Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2002

Mál nr. 20/2002

Þriðjudaginn, 8. apríl 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri.

Þann 5. apríl 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 15. febrúar 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 17. janúar 2002, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég undirrituð, A sótti um fæðingarorlof 4. janúar 2002 vegna fæðingar sonar míns B, Ég er í sérnámi í D og er það 100% nám. Vegna flutninga okkar hjóna erlendis til náms og starfa mannsins míns ytra, fluttum við lögheimili okkar til E.

Ég fékk synjun á umsókn minni um fæðingarorlof á grundvelli þess að ég uppfyllti ekki skilyrði um búsetuákvæði. Samkvæmt reglum TR um fæðingarorlof, útgefnum febrúar 2001, er um að ræða undanþágu frá búsetuskilyrðum. Þar segir orðrétt „Foreldrar sem flutt hafa lögheimili sitt tímabundið til útlanda vegna náms hafa átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm fyrir flutning geta líka átt rétt á fæðingarstyrk ef sá réttur er ekki fyrir hendi í búsetulandinu eða á mismuninum ef rétturinn þar er lakari en hér á landi.“

Hér í E er ekki um að ræða neinn fæðingarstyrk og í ljósi þess óska ég þess að umsókn mín sé afgreidd samkvæmt þessari undanþágureglu.”

Með bréfi, dags. 8. apríl 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 19. apríl 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks. Kærandi er námsmaður í E og er með lögheimili þar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar – og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Nánar er kveðið á um réttindi námsmanna í III. Kafla reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 12. gr. reglugerðarinnar er það gert að skilyrði fyrir greiðslum að foreldri hafi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Samkvæmt 13. gr. er þó heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og réttur til greiðslna í búsetulandi sé enginn eða lakari en hér á landi.

Meðal skilyrða fyrir greiðslum samkvæmt þessu ákvæði er að lögheimili hafi verið flutt erlendis vegna náms foreldris. Af skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands sést að kærandi flutti lögheimili sitt til E þann 1. janúar 1999. Samkvæmt framlögðu námsvottorði kæranda hófst nám hennar þann 1. júlí 2000, eða einu og hálfu ári eftir lögheimilisflutninginn. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er þeim sem dvelst erlendis við nám heimilt að halda áfram lögheimili hér á landi. Eru það fyrst og fremst námsmenn á Norðurlöndum sem hafa þurft að flytja lögheimili sitt frá landinu, en slík krafa hefur ekki verið gerð til námsmanna í E. Í kæru kemur svo fram að maki kæranda sé við störf í E.

Þegar til alls þessa er litið telur lífeyristryggingarsvið það skilyrði að lögheimiliflutningur hafi verið vegna náms ekki uppfyllt í tilviki kæranda og að hún eigi því ekki rétt á greiðslu fæðingastyrks.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. apríl 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 8. maí 2002, þar segir m.a.:

„Í umfjöllun frá Tryggingastofnun ríkisins kemur fram að undirrituð hafi hafið nám í E 1. júlí 2000 en aftur á móti flutt lögheimili sitt til E þann 1. janúar 1999. Samkvæmt því geti lögheimilisflutningur hennar ekki verið vegna náms og því eigi viðkomandi ekki rétt á fæðingarstyrk samanber 13. gr. um undanþágu frá búsetuskilyrðum. Það rétta er að undirrituð flutti til E þann 31. maí 1997, og hóf sérnám í D þann 1. júlí 1997 við háskólann F í E og lauk þaðan námi 30. júní 2000. Þann 1. júlí 2000 hóf undirrituð svo sérnám í undirgrein og er þar enn við nám. Þær ekki með umsókninni, þar sem einungis var beðið um staðfestingu á að viðkomandi væri í námi en ekki hvenær það hófst. Undirrituð flutti ásamt maka og fjórum börnum til E gagngert svo undirrituð gæti hafið nám í D og því verður að teljast að flutningur lögheimilis sé vegna náms undirritaðrar. Áður hafði fjölskyldan búið alla tíð á íslandi. Hvað varðar fæðingarorlof í E eru þau engin og má því með sanni segja að réttur til greiðslu í búsetulandi sé enginn eða lakari en á Íslandi samanber 13. gr.“

 

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvað á fundi sínum 3. september 2002 með hliðsjón af gögnum sem nefndinni bárust eftir að Tryggingarstofnun ríkisins ritaði greinargerð í málinu, að óska eftir afstöðu stofnunarinnar með tilliti til nýrra gagna og var það gert með bréfi dags. 3 september 2002.

Eftir að viðbótargögnin höfðu borist Tryggingarstofnun ríkisins barst nefndinni bréf dags. 6 september 2002 þar sem fram kom að stofnunin teldi að taka bæri gögnin til greina sem staðfestingu á því atriði er kæran snérist um, þ.e að kærandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis vegna náms. Síðan segir: „Þrátt fyrir þetta eru ekki skilyrði til að verða við umsókn um greiðslur að svo stöddu þar sem frekari upplýsingar skortir. Lífeyristryggingarsvið mun því endurupptaka mál kæranda og kalla eftir viðbótarupplýsingum frá henni.“

 

Tryggingarstofnun ríkisins sendir kæranda síðan bréf dags. 13 febrúar 2003 þar segir m.a:

„Ástæðan fyrir því að í 13. gr. reglugerðarinnar er að finna undanþágu um að heimilt sé að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms er sú, að þeir sem stunda nám í öðrum Norðurlöndum verða, þrátt fyrir ákvæði 9. gr. lögheimilislaga, að flytja lögheimili sitt til námslandsins á grundvelli Norðurlandasamnings.

Þessi undanþága í 13. gr. reglugerðarinnar á ekki við um þá sem stunda nám í E og geta haldið lögheimili hér á landi á grundvelli 9 gr. lögheimilislaga. Ef þeir velja að flytja lögheimili sitt til námslandsins gera þeir það ekki vegna námsins heldur af einhverjum öðrum ástæðum.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist vegna þess að beðið var eftir endanlegri afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á málinu eftir að ný gögn höfðu borist stofnuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13.

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Kærandi ól barn 16. nóvember 2001. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 16. nóvember 2000 til fæðingardags barnsins.

Í greinargerð kæranda dags. 8. maí 2002 gerir hún athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins varðandi flutning lögheimilis og skráningu í nám. Þar greinir hún frá því að hún hafi flutt til E í lok maí 1997 og hafið sérnám í D 1. júlí 1997 og lokið því 30. júní 2000. Hún greinir frá því að hún hafi hafið nám 1. júlí 2000 í sérnámi í undirsérgrein og þar sé hún enn við nám. Samkvæmt gögnum málsins flytur kærandi lögheimili sitt til E 1. janúar 1999.

Með hliðsjón af gögnum málsins flutti kærandi til E til þess að stunda nám, þegar hún flytur lögheimili sitt þangað er hún enn í námi.

Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Kæranda ber að leggja fram yfirlýsingu frá almannatryggingum í búsetulandinu um að hún eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingarinnar, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Að því skilyrði uppfylltu ber að greiða kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta