Álit, að því er tekur til hvort fyrirliggjandi tillögur Reykjavíkurborgar um sameiningu leikskóla og leikskóla/grunnskóla samræmist tilgangi laga um leikskóla nr. 90/2008
Vísað er til erindis, dags. 21. mars 2011 þar sem lögð er fram fyrirspurn um hvort fyrirliggjandi tillögur Reykjavíkurborgar um sameiningu leikskóla og leikskóla/grunnskóla samræmist tilgangi laga um leikskóla nr. 90/2008. Sérstaklega er spurt um hvort fyrirhuguð sameining stofnana Reykjavíkurborgar samræmist tilgangi 28. gr. laganna.
Til svars ofangreindu erindi vísar ráðuneytið til svars til borgarstjórans í Reykjavík, dags. 28. mars 2011 við innkomnu erindi, dags. 4. mars 2011 þar sem óskað var eftir áliti ráðuneytisins á lögmæti breytinga sem fólust í tillögum starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, annars vegar hvað varðar lögin sjálf og hins vegar hvort tillögurnar samræmast anda laganna. Afrit af bréfi því sem vísað er til fylgir hér með.
Meginatriðin í svari ráðuneytisins voru þau að tillögurnar stangast ekki á við lög eða anda þeirra þó að heimild til samrekstrar leik- og grunnskóla hafi upphaflega verið hugsuð fyrst og fremst fyrir fámenn sveitarfélög. Ráðuneytið taldi einnig æskilegt í ljósi þess hversu umfangsmiklar tillögurnar um breytingar voru að innleiða þær í ákveðnum skrefum á lengri tíma. Vísað var til faglegra leiðbeininga Ríkisendurskoðunar um sameiningu stofnana frá 19. mars 2010 og einnig var bent á að ákveði Reykjavíkurborg þrátt fyrir varnaðarorð ráðuneytisins að hrinda tillögunum í framkvæmd þyrfti að hafa tiltekin atriði varðandi vellíðan og öryggi barna og ungmenna að leiðarljósi.
Í erindi yðar er einnig spurt hvort sameining leik og/eða leikskóla og grunnskóla með það að markmiði að fækka stjórnendum samræmist markmiðum laganna og er í þeim efnum sérstaklega vísað til 5. gr. laga um leikskóla.
Ráðuneytið tekur undir það sjónarmið sem sett er fram í erindinu að gildandi lög um leikskóla fela í sér skýrari framsetningu en var í eldri lögum er lýtur að stjórnskipan leikskóla. Ráðuneytið telur hins vegar að það feli ekki í sér að mun ríkari kröfur séu gerðar til ábyrgðar og skyldu leikskólastjóra gagnvart stofnun sinni og þeirri starfsemi sem fram fer innan hennar í gildandi lögum samborið við eldri lög þó vissulega megi segja að almennt geri skólalöggjöfin frá 2008 ríkari kröfur til skóla, skólastjórnenda, kennara og sveitarfélaga eða annarra rekstraraðila leik- og grunnskóla.
Það er mat ráðuneytisins að hagræðingaraðgerðir Reykjavíkurborgar sem leiða til fækkunar stjórnenda stangist ekki á við 5. gr. leikskólalaga. Ráðuneytið vill hins vegar draga fram að í svari sem sent var Reykjavíkurborg var lögð áhersla á að mikilvægt væri að horfa til þess hvaða áhrif breytingar sem þessar hefðu á hagsmunaaðila í skólasamfélaginu og að vega og meta yrði hvort og þá hvaða þörf væri á sérstökum undirbúningi, aðgerðum eða stuðningi við innleiðingu breytinganna. Sérstaklega var dregið fram að ráðuneytið hefði ákveðnar áhyggjur af hugsanlegum áhrifum breytinganna á starfssvið leikskólastjórnenda sem taka munu við mun fjölmennari skólum en þeir hafi hingað til verið með og sem í sumum tilvikum starfa eftir ólíkri hugmyndafræði og skipulagi.
Í tengslum við innleiðingu þessara breytinga hefur Reykjavíkurborg mótað ákveðnar verklagsreglur þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum stuðningi og ráðgjöf við leikskólastjóra sem taka við sameinuðum leikskólum. Einnig er gert ráð fyrir að settir verði upp stýrihópar sem fái það hlutverk að innleiða sameiningar og stefnumörkun í samstarfi við foreldra og starfsfólk hinna sameinuðu skóla. Ráðuneytið telur að verði faglega vel staðið að framkvæmd þessara stuðningsaðgerða þá verði dregið úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum þessara breytinga á skólastarf og starfssvið skólastjórnenda.