ætlun til að ferðast til Íslands séu óáreiðanlegar. Þar að auki tókst ekki að sannreyna hluta af flugbókunum kæranda, þ.m.t. flugferð þeirra til Íslands, og hefur þeirri skýringu ekki verið hrundið á kærustigi. 

Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að upplýsingar kærenda um tilgang og skilyrði dvalar voru ekki áreiðanlegar, auk þess sem rökstudd ástæða er til að draga í efa að yfirlýsingar varðandi ætlanir um að ferðast til Íslands séu áreiðanlegar. Um framangreint vísast til ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi því verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kærenda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verða hinar kærðu ákvarðanir um að synja kærendum um vegabréfsáritun til landsins því staðfestar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration in the appellants cases are affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta