Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 710/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 710/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23090010 og KNU23090011

 

Kæra [...],

[...] og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 1. september 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðunum Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir K), og [...], fd. 29. nóvember 1992, ríkisborgari Venesúela (hér eftir M) og barna þeirra [...], fd. [...] (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgarar Venesúela, um alþjóðlega vernd og brottvísa þeim frá landinu. Var kærendum gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi, aðallega með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en til vara með vísan til 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

II.      Málsmeðferð

M lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 11. mars 2023 ásamt A. Þá lagði K fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 16. apríl 2023 ásamt B. K lagði fram dvalarleyfisskírteini útgefið af perúskum stjórnvöldum með gildistíma frá 14. mars 2022 til 14. mars 2026. M greindi frá því að hafa flutt til Perú árið 2018, en kvaðst ekki hafa gilt dvalarleyfi þar í landi lengur. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun 8. júní 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 1. september 2023 að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að þeim skyldi brottvísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum sama dag og barst kærunefnd greinargerð kærenda 18. október 2023 ásamt fylgiskjölum.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur hafi heimild til dvalar í Perú. Umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Perú ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var brottvísað frá landinu, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærendum var ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. laga um útlendinga. Var skorað á kærendur að yfirgefa landið án tafar og athygli þeirra vakin á því að yfirgæfi þau landið sjálfviljug yrði endurkomubannið fellt niður.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Perú.

IV.      Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau telji að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant hjá Útlendingastofnun sem skuli leiða til ógildingar fyrirliggjandi ákvarðana. Þegar kærendur hafi mætt í viðtal hjá Útlendingastofnun hafi mál þeirra verið rannsakað eins og um efnismeðferðarmál væri að ræða. Þannig hafi kærendur ekki verið spurð að því hvort sérstakar ástæður væru fyrir hendi eða hvort þau hefðu sérstök tengsl við Ísland í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafi því ekki vitað að mál þeirra hafi ekki fengið efnismeðferð og ekki verið upplýst um það. Kærendur telji það brjóta gegn andmælarétti þeirra og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 10. og 13. gr. sömu laga. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar komi fram að stofnunin hafi sent tölvubréf á fyrrum talsmann kærenda 24. ágúst 2023 og tilkynnt honum að stofnunin myndi leysa úr máli kærenda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ekki verði séð af gögnum málsins að fyrrum talsmaður hafi svarað þeim pósti né hafi hann tilkynnt kærendum um þá ákvörðun Útlendingastofnunar en kærendur hafi ekki heyrt í talsmanninum aftur eftir viðtalið. Kærendur vísa til þess að sú skylda hvíli á Útlendingastofnun að rannsaka málið til hlítar áður en ákvörðun sé tekin. Þannig hefði Útlendingastofnun átt að boða kærendur í annað viðtal og upplýsa þau um að úr málinu yrði leyst á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og gefa þeim kost á að andmæla þeirri ákvörðun og koma á framfæri málsástæðum um að mál þeirra skuli tekið til efnismeðferðar. Ekki sé byggt á slíkum málsástæðum í greinargerð þeirra hjá Útlendingastofnun. Þá vísa kærendur til 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga en þar komi fram að viðtal við umsækjenda um alþjóðlega vernd skuli hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem haft geti þýðingu fyrir umsókn upplýsist. Kærendur hafi því átt að fá þann möguleika að upplýsa Útlendingastofnun um það hvort þau teldu sérstakar ástæður vera fyrir hendi eða sérstök tengsl við Ísland í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að um verulegan annmarka sér að ræða sem skuli leiða til ógildingar ákvarðananna. Þá vísa kærendur til úrskurða kærunefndar í málum nr. 223/2022, nr. 449/2022 og nr. 413/2023.

Kærendur byggja á því að óheimilt sé að vísa þeim til Perú þar sem engin skýr lagaheimild eða gildandi alþjóðlegir samningar séu á milli ríkjanna. Þá hafi ekki borist svar frá stjórnvöldum í Perú þess efnis að kærendum verði veitt viðtaka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en Perú sé ekki aðili Dyflinnarsamstarfsins. Þá sé Perú ekki heimaríki kærenda né griðland. Þá byggja kærendur á því að dvalarleyfi þeirra séu fallin úr gildi og vísa til framlagðra gagna því til staðfestingar. Jafnframt hafi kærendur ekki fengið virka alþjóðlega vernd í öðru ríki. Samkvæmt frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga sé íslenskum stjórnvöldum óheimilt að hafna því að taka umsóknir þeirra til efnismeðferðar.

Kærendur vísa til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærendur telja að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli þeirra enda muni endursending þeirra til Perú reynast þeim þungbær, en þau hafi ekki dvalarleyfi í gildi þar í landi. Kærendur telji það ekki eðlilegt eða sanngjarnt að vera send til Perú þar sem þau hafi orðið fyrir ofsóknum af hendi heimamanna. Kærendur séu ekki með skráð lögheimili í Perú og komi til með að fá takmarkaða heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þá séu kærendur með tvö ung börn á framfæri en þau séu ekki með öruggt húsnæði í Perú. Kærendur hafi upplifað mismunun á grundvelli þjóðernis í Perú sem hafi reynst börnum þeirra afar þungbært. Kærendur telja því að skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í málinu og krefjast þess að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar enda séu þau í verri stöðu en aðrir til að sækja sér réttindi sín, framfleyta sér og börnum sínum og verða sér út um húsnæði, og þar með tryggja grunnþarfir barna sinna. Kærendur telja það ekki vera í samræmi við öryggi, velferð og þroska barna sinna að fara aftur til Perú þar sem óvissa sé með tryggja framfærslu, húsnæði og aðgang að grunnþjónustu. Þá vísa kærendur til grundvallarreglunnar um bann við endursendingu (non-refoulement). Kærendur telja sig vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og vísa jafnframt til 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Viðkvæm staða kærenda og barna þeirra skuli hafa vægi við mat á því hvort sérstakar ástæður séu uppi í málinu.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kærenda og barna þeirra

Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur par á [...]sem komu hingað til lands ásamt tveimur börnum sínum sem eru [...] og [...]ára. Kærendur greindu frá því að hafa yfirgefið heimaríki árið 2018 og farið til Perú þar sem þau hafi dvalið í fjögur ár. Þá lagði K fram dvalarleyfisskírteini útgefið af perúskum stjórnvöldum með gildistíma til 14. mars 2026. Samkvæmt framburði kærenda hafi þau yfirgefið Perú og flutt aftur til heimaríkis og dvalið þar í um 6 mánuði, áður en þau komu hingað til lands og lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd dagana 11. mars og 16. apríl 2023. Kærendur greindu frá því að hafa afturkallað dvalarleyfi sín í Perú. Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi upplifað mismunun á grundvelli þjóðernis síns í Perú. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M m.a. frá því að glíma við höfuðverk og að hann heyri suð auk þess sem hann eigi erfitt með að hlusta og heyra. K greindi frá því að líkamleg og andleg heilsa sín væri góð en vegna aðstæðna sinna upplifi hún sig óörugga. Þá greindu kærendur frá því að börn sín væru við góða heilsu.

Reglur stjórnsýsluréttar

Af lestri gagna málanna má sjá að mál kærenda hafi upphaflega verið afgreidd af Útlendingastofnun sem efnismeðferðarmál og viðtöl tekin við kærendur í samræmi við það. Í tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 24. ágúst 2023, til kærenda var þeim greint frá því að mál M og A færu í málsfarveg samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem þeir hefðu sótt um alþjóðlega vernd fyrir gildistöku laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga. Þá færu mál K og B í málsfarveg samkvæmt d-lið 1. mgr. 36. gr. laganna þar sem fyrrgreind breytingarlög hefðu tekið gildi áður en umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd voru lagðar fram. Þá taldi stofnunin ekki þörf á öðru viðtali við kærendur þar sem nægjanlegar upplýsingar lægju þegar fyrir í málunum.

Kærunefnd leggur áherslu á að viðtöl við umsækjendur eru ein mikilvægasta aðgerð stjórnvalda við rannsókn umsókna um alþjóðlega vernd. Kröfur til viðtala verður að meta með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og geta því verið misjafnar eftir því á hvaða atvik reynir hverju sinni. Í 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga kemur fram að viðtali skuli hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geti haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í því máli sem hér er til umfjöllunar fóru fram efnisviðtöl við kærendur þar sem þau voru fyrst og fremst spurð út í aðstæður sínar í heimaríki. Liggur því fyrir að kærendur hafi ekki verið spurð út í aðstæður sínar í Perú, s.s. aðgang þeirra að þjónustu, húsnæði og atvinnu þar í landi. Þá er ekki að sjá af gögnum málsins að kærendum hafi verið veitt færi á að koma á framfæri athugasemdum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga þegar Útlendingastofnun hafi tilkynnt þeim með tölvubréfi, dags. 24. ágúst 2023, að um mál M og A færi samkvæmt þágildandi a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mál K og B færi samkvæmt nýjum d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. breytingarlög nr. 14/2023 sem tóku gildi 6. apríl 2023, en þá höfðu kærendur þegar skilað inn greinargerð til stofnunarinnar. Samkvæmt frásögn kærenda fóru þau til Perú árið 2018 og dvöldu þar í fjögur ár. Þá hafi kærendur snúið aftur til heimaríkis og dvalið þar í um hálft ár þar til þau lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. K hefur lagt fram dvalarleyfisskírteini útgefið af stjórnvöldum í Perú með gildistíma til 14. mars 2026. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heimild M til dvalar í Perú umfram það sem fram kemur í viðtali hans hjá Útlendingastofnun.

Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar og yfirferð gagna málsins er það mat kærunefndar að eins og á háttar í þessu máli hafi ekki verið nægjanlega upplýst um atvik máls til þess að unnt væri að taka afstöðu til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda. Þá skorti upplýsingar um stöðu M í Perú og heimild hans til dvalar þar í landi. Kærunefnd telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi þar sem skort hafi á að upplýsa um atriði sem haft gætu áhrif á matið. Er því óhjákvæmilegt að vísa málunum aftur til nýrrar meðferðar.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kærenda. Kærunefnd telur jafnframt ekki unnt að bæta úr framangreindum annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kærenda og barna þeirra hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kærenda.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til meðferðar á ný.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta