Opinber framlög til þróunarsamvinnu aldrei hærri
Samkvæmt nýbirtum gögnum OECD um opinber framlög til þróunarsamvinnu árið 2016 námu þau 145 milljörðum bandarískra dala og hafa aldrei verið hærri. Hækkunin milli ára var 10,7%.
Að meðaltali voru framlögin 0,32% af þjóðartekjum þeirra 29 þjóða sem eru meðlimir í DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD. Framlögin námu 0,30% árið 2015.
Í frétt OECD kemur fram að innanlandskostnaður vegna flóttafólks hafi árið 2016 verið 16 milljarðar bandarískra dala. Að þessum kostnaði frátöldum hækkuðu framlög til þróunarsamvinnu engu að síður um 8,6% milli ára.
Fátækustu þjóðirnar fengu 43,1 milljarð dala í sinn hlut, hækkun um 0,5%, en hins vegar dró úr fjárhagsstuðningi við þjóðirnar sunnan Sahara í Afríku um 1,5%.
Sex þjóðir voru yfir 0,7% viðmiðunarmörkum Sameinuðu þjóðanna um framlög til þróunarsamvinnu, Danir, Þjóðverjar, Lúxemborgarar, Norðmenn, Svíar og Bretar.
Sjá nánar frétt OECD