Fréttapistill vikunnar 3. - 9. maí 2003
Fréttapistill vikunnar
3. - 9. maí 2003
Möguleikar öryrkja til atvinnuþátttöku verði auknir - margvísleg sérstaða ungra öryrkja viðurkennd
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað starfshóp til að gera tillögur að breytingum á ákvæðum laga um almannatryggingar og jafnframt að leggja fram tillögur sem miða að því að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku. Starfshópurinn er skipaður í framhaldi af samkomulagi við Öryrkjabandalag Íslands frá í mars sl. um hækkun grunnlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann skal miða störf sín við samkomulagið sem felur í sér að stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og að starfsendurhæfing öryrkja verði efld. Starfshópnum er ætlað að skila tillögum sínum til ráðherra í byrjun október 2003.
STARFSHÓPURINN...
Norrænt gæðastarf í heilbrigðisþjónustunni
Gæðastarfi á norrænum heilbrigðisvettvangi verður fram haldið. Marmiðið er að tryggja borgurum Norðurlandanna aðgengilegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustuna og að gefa þeim kost á að bera þjónustuna saman innan og milli landa. Þetta er megin niðurstaða norrænnar skýrslu um málið sem var að koma út. Starfshópurinn sem hefur unnið að því að meta gæði og árangur heilbrigðisþjónustu hefur haft það sem megin verkefni að benda á möguleika og leiðir til meta þessa þætti þannig að unnt sé að bregða sömu mælistikunni á heilbrigðisþjónustu Norðurlandanna. Niðurstöður starfshópsins er að finna í bæklingi um Gæðamat í heilbrigðisþjónustunni.
BÆKLINGURINN... (pdf. skjal)
Verktaki mun annast rekstur biðdeildar fyrir aldraða við LSH í sumar
Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hefur gert samning við Hörpu - hjúkrun sf. um að taka að sér sem verktaki rekstur biðdeildar fyrir aldraða til 31. ágúst í sumar. Biðdeildin verður til húsa í Landspítala Fossvogi, deild B-5. Deildin rúmar 22 aldraða einstaklinga og er ætluð þeimi sem teljast hafa lokið meðferð á deildum LSH, eru með fullgilt vistunarmat vegna umsóknar á hjúkrunarheimili en bíða eftir að komast að. Nú er unnið að breytingum og endurbótum á Vífilsstöðum vegna 50 rýma hjúkrunarheimilis sem þar er verið að koma á fót og verður tekið í notkun þegar húsnæðið er tilbúið. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í vikunni samning við forsvarsmenn Sjómannadagsráðs um rekstur heimilisins. Við sama tækifæri var endurnýjaður rúmlega ársgamall samningur við Sjómannadagsráð um rekstur 37 hjúkrunarrýma í Víðinesi.
Fagleg og fjárhagsleg rök mæla með því að stofnfrumumeðferð fari alfarið fram hér á landi
Kynnt var í vikunni ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um að heimila forstjórum Tryggingastofnunar ríkisins og Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) að gera samning um að hefja nýrnaígræðslu og stofnfrumumeðferð við spítalann. Um er að ræða tilraunasamning til nokkurra ára sem felur í sér nýrnaígræðslu frá lifandi gjöfum annars vegar og hins vegar s.k. eigin stofnfrumuígræðsla sem beitt er í meðferð við tilteknum krabbameinum. Í samantekt Vilhelmínu Haraldsdóttur, sviðsstjóra á lyflækningasviði II við LSH um stofnfrumumeðferð kemur fram að æ stærri hluti undirbúnings og eftirmeðferðar hafi flust hingað til lands í hendur íslenskra lækna og hjúkrunarfræðinga. Sjúklingar hafi þó fram að þessu þurft að fara tvær ferðir út vegna meðferðarinnar. Vilhelmína segir að undirbúningsvinna hafi leitt í ljós "fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að gefa þessa meðferð alfarið hér á landi svo ekki sé minnst á hve sú breyting mun létta sjúklingum og aðstandendum þeirra baráttuna gegn þessum erfiðu sjúkdómum". Á heimasíðu LSH má lesa greinargerð Vilhelmínu um stofnfrumumeðferð og einnig greinargerð Runólfs Pálssonar læknis á lyflækningasviði I um nýrnaígræðslu.
Alþjóðlegur dagur hreyfingar 10. maí
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ákveðið að 10. maí ár hvert verði helgaður hreyfingu undir slagorðinu Hreyfðu þig - heilsunnar vegna. Stofnunin hvetur aðildarþjóðirnar til að halda upp á daginn með því að vekja athygli á hreyfingu sem undirstöðu undir heilsu og vellíðan og hvetja alla, unga sem aldna, til að hreyfa sig reglulega.
NÁNAR...
Ný heilsugæslustöð í Salahverfi verður tekin í notkun í haust
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmenn fyrirtækisins Salus ehf. undirrituðu í vikunni samning um rekstur nýrrar heilugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Þetta er í fyrsta skipti sem rekstur af þessu tagi er boðinn út hér á landi. Tilboð Salusar efh. hljóðaði upp á 610 milljónir króna sem er um 130 milljónum króna undir efri mörkuð kostnaðaráætlunar. Þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar nær yfir Linda- og Salahverfi ásamt Vatnsendahverfum. Fjöldi íbúa á svæðinu er um 4.200 en gert er ráð fyrir að íbúarnir verði um 11.000 innan tíu ára. Gert er ráð fyrir að nýja heilsugæslustöðin verði tekin í notkun í haust.
NÁNAR...
9. maí 2003