Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2010

Fimmtudaginn 29. apríl 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. febrúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 10. febrúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. desember 2009, um útreikning á greiðslum og viðmiðunartímabil útreikningsins

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. febrúar 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi með bréfi frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 1. desember 2010, verið tilkynnt að samkvæmt upplýsingum og gögnum sem lágu fyrir hjá sjóðnum uppfylli hún skilyrði fyrir greiðslum að fjárhæð X kr. á mánuði miðað við 50% orlof. Mat kæranda er að útreikningar Fæðingarorlofssjóðs séu ekki réttir.

Þá greinir kærandi frá því að barn hennar hafi fæðst Y. nóvember 2009 og hún geri ráð fyrir að dreifa fæðingarorlofinu á tólf mánaða tímabil. Mánaðarleg greiðsla nemi 80% af meðaltekjum samkvæmt skrám skattayfirvalda miðað við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Útreikningur á meðaltekjum hennar byggi á tekjutímabilinu frá maí 2008 til apríl 2009 en árið 2008 hafi hún verið í fæðingarorlofi sem hún dreifði á tólf mánaða tímabil. Kærandi hafi því verið með verulega skertar tekjur eða rétt rúmlega 40% af heildarlaunum. Nú séu viðmiðunartekjur til hennar skertar þar sem hún hafi kosið að dreifa fyrra fæðingarorlofi á lengra tímabil en sex mánuði.

Kærandi óskar eftir því að útreikningur verði byggður á viðmiðunartekjum annarra mánaða en þeirra sem hafi verið nýttir til útreikninga í fyrra fæðingarorlofi eða að útreikningur verði byggður á viðmiðunartekjum eins og um sex mánaða fæðingarorlof hafi verið að ræða í fyrra fæðingarorlofi, þ.e. tekjum ekki dreift á tólf mánaða tímabil.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 16. október 2009, sótt um greiðslur úr sjóðnum í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 20. nóvember 2009.

Auk umsóknar kæranda hafi borist vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 31. ágúst 2009, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 25. september 2009, og launaseðlar fyrir ágúst og september 2009. Enn fremur hafi legið fyrir gögn vegna eldri umsóknar kæranda í fæðingarorlofi vegna barns sem fæddist Y. desember 2007 og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 30. október 2009, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr sjóðnum hefði verið samþykkt og mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Þann 1. desember 2009 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun með útreikningum á væntanlegum greiðslum.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eigi foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur sé ekki framseljanlegur. Auk þess eigi foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið geti tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Jafnframt vísar sjóðurinn til þess að í 10. gr. ffl. sé kveðið á um tilhögun fæðingarorlofs. Þar segi í 2. mgr. að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í 9. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að ætli foreldri að haga fæðingarorlofi á þann veg að það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, með samkomulagi við vinnuveitanda, skuli greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem svari til þess starfshlutfalls sem fæðingarorlofið teljist til.

Jafnframt bendir sjóðurinn á að í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr.
a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um sé að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skuli aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemi þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismun þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a.

Þá bendir Fæðingarorlofssjóður á að í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segi að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að fæðingardagur barns kæranda sé Y. nóvember 2009 og því skuli, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar mánuðina frá maí 2008 til apríl 2009 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og a.-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Launalaust leyfi teljist til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. a-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl., og beri að hafa slíkan tíma með við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. in fine.

Jafnframt greinir sjóðurinn frá því að samkvæmt eldri umsóknargögnum hafi kærandi verið í fæðingarorlofi með barni sínu fæddu Y. desember 2007 á hluta viðmiðunartímabils barns hennar sem fæddist Y. nóvember 2009, það er frá maí-desember 2008, og þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili. Á umsókn um greiðslur úr sjóðinum, dags. 29. október 2007, komi fram að kærandi sótti um greiðslur í sex mánuði. Á tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 29. október 2007, sem sé bæði undirrituð af kæranda og vinnuveitanda hennar komi fram að upphaf fæðingarorlofs skuli miðast við fæðingardag barns og að orlofstími sé samfelldur og skuli dreifast á tólf mánuði. Í samræmi við það hafi kæranda verið send greiðsluáætlun, dags. 13. desember 2007. Kærandi hafi þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við það starfshlutfall sem fæðingarorlofið taldist til, það er 50% greiðslur mánuðina maí-nóvember 2008 og 13% greiðslu fyrir desember 2008. Meðalmánaðartekjur sem útreikningur greiðslna með því barni hafi verið byggður á voru X kr. og 80% af þeim séu X kr. Í samræmi við það hafi mánaðargreiðslur vegna 50% fæðingarorlofsins verið X kr. og X kr. vegna 13% fæðingarorlofsins í desember 2008.

Loks greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í maí–nóvember 2008 hafi kærandi verið í 50% fæðingarorlofi með eldra barni og í 13% fæðingarorlofi í desember 2008 og því beri að uppreikna greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á því tímabili miðað við hlutfall af viðmiðunartekjum í samræmi við töku fæðingarorlofs, sbr. 10. gr. ffl., 2. mgr. 13. gr. ffl. og úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í málum nr. 30/2009 og 38/2009. Tímabilið maí–nóvember hafi þannig verið uppreiknað úr X kr. í X kr. og desember úr X kr. í X kr. Kærandi hafi einnig verið með laun frá vinnuveitanda í maí 2008, nóvember 2008 og janúar–apríl 2009 sem höfð hafi verið með við útreikninginn.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 1. desember 2009, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. desember 2009.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismun þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda er fætt Y. nóvember 2009 og því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið maí 2008 til apríl 2009. Óumdeilt er að kærandi var á vinnumarkaði í skilningi ffl. allt viðmiðunartímabilið. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. desember 2007 á viðmiðunartímabilinu, þ.e. frá maí 2008 til desember 2008, og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili. Samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 13. desember 2007 fékk hún 50% greiðslur í fæðingarorlofi mánuðina maí–nóvember 2008 og 13% greiðslu í desember 2008. Meðalmánaðartekjur sem útreikningur greiðslna var byggður á voru X kr. og eru 80% af þeim X kr. Í samræmi við það voru mánaðargreiðslur til kæranda vegna 50% fæðingarorlofs X kr. og vegna 13% fæðingarorlofs X kr.

Í greiðsluáætlun dags. 1. desember 2009 eru greiðslur sem kærandi fékk úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi uppreiknaðar hlutfallslega þannig að greiðsla vegna 50% fæðingarorlofs, X kr., er uppreiknuð í X kr. og greiðsla vegna 13% fæðingarorlofs, X kr., er uppreiknuð í X kr. Krafa kæranda lýtur aftur á móti að því, að við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skuli miða við aðra mánuði en þá sem hún var í fæðingarorlofi með eldra barni eða að útreikningur verði byggður á viðmiðunartekjum eins og um sex mánaða fæðingarorlof með eldra barni hefði verið að ræða en greiðslum hefði ekki verið dreift á tólf mánaða tímabil.

Í 10. gr. ffl. er kveðið á um tilhögun fæðingarorlofs. Þar segir í 2. mgr. að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þegar foreldri hefur þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tólf mánaða tímabili, sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag yngra barns og líta ber til við útreikning á greiðslum úr sjóðnum með yngra barninu, gildir ákvæði 3. málsliðar 2. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt því ákvæði ber að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við.

Það tímabil sem miða skal við þegar greiðslur með yngra barni kæranda eru reiknaðar út er sem fyrr segir tímabilið frá maí 2008 til apríl 2009. Óumdeilt er að kærandi þáði ekki launagreiðslur á tímabilinu frá maí 2008 til og með desember 2008, heldur einungis 50% greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við tilkynningu kæranda um fæðingarorlof, dags. 11. september 2007, þar sem kærandi óskaði eftir að dreifa orlofinu yfir tólf mánaða tímabil án samhliða vinnu í skertu starfshlutfalli.

Í 10. gr. er ekki beinlínis gert ráð fyrir þeirri tilhögun sem kærandi valdi um fyrirkomulag fæðingarorlofs, þ.e. að skipta greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á 12 mánaða tímabil án þess að vera samhliða í vinnu í skertu starfshlutfalli. Sú venja mun hins vegar hafa skapast að Fæðingarorlofssjóður fallist á slíkt fyrirkomulag greiðslna. Ljóst er að í þeim tilvikum að fyrra fæðingarorlof hefur verið tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings, sbr. 2. mgr. 10. gr. ffl., ber að skýra 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. ffl. svo að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu reiknaðar sem hlutfall af viðmiðunartekjum eldra orlofsins þannig að greiðslurnar eru uppreiknaðar í hlutfallinu 100/80. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu þannig uppreiknaðar, að viðbættum launum vegna starfa foreldris, eru síðan grundvöllur útreiknings viðmiðunartekna í þeim tilvikum að foreldri hefur verið í skertu starfshlutfalli samhliða fæðingarorlofi.

Á sama hátt telur nefndin að líta verði svo á að foreldri, sem er í hlutfallslegu fæðingarorlofi án þess að vera samhliða í skertu starfshlutfalli beri sama hlutfall af 80% af viðmiðunartekjunum, og fæðingarorlofshlutfallið segi til um. Sé foreldri þannig í 50% fæðingarorlofi á það að mati nefndarinnar rétt á 50% af 80% af viðmiðunartekjum í fæðingarorlofsgreiðslur með yngra barni, líkt og í tilviki kæranda. Að mati nefndarinnar nýtur þessi túlkun stuðnings í athugasemdum með frumvarpi til 8. gr. laga nr. 74/2008, sem breyttu 2. mgr. 13. gr. ffl. en þar segir m.a.:

„.Enn fremur er gert ráð fyrir að áfram verði miðað við heildarlaun foreldra en þar á meðal verði jafnframt taldar með greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns auk hvers konar launa og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þetta eru greiðslur sem koma til þegar aðstæður þær sem taldar eru upp í a–d-liðum 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins eiga við um foreldra og teljast svara til þátttöku á vinnumarkaði og þar með til ávinnslu fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 13. gr. laganna. Verður því að teljast eðlilegt að þær verði hluti af heildarlaunum foreldra sem lögð eru til grundvallar við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

Að mati úrskurðarnefndarinnar skulu því greiðslur til kæranda miðast við 50% af viðmiðunartekjum hennar vegna fyrra fæðingarorlofs, vegna mánaðanna maí 2008 til desember 2008 í samræmi við 50% fæðingarorlof hennar þá mánuði. Það að greiðslum vegna sex mánaða fæðingarorlofs er dreift á tólf mánaða tímabil í stað 100% greiðslna í sex mánuði getur að mati nefndarinnar ekki leitt til annarrar túlkunar. Þá er engin heimild, hvorki í ffl. né í reglugerð nr. 1218/2008 að líta til annars tímabils en mælt er fyrir um í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. í tilviki kæranda. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. desember 2009, um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta