Hoppa yfir valmynd
31. mars 2006 Forsætisráðuneytið

A-226/2006 Úrskurður frá 14. mars 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. mars 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-226/2006:

Kæruefni

Með bréfi, dags. 24. nóvember s.l., kærði [...], synjun utanríkisráðuneytisins um aðgang að upplýsingum er varða vopnakaup íslenskra stjórnvalda vegna rekstrar íslensku friðargæslunnar.
Með bréfi, dags. 29. nóvember s.l., var utanríkisráðuneytinu gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og láta í nefndinni í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum. Í svari utanríkisráðuneytisins, dags. 14. desember 2005, segir að ekki hafi verið keypt nein vopn vegna friðargæslunnar og því sé ekki hægt að verða við beiðninni.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir utanríkisráðuneytisins. Þrátt fyrir ítrekanir hefur kærandi ekki sent nefndinni frekari rökstuðning fyrir kæru sinni. Er málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 28. september s.l., óskaði kærandi eftir því með vísan til II. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996 að fá aðgang að öllum skjölum og gögnum í vörslu ráðuneytisins er varða vopnakaup á vegum íslenskra stjórnvalda í tengslum við rekstur íslensku friðargæslunnar.
Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 27. október s.l., er beiðninni synjað enda sé hér um að ræða upplýsingar um hagsmuni sem varðir séu af 1. tölul. 6. gr. laga nr. 50/1996.
Kærandi skaut synjun þessari til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. nóvember, eins og áður segir. Vísar hann til þess að í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga segi meðal annars um 1. tl. 6. gr. að eingöngu sé vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengjast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Þá segir kærandi að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingar um vopnakaup íslenskra stjórnvalda vegna friðargæslu skapi hættu gegn íslenskum hagsmunum, varði almannahagsmuni né varði sérstaklega öryggi ríkisins eða varnarmál. Íslenska friðargæslan hafi ekki heimild til þess að stunda störf sem varði öryggi ríkisins né störf sem flokkist undir varnarmál. Málefni hennar geti því aldrei varðað öryggi ríkisins né varnarmál.
Í athugasemdum utanríkisráðuneytisins við kæruna, dags. 14. desember, kemur fram að ekki hafi verið keypt nein vopn til íslensku friðargæslunnar. Eftir atvikum hafi hins vegar verið leigð vopn frá Norðmönnum. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að verða við beiðni kæranda. Þar að auki telji ráðuneytið að fyrirspurnin varði hagsmuni sem falli undir 1. tl. 6. gr. laga nr. 50/1996.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fór fram á aðgang að öllum skjölum og gögnum í vörslu utanríkisráðuneytisins er vörðuðu vopnakaup á vegum íslenskra stjórnvalda í tengslum við rekstur íslensku friðargæslunnar. Þótt það hafi ekki komið fram í synjun utanríkisráðuneytisins í upphafi heldur í athugasemdum þess til úrskurðarnefndarinnar, þá liggur fyrir að engin vopn hafa verið keypt til friðargæslunnar. Þar sem þau gögn eru ekki til sem óskað var aðgangs að ber að vísa kærunni frá. Áréttað skal að í máli þessu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort gögn um leigu vopna til friðargæslunnar falli undir 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur utanríkisráðuneytinu er vísað frá.

 

Páll Hreinsson
formaður

Símon Sigvaldason         Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta