Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Könnun á matarúthlutunum hjálparsamtaka

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði meðal fólks sem leitar til hjálparsamtaka eftir matarúthlutunum. Könnunin var gerð að beiðni velferðarráðuneytisins og var markmiðið að afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem leita þessarar hjálpar og fá mynd af lýðfræðilegri samsetningu hópsins. Í könnuninni var rætt við fólk sem leitaði til Fjölskylduhjálpar Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar eftir matarúthlutun 24. nóvember síðastliðinn. Mæðrastyrksnefnd lagðist gegn því að Félagsvísindastofnun legði spurningalista fyrir þá sem þangað leituðu. Því var ekki rætt við það fólk en talinn fjöldi karla og kvenna sem þangað leitaði umræddan dag og áætlað um aldur þeirra. 

Hlutfall svarenda hjá Fjölskylduhjálpinni og Hjálparstarfi kirkjunnar var 72–74% en aðrir neituðu að svara. Spurt var um kyn, aldur, ríkisfang, búsetu, hjúskaparstöðu, barnafjölda og fjölda í heimili, búsetuform, menntun, stöðu á vinnumarkaði, tekjur, bætur og lífeyri. Einnig var spurt um helstu ástæðu þess að viðkomandi leitaði til hjálparsamtaka og hvort hann ætlaði að leita til fleiri hjálparsamtaka þennan dag.

Helstu niðurstöður voru þessar:

  • Ætla má að hjálparsamtökin þrjú hafi úthlutað mat til rúmlega 1.000 einstaklinga þann 24. nóvember 2010. Af þeim eru einhverjir tví- eða þrítaldir því hluti fólksins kvaðst leita á fleiri en einn stað. Því má áætla að um 800 einstaklingar hafi fengið matarúthlutun umræddan dag.
  • Mun fleiri konur en karlar leituðu sér aðstoðar, eða rúm 57% á móti rúmum 42% karla. Hópurinn sem leitaði sér aðstoðar var á breiðu aldursbili, en um níu af hverjum tíu voru á aldrinum 20–60 ára. Flestir voru á aldrinum 30–50 ára.
  • Um 82% þeirra sem leituðu sér aðstoðar voru annaðhvort atvinnulausir (44%) eða öryrkjar (38%). Um 7% hópsins voru í launaðri vinnu og um 4% á eftirlaunum.
  • Ríflega tveir af hverjum fimm svarendum sögðust hafa haft undir 150.000 krónur í heildartekjur fyrir skatt, mánuðinn fyrir könnunina, um þriðjungur á bilinu 150.000–199.000 krónur en tæpur fjórðungur 200.000 krónur eða meira í heildartekjur í liðnum mánuði.
  • Um þrír af hverjum fjórum sem rætt var við bjó í leiguhúsnæði. Helmingur þeirra leigði á almennum markaði (49%) og um fjórðungur í félagslega húsnæðiskerfinu eða í íbúð á vegum Öryrkjabandalagsins. Um fimmtungur bjó í eigin húsnæði (19%).
  • Flestir sem fengu matarúthlutun þennan dag voru einstæðir foreldrar (29%) og fólk sem bjó eitt (24%), en um 23% búa með maka og börnum. Að baki þeim sem leituðu mataraðstoðar hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands þennan dag voru um eða yfir 300 börn yngri en 18 ára. Að því gefnu að bakgrunnur þeirra sem leita til Mæðrastyrksnefndar sé svipaður má gera ráð fyrir að heildarfjöldi barna sem aðstoðin náði til umræddan dag sé allt að 800.
  • Um þriðjungur hópsins sem rætt var við var með erlent ríkisfang og af þeim voru þrír af hverjum fjórum pólskir.
  • Um 47% hópsins höfðu ekki lokið formlegu námi umfram grunnskóla en um 44% höfðu lokið framhaldsskólanámi. Um 9% svarenda höfðu lokið háskólaprófi.
  • Þegar spurt var um helstu ástæður þess að fólk leitaði til hjálparsamtaka eftir mat nefndu flestir lágar tekjur (72%) en einnig nefndu margir atvinnuleysi (42%), skuldavanda (41%) eða veikindi og heilsuleysi (30%).

Guðbjartur HannessonGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir niðurstöður könnunarinnar sláandi. „Enginn þarf að efast um að fólkið sem leitar þessarar aðstoðar býr við fátækt og er í brýnni þörf fyrir aðstoð. Ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins verða að gera betur til að bæta stöðu þessa hóps og almennar aðgerðir í því skyni eru nauðsynlegar. Hjálparsamtök eiga að vera þrautarlending sem fólk þarf í versta falli að leita til í eitt eða tvö skipti vegna sérstakra aðstæðna en það er ótækt að þau þurfi að vera fastur liður í framfærslu fólks. Nú líður að því að kynntir verða útreikningar og tillögur um framfærsluviðmið og lágmarksviðmið til framfærslu sem ég bind miklar vonir við að muni hjálpa okkur við að rétta stöðu þess hóps sem hefur augljóslega of lítið handa á milli.“

Ráðherra segir einnig nauðsynlegt að finna hjálparstarfinu annað form og skipulag svo fólk þurfi ekki að standa í biðröðum eftir mat. „Margir hafa bent á hve þetta fyrirkomulag er niðurlægjandi og við það bætist að án efa eru ýmsir sem þurfa hjálp en leita hennar ekki eða eru ekki færir um að koma sér á þessa staði, hvað þá að standa í biðröðum vegna heilsufars eða annarra aðstæðna. Ég er viss um að með góðri samvinnu takist að koma þessu í viðunandi horf. Við öll og samfélagið í heild gerir kröfu um að úr þessu verði bætt.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta