Ríkidæmi tungumálanna: Alþjóðadagur tungumála í Fellaskóla
„Það er bæði auðlind og áskorun fyrir skólasamfélag að þar séu töluð mörg tungumál. Tungumál eru fjársjóðir, þau opna okkur skilning á menningu þjóða og veita okkur aðgengi að nýjum heimum, sögum og tækifærum. Í skólanum lærum við ekki aðeins af bókum og kennurum – við lærum líka hvert af öðru. Sjálf á ég góðar minningar héðan úr Fellaskóla og margt af því sem ég lærði hér nýtist mér á hverjum degi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.
Á viðburðinum var einnig kynntur afrakstur vinnu Halldórs Ásgeirssonar myndlistarmanns, nemenda skólans og Gretu Guðmundsdóttur myndmenntakennara en í sameiningu hafa þau unnið listarverk sem byggja á hugarheimi nemendanna og ólíkum tungumálum þeirra. Þá fundaði ráðherra með fulltrúum nemendaráðs Fellaskóla og ræddi við þau um mikilvægi félagsstarfs bæði fyrir góðan skólabrag og ekki síður sem undirbúningur fyrir fjölbreytt verkefni þeirra í framtíðinni.