Hoppa yfir valmynd
13. júní 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 7. - 13. júní 2003

Fréttapistill vikunnar
7. - 13. júní 2003


Nýtt fólk í tryggingaráð

Alþingi hefur kosið í tryggingaráð líkt og gert er á fyrsta þingi eftir almennar þingkosningar, samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993. Formaður tryggingaráðs er Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður. Varaformaður er Margrét S. Einarsdóttir, forstöðumaður. Aðrir ráðsmenn eru Karl V. Matthíasson, fyrrv. alþingismaður, Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrv. alþingismaður og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur. Hlutverk tryggingaráðs er að hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Endurskoðunardeild skal starfa við stofnunina undir eftirliti tryggingaráðs.
TRYGGINGARÁÐ...

Gera þarf átak í upplýsingamálum heilbrigðisþjónustunnar hér á landi til að halda í við nágrannaþjóðirnar
Rafræn samskipti fara ört vaxandi innan heilbrigðisþjónustunnar. Á Norðurlöndunum er unnið að því að koma á samræmdri fjarskipta og samskiptaþjónustu í heibrigðisþjónustu hvers lands fyrir sig. Þetta kom meðal annars fram á fundi þeirra sem vinna að uppbyggingu og rekstri heilbrigðisneta á Norðurlöndunum sem nýlega var haldinn hér á landi. Svíar eru lengst komnir í þessum efnum og hafa rekið heilbrigðisnet sem nær til alls landsins frá 1. janúar 2003. Samskiptaleiðir heilbrigðisnetanna taka allar mið af þeim fjarskiptum og samskiptaþjónustu sem er í boði í dag og uppfylla tilgreindar öryggiskröfur. Kostnaður við fjárfestingar og rekstur heilbrigðisnetanna er því mun minni en gert var ráð fyrir nokkrum árum þegar jafnvel var talið að leggja þyrfti sérstakan ljósleiðara fyrir heilbrigðisþjónustuna. Í tengslum við fundinn var nokkrum forsvarsmönnum í heilbrigðisþjónustunni boðið til kynningar á starfsemi heilbrigðisneta í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Það var samdóma álit þeirra sem sóttu kynningarfundinn að sérstakt átak þurfi að gera í upplýsingamálum heilbrigðisþjónustunnar hér á landi ef við eigum ekki að dragast aftur úr frændþjóðum okkar á Norðurlöndum. Þess skal getið að nú er unnið að áætlun um næsta áfanga Íslenska heilbrigðisnetsins og nær hún til tímabilsins 2004 – 2006.

Nefnd um rafræna sjúkraskrá á LSH
Sett hefur verið á fót nefnd til að skipuleggja og stjórna gerð rafrænnar sjúkraskrár á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH), að ákvörðun framkvæmdastjórnar sjúkrahússins. Nefndinni er ætlað að skoða núverandi stöðu sjúkraskrármála á LSH, einkum með tilliti til notkunar SÖGU-kerfisins við rafræna skráningu heilsufarsupplýsinga, framtíðarstöðu og tengingu þess við önnur kerfi. Einnig hvernig tryggja megi að þær heilsufarsupplýsingar sem nú eru geymdar með rafrænum hætti, glatist ekki heldur verði hluti af framtíðarsjúkraskrá spítalans. Nefndin starfar samkvæmt erindisbréfi.
ERINDISBRÉFIÐ...

Endurskoðaðar og auknar leiðbeiningar LSH til heilbrigðisstarfsfólks um viðbrögð við bráðalungnabólgu
Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hefur endurskoðað og aukið leiðbeiningar um rétt vinnubrögð vegna sjúklinga sem grunur leikur á að hafi smitast af heilkennum alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL). Upplýsingarnar eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki og eru aðgengilegar á upplýsingavef sýkingavarnadeildar LSH.
LEIÐBEININGARNAR...

WHO telur bráðalungnabólgufaraldurinn á undanhaldi
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO), lýsti því yfir í gær að fækkun sjúkdómstilfella HABL um allan heim benti til þess að faraldurinn væri á undanhaldi. Talið er að útbreiðsla sjúkdómsins hafi verið heft í Kína en svo er hins vegar ekki í Taívan. Samkvæmt opinberum tölum hafa um 800 manns látið lífið úr sjúkdómnum í heiminum.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
13. júní 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta