Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2002

Mál nr. 69/2002

Þriðjudaginn, 18. febrúar 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 16. október 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 16. október 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, sbr. bréf dags. 19. ágúst 2002.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég óska eftir að vera flokkuð sem námsmaður fremur en launþegi. Skólaganga mín hefur verið samfelld frá 6 ára aldri og lauk með gerð meistaraverkefnis síðastliðinn vetur. Framkvæmd, úrvinnsla og skrif verkefnisins var fullt starf í 6 mánuði. Vegna eðli verkefnisins var nauðsynlegt að teygja sig út fyrir ramma hefðbundinna skiptingu skólaanna, eins og stundum vill verða þegar komið er á þetta skólastig. Verkefnið hófst í lok haustannar 2001 og lauk með vörn um miðjan júní 2002.“

Með bréfi, dags. 17. október 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. október 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi óskar eftir að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Almennt er miðað við að 100% nám við háskólann B nemi 15 einingum á önn. Lágmarksfjöldi eininga til að skilyrði 14. gr. rgl. um fullt nám sé uppfyllt er því 11 á önn. Á vottorði D-deildar háskólans B kemur fram að kærandi hafi unnið að 15 eininga meistararitgerð sinni á haustönn 2001 og vorönn 2002 en þar af hafi þriðjungur vinnunnar farið fram á haustönn. Samkvæmt því nam vinna á vorönn 10 einingum. Kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki skilyrði laga um fullt nám og varð því að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna .“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. nóvember 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi framangreindra laga er skilgreint í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Hjá háskólanum B er almennt miðað við að 100% nám sé 15 einingar á misseri.

Kærandi ól barn 14. ágúst 2002. Samkvæmt vottorði frá háskólanum B, dags. 7. ágúst 2002, var kærandi skráð í fullt nám á vormisseri 2002 og varði meistaraprófsritgerð sína 13. júní sama ár. Einnig kemur fram í vottorðinu að hún hafi brautskráðst 22. júní 2002.

Kærandi leggur fram vottorð útgefið af D-deild, þar sem staðfest er að hún hafi útskrifast með M.S. gráðu í D í júní 2002 og að hún hafi unnið að meistararitgerð sinni (15e) á haustmisseri 2001 (í nóvember og desember) og á vormisseri 2002. Í kæru greinir kærandi frá því að verkefnið hafi hafist í lok haustannar 2001 og því hafi lokið með vörn um miðjan júní 2002.

Kærandi var sannanlega að stunda nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Þegar unnið er 15 eininga meistararitgerð hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera útilokað að leggja nákvæmt mat á það hve stór hluti ritgerðarinnar og undirbúnings að vörn hennar er unninn í hverjum mánuði viðmiðunartímabilsins. Með hliðsjón af því og öðru sem að framan er rakið telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að greiða eigi kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta