Hoppa yfir valmynd
18. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 66/2002

Mál nr. 66/2002

Þriðjudaginn, 18. mars 2003

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 7. október 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. október 2002.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sem tilkynnt var með bréfi dags. 11. júlí 2002, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Högum A var þannig háttað frá desember 2000 til júní 2002:

 

 Desember 2000 til júlí 2001: Starfsmaður verslunarinnar B
 Ágúst 2001: Starfsmaður D
 September 2001 til janúar 2002:  Stundaði nám við háskólann E
 14. janúar 2002 til 12. apríl 2002 Liggur fyrir vegna veikinda á meðgöngu og samkvæmt læknisráði
 17. júní 2002: Fæðir F 10 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag

A skráir sig í fullt nám við háskólann E skólaárið 2001-2002. Hún stundar síðan nám sitt á haustönn og skilar þá fullnægjandi árangri. Hún heldur svo áfram að stunda nám sitt á vorönn en veikist fljótlega. Þau veikindi má tengja beint við meðgönguna en þá gekk hún með son okkar, F. Veikindin voru þess eðlis að læknar töldu ekki óhætt að hún stundaði vinnu eða skóla. Henni var, samkvæmt læknisráði, gert að liggja að mestu fyrir vegna hættu á að barnið gæti fæðst mikið fyrir eðlilegan fæðingartíma. Einnig var A á þessu tímabili með mikla ógleði og uppköst, auk slæmra mígrenikasta.

Tryggingastofnun ríkisins hafnar umsókn A um fullan fæðingarstyrk með bréfi dags. 11. júlí 2002. Tryggingastofnun rökstyður úrskurð sinn með því að ekki sé heimild í lögum um fæðingarstyrk til að taka tillit til veikinda á meðgöngu. Við teljum að úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins sé ólögmætur og teljum að með honum sé stofnunin að brjóta gegn tveimur ákvæðum stjórnsýslulaga auk laga um fæðingarorlof.

Í 1. mgr. 19. gr. laganna um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir að foreldrar í fullu námi eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði vegna fæðingar barns. Í 14. gr. reglugerðar með lögunum nr. 909/2000 er fullt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum frá fæðingu barns. Í bréfi Tryggingastofnunar dags. 11. júlí 2002 er úrskurðurinn rökstuddur þannig að A uppfylli ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám. Sá ágreiningur sem hér er kominn snýst um það hvort A var í fullu námi, í skilningi laganna, áður en hún fæddi son okkar eða ekki. Við getum ekki séð, hvorki í lögunum, né í reglugerðinni, að það komi skýrt fram að A eigi ekki rétt á fullum fæðingarstyrk. A sýndi fram á það með vottorði frá háskólanum E að hún var skráð í fullt nám í skólann allt háskólaárið 2001-2002. Hvorki í lögunum, né í reglugerðinni, kemur fram að ef námsmaður hverfur frá námi vegna veikinda tímabundið verði það til þess að ekki sé litið á að hann sé í fullu námi í skilningi laganna. A var alltaf skráð sem nemandi við háskólann E en fékk tímabundið leyfi frá námi vegna veikinda og var það einnig staðfest með bréfi frá háskólanum E. Það er mat okkar að lögin gefi ekki tilefni til að hafna umsókn A um fullan fæðingarstyrk.

Það skal þó viðurkennt að lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru ekki nægilega skýr hvað varðar fæðingarstyrk til námsmanna. Það má sýna því skilning að ekki er auðvelt að úrskurða um það hvort námsmaður á rétt á fullum fæðingarstyrk eða ekki þegar veikindi koma upp á námstíma því lögin eru alls ekki skýr hvað það varðar. Það kemur hins vegar skýrt fram í stjórnsýslulögum hvað stofnuninni ber að gera ef lögin gefa ekki skýra mynd af því hvaða leið skuli velja. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru eða vægara móti. Í athugasemdum frumvarps með lögunum kemur m.a. fram að meðalhófsreglan sem hér um ræðir gerir ráð fyrir að ef stjórnvald stendur frammi fyrir því, samkvæmt atvikum máls og þeirri lagareglu sem ákvörðun byggist á, að nokkurra úrræða er völ er þjónað geta því markmiði sem að er stefnt, er því skylt að velja það úrræði sem vægast er. Þar kemur einnig fram að ekki ber að fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þar sem lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru óljós þegar kemur að því að taka ákvörðun um það hvort A var í fullu námi, í skilningi laganna, eða ekki ber Tryggingastofnun að velja þann kost sem kemur sér betur fyrir umsækjandann. Umsækjandi skal njóta vafans en ekki stjórnvaldið. Þar sem líta má þannig á lögin að þau séu ekki nægilega skýr í tilvikum sem þessum hefur Tryggingastofnun ríkisins brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem stofnunin var látin njóta vafans en ekki A.

Stjórnvöldum ber að gæta jafnræðis í úrlausn mála í lagalegu tilliti. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaganna er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynþætti, ætterni eða öðrum sambærilegum aðstæðum. Þótt ekki sé ákveðið um það sérstaklega hverjar þessar sambærilegu aðstæður geta verið þá má skýrt sjá að A er í raun mismunað eingöngu á grundvelli þess að hún veiktist á meðgöngu og varð að fá leyfi frá námi tímabundið. Kona í sömu stöðu og hún, sem hefði ekki veikst á meðgöngu, hefði greiddan fullan fæðingarstyrk.

Að síðustu vil ég gera grein fyrir fyrirspurn sem send var til Tryggingastofnunar 3. september síðastliðinn (sjá fylgiskjal 6). Þar var gerð grein fyrir því að A var í fullri vinnu meira en 6 mánuði áður en nám hennar hófst við háskólann E en í 14. gr. reglugerðar (Nr. 909/2000) með lögunum um fæðingarorlof segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Tryggingastofnun var gerð grein fyrir því að A hafði verið í fullri samfelldri vinnu í 9 mánuði áður en námið hófst og því teljum við að A uppfylli þessi skilyrði til heimildarinnar eins og fram kemur í reglugerðinni. Í fyrirspurninni var spurt hvort þessi heimild yrði ekki notuð ef A myndi leggja fram launaseðla þessara 9 mánaða áður en námið hófst. Í svari Tryggingastofnunar var sagt að það yrði ekki gert. Þar segir orðrétt: „Til að hægt sé að meta vinnu síðustu 6 mánuði fyrir skóla þarf skólinn að vera það síðasta sem viðkomandi gerir fyrir upphaf fæðingarorlofs þ.e. A hefði þurft að vera í skólanum út maí ´02. Umsækjandi sem var í skóla nú á vorönn en ekki á haustönninni ´01 og fer í fæðingarorlof í júní gæti átt rétt á greiðslu sem námsmaður ef hann hefur haft vinnu tímabilið júlí – desember ´01 og farið beint af vinnumarkaði í skóla.“ Okkur sýnist skýrt að ef A skili inn launaseðlum sem sýna fram á fulla samfellda vinnu í meira en 6 mánuði sé þar með komin heimild samkvæmt 14. grein áðurnefndrar reglugerðar með lögunum fyrir því að greiða henni fæðingarstyrk sem námsmanni. Við finnum engin lagaákvæði sem styðja ofangreindar útskýringar starfsmanns Tryggingastofnunar á því af hverju sú heimild er ekki fyrir hendi.“

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 20. desember 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi óskar eftir að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2002. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75%-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði fram til þess að námið hófst. Hefur verið litið svo á að þessi heimild eigi við ef foreldri hefur hætt í vinnu og farið í nám það stuttu fyrir fæðingu barns að ekki gafst tími til að uppfylla skilyrðið um sex mánaða samfellt nám.

Með umsókn dags. 20. júní 2002 sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 26. ágúst (virðist vera prentvilla þar sem hún átti barnið 17. júní). Með umsókninni fylgdi staðfesting frá háskólanum E um að hún væri skráður stúdent við skólann háskólaárið 2001-2002 en ekki var tekið fram um hvað mikið nám hafði verið að ræða. Í staðfestingu frá háskólanum E kom fram að hún hefði stundað nám og tekið próf á haustmisseri 2001 en fengið leyfi frá námi á vormisseri 2002 vegna veikinda.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 11. júní 2002 var kæranda synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti hún ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám. Tekið var fram að í lögunum eða reglugerðinni sé ekki að finna heimild til að taka tillit til þess þegar veikindi námsmanna á meðgöngu koma í veg fyrir að þeir stundi nám sitt.

Í bréfi lífeyristryggingasviðs kemur einnig fram að ef hún hafi verið á vinnumarkaði frá því í desember 2001 geti hún sent afrit af launaseðlum fyrir tímabilið desember 2001 til maí 2002 og yrði umsókn hennar endurskoðuð miðað við þær upplýsingar. Ef nýjar upplýsingar gefi ekki tilefni til breytinga standi fyrri úrskurður. Ástæða þess að þetta kom fram í bréfinu var sú að í staðgreiðsluskrá RSK eru gefin upp á hana laun á þessum tíma og það var því mögulegt að í staðinn fyrir fæðingarstyrk námsmanna (sem ljóst var að hún uppfyllti ekki skilyrði fyrir) væri hægt að greiða henni úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti skilyrði um að hafa verið samfellt í a.m.k. 25% starfi í 6 mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi hefur ekki óskað eftir endurskoðun á umsókn sinni en sótti 25. júlí 2002 um sjúkradagpeninga á grundvelli þess að hún hefði verið óvinnufær vegna veikinda á tímabilinu 14. janúar – 12. apríl 2002. Með þeirri umsókn fylgdu launaseðlar fyrir febrúar – júní 2002 sem sýna að hún uppfyllir skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og ætti rétt á ca. 75.000 kr. á mánuði.

Kærandi stundaði nám og tók próf á haustmisseri 2001 en ekki á vorönn 2002. Hún uppfyllti því ekki skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði. Heimild til þess að greiða fæðingarstyrk námsmanna, þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám sé ekki uppfyllt, á grundvelli þess að foreldri hafi verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst á ekki við vegna þess að hún stundaði ekki nám á vorönn 2002.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. desember 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. desember 2002, var bent á að kærandi ætti mögulega rétt á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Í tölvupósti frá stofnuninni, dags. 6. mars 2003, er staðfest að kærandi hafi fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í febrúar 2003.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. reglugerð nr. 969/2001, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.

Kærandi ól barn 17. júní 2002. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi skilyrði þess að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Tryggingastofnun ríkisins hefur afgreitt umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi á þeim grundvelli samkvæmt framangreindu.

Þá kemur til skoðunar hvort kærandi hafi átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Hún var skráð í nám við háskólann E háskólaárið 2001-2002. Hún lauk fullu námi á haustmisseri 2001 en fékk leyfi frá námi á vormisseri 2002 vegna veikinda. Frá því að hún lauk námi á haustmisseri telst hún hafa verið í samfelldu starfi fram til þess að barnið fæðist, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Með hliðsjón af því hafði kærandi áunnið sér rétt til að fá greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður, sbr. 5. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. reglugerð nr. 969/2001.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Kærandi uppfyllir skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrk sem námsmanni er hafnað. Kærandi uppfyllir skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta