Hoppa yfir valmynd
20. maí 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 75/2002

Mál nr. 75/2002

Þriðjudaginn, 20. maí 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 25. nóvember 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. nóvember 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 1. nóvember 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Málavextir eru eftirfarandi:

Ég starfa sjálfstætt sem B og D og hef undanfarin ár verið skráður sem „ársmaður“ hjá staðgreiðsludeild Skattstofu E-umdæmis, þ.e. ég hef heimild til að gera upp staðgreiðslu einu sinni á ári.

Í lok ágúst sl. fór ég í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar til að fá upplýsingar um rétt minn til fæðingarorlofs. Þar var mér tjáð að ég ætti rétt á fullri greiðslu í tvo mánuði sem ég ætlaði að nýta orlofsréttinn væri ég ekki ársmaður og ekki skráður sem starfandi.

Samkvæmt ráðleggingum fulltrúa Tryggingastofnunar fór ég því strax á Skattstofuna (21. ágúst) og fyllti út beiðni um að ég yrði tekinn af skrá sem sjálfstætt starfandi frá og með 1. nóvember, og dagsetning síðustu launagreiðslu skv. beiðninni var 31. október. Þetta þýddi að ég héldi áfram í starfi til loka október. Ég hafði enga aðra ástæðu til að fara á Skattstofuna en þá að Tryggingastofnun hafði bent mér á það.

Beiðnin til Skattstofunnar er eina skjalið sem ég fyllti út varðandi stöðu mína þar.

Það sem síðan gerðist er mér ekki fyllilega ljóst, enda kom ég þar hvergi nærri. Svo virðist sem fyrir mistök Skattstofunnar hafi ég verið tekinn af skrá um leið og umsóknin barst, í stað þess að teljast í starfi til októberloka.

Sá sem fjallar um umsókn mína hjá Tryggingastofnun fær alltént fram á skjámynd frá Skattstofunni að ég hafi hætt starfi um þremur vikum áður en barnið fæðist og fullnægi því ekki því skilyrði að vera í starfi sex mánuði fyrir fæðingu þess. Þessar upplýsingar voru augljóslega rangar, þ.e. þær koma ekki heim og saman við veruleikann, enda er mér hulin ráðgáta hvers vegna ég ætti að hafa hætt sjálfstæðum rekstri án þess að vera ráðinn í starf.

Ég hafði samband við Skattstofuna og fékk um síðir staðfestingu á því að mistök hefðu orðið sbr. hjálagt ljósrit og að þau hefðu verið leiðrétt. Það nægði hins vegar ekki matsmanni Tryggingastofnunar.

Þar sem lög um fæðingarorlof kveða á um að foreldri þurfi að vera samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphaf fæðingarorlofs og þar sem ég uppfylli það skilyrði hvaða mistök svo sem Skattstofan gerir, tel ég mig eiga rétt á greiðslu orlofsins. Ég bið nefndina að virða það við mig þótt ég bendi á það sem augljóst er.

Sá sem stundar atvinnurekstur heldur því áfram eftir sínum áætlunum þótt Skattstofan kunni að gera mistök í skráningu hans, ekki síst ef hann veit ekki um þessi mistök. Ég hef stundað starf mitt óslitið undanfarin ár.

Eftir því sem ég best veit gildir það í lögum að þar sem skjöl og staðreyndir stangast á ber frekar að taka mark á staðreyndum.

Fyrsti úrskurður Tryggingastofnunar (17. september 2002) hljóðar meðal annars svo: „Af gögnum sem þú hefur lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sést að þú varst ekki á vinnumarkaði í ágústmánuði 2002.” Ekki er bent á lagabókstaf til stuðnings því að Tryggingastofnun meti starf umsækjanda eingöngu af upplýsingum skattstofu. Staðreyndin er að af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sést ekki að ég var á vinnumarkaði í ágúst 2002, og verða því önnur gögn eða staðreyndir að skera úr um það.“

Með bréfi, dags. 6. desember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 10. febrúar 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með ódagsettri umsókn sem barst þjónustumiðstöð TR 20. ágúst 2002 þar sem á forsíðu umsóknar var að finna upplýsingar maka kæranda en engar aðrar upplýsingar um kæranda aðrar en að merkt var við að hann sækti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Aðrir viðeigandi hlutar umsóknarinnar varðandi hann voru þó útfylltir og hann undirskrifaði umsóknina bæði fyrir sig og fyrir hönd maka síns. Með fylgdi tilkynning um fæðingarorlof dags. 20. ágúst 2002 þar sem hann tilgreindi, sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, þá tilhögun á fæðingarorlofi að hann tæki október – nóvember 2002, 100%. Ekki var tilgreint hvert starfshlutfall hans hefði verið síðustu 6 mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/áætlaðan fæðingardag. Daginn eftir, þ.e. 21. ágúst, barst ásamt gögnum um væntanlegan fæðingardag 17. september 2002 og nám maka kæranda, önnur tilkynning um fæðingarorlof dagsett sama dag þar sem fram kom að hann ætlaði að vera í fæðingarorlofi 1. nóvember – 31. desember 2002 og gefið upp netfang hans frá F-landi.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs. dags. 17. september 2002 var kæranda tilkynnt um synjun á umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns). Af gögnum sem hann hefði lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann hafi verið á vinnumarkaði í ágúst 2002 og ekki hafi heldur verið greitt tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi fyrir árið 2002.

Á yfirliti RSK (mynd nr. 06) var kærandi á þessum tíma afskráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur frá ágúst og hafði sú skráning átt sér stað 20. ágúst. Skv. 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (sem telst í síðasta lagi vera fæðingardagur barns) og skv. 3. mgr. sama ákvæðis skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Faxað bréf, dagsett í F-landi 16. október 2002, barst síðan þar sem kærandi kvaðst vera skráður sem ársmaður út októbermánuð 2002. Einnig kveðst hann sama dag láta yfirfæra af reikningi sínum í dag tryggingagjald af áætluðum tekjum sínum og væntanlega verði hægt að fá þá greiðslu staðfesta fljótlega hjá ríkisféhirði. Með fylgdi útprentun úr tölvukerfi RSK dags. 8. október 2002 af blaðsíðu titlaðri „Launagreiðendur – eigin upplýsingar framf.“ Á þessari blaðsíðu kemur fram að dags. síðustu launagreiðslu sé tilgreind 31. október 2002 en einnig afskráning 20. ágúst 2002 og að engar launagreiðslur hafi átt sér stað.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 22. október 2002 var synjað að breyta fyrri afgreiðslu á grundvelli þessara viðbótargagna frá kæranda. Samkvæmt skrám RSK væri hann ekki skráður með atvinnurekstur frá því í ágúst 2002 og sé því ekki með sex mánaða samfellt starf fyrir fæðingu barns.

Faxað bréf, dagsett í F-landi 28. október 2002, barst síðan þar sem kærandi hélt því fram að það þurfi að athuga það betur að viðbótargögn breyti ekki fyrri afgreiðslu og sendi með útprentun frá skattstofu þar sem fram komi að hann verði afskráður sem ársmaður 31. október. Með fylgdu tvær útprentanir frá RSK, þ.e. annars vegar á athugasemdum launagreiðanda um að hann hafi farið út sem ársmaður 31.10.02 vegna fæðingarorlofs í nóv. og des. og hins vegar sama blaðsíða og áður hafði borist en strikað undir dags. síðustu launagreiðslu.

Einnig barst faxað bréf með sömu dagsetningu þar sem kærandi kvað sér loks hafa borist afrit af mynd 06 frá skattstofu og sér til undrunar tali skattstofan nú um mistök en sér hafi aldrei verið sagt að mistök hefðu orðið. Með fylgdi útprentun á mynd 06 úr tölvukerfi RSK þar sem til viðbótar því sem áður hafði verið skráð í þessa mynd er búið að bæta við leiðréttingu vegna fæðingarorlofs á þá leið að kærandi væri ársmaður úr október og sé í fæðingarorlofi í nóvember og desember. Á útprentuninni er að finna þá áritun starfsmanns skattstofu E-umdæmis að beðist sé velvirðingar á þessum mistökum sem urðu á skráningunni án þess að tilgreint sé hver mistökin séu.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 1. nóvember 2002 var synjað að breyta fyrri afgreiðslu og taka til greina þær breytingar sem gerðar hafi verið á skrám RSK eftir að kæranda var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf dags. 17. september 2002.

Kærandi kveðst í kæru hafa farið á skattstofuna og fyllt út beiðni um að hann yrði tekinn af skrá sem sjálfstætt starfandi frá og með 1. nóvember. Afrit af þeirri beiðni hefur ekki verið framvísað en í símtali var staðfest af þeim starfsmanni skattstofunnar sem hafði verið í samskiptum við kæranda að mistök hefðu átt sér stað við skráningu tilkynningar hans um töku fæðingarorlofs. Beiðnin sjálf fannst hins vegar ekki. Jafnframt var staðfest að tryggingagjald hefði ekki verið greitt fyrir árið 2002.

Að lokum er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt upplýsingum þjóðskrár Hagstofu Íslands hafa kærandi og maki hans verið með skráð aðsetur í F-landi frá 1. september 1995 og barn þeirra fæddist þar 9. september 2002. Einnig kom fram í bréfum sem bárust frá honum í október að hann væri staddur þar í landi á sama tíma og hann var skráður sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi, starf hans tilgreint sem B og starfsemin skv. Ísat-númeri G.“

Vegna þess að synjun lífeyristryggingasviðs byggðist á því að ekki hafi verið um samfellt starf að ræða og að ekki hafi verið greitt tryggingagjald sbr. skilyrði 1. og 3. mgr. 13. gr. ffl., var ekki að svo stöddu farið fram á nánari upplýsingar um það í hverju starf kæranda fælist og hvar starfið færi fram, þ.e. hvort fullnægt væri því skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að um hafi verið að ræða starf á innlendum vinnumarkaði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. mars 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 12. mars 2003 þar sem hann ítrekar fyrri athugasemdir sínar.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu í fæðingarorlofi úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkur m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. ffl. er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.

Þegar foreldri er sjálfstætt starfandi skal miða við 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Miða skal við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 3. mgr. 13. gr. ffl. og 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Barn kæranda er fætt 9. september 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 9. mars 2002 til fæðingardags barns.

Ágreiningur í máli þessu varðar það álitaefni hvort kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í gögnum málsins er afrit af útprentun frá skattstjóranum í E-umdæmi þar sem fram kemur að kærandi hafi verið ársmaður árið 2002 en falli út sem slíkur frá 31. október 2002 vegna fæðingarorlofs í nóvember og desember sama ár. Samkvæmt því er hann skráður sem sjálfstætt starfandi einstaklingur en undanþeginn mánaðarlegum staðgreiðsluskilum.

Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. ffl. er reiknað endurgjald sem tryggingagjald hefur verið greitt af grundvöllur útreiknings greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Gögn málsins bera með sér að kærandi hefur greitt tryggingagjald vegna ársins 2002.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi það skilyrði að hafa verið í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærandi, A, uppfyllir það skilyrði að hafa verið í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta