Hoppa yfir valmynd
2. júní 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 315/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 315/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040034

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Spánar.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 28. nóvember 2016 ásamt ólögráða bróður sínum, [...]. Þann 6. desember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kæranda hafði fengið útgefna vegabréfsáritun hjá spænskum stjórnvöldum. Þann 15. desember 2016 barst svar frá spænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 30. mars 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Spánar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 25. apríl 2017 til kærunefndar útlendingamála. Sameiginleg greinargerð kæranda og bróður hans barst kærunefnd 9. maí 2017. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Sameiginleg viðbótargreinargerð frá kæranda og bróður hans barst kærunefnd þann 22. maí 2017. Í greinargerðinni ítrekaði kærandi ofangreindar kröfur sínar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Spánar. Lagt var til grundvallar að Spánn virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Ekki var talið að kærandi hefði slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá væru aðstæður hans ekki slíkar að þær féllu undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eða að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Spánar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Kærandi byggði á því fyrir Útlendingastofnun að sérstakar ástæður væru fyrir hendi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Stofnunin vísar til þess sem fram hafi komið í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga varðandi skýringu á því hvenær um sérstakar ástæður geti verið að ræða. Fram kemur í niðurstöðu Útlendingastofnunar að kærandi hafi greint frá því í viðtali við stofnunina að hann sé með [...] og þá sé hann við góða andlega heilsu. Í sálfræðiskýrslu sem kærandi hafi lagt fram við málsmeðferð hafi komið fram að hann hafi lýst andlegri vanlíðan og kynferðisofbeldi sem hann hafi orðið fyrir. Útlendingastofnun þyki ljóst að framburður kæranda og skýrsla sálfræðingsins fari ekki saman. Stofnunin dragi þó ekki í efa að kærandi kunni að hafa orðið fyrir þeirri reynslu sem hann greint frá og hann kunni því að vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í málinu liggi hins vegar fyrir að kærandi geti leitað sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á Spáni. Stofnunin árétti að ekkert bendi til þess að móttökuskilyrðum sé ábótavant á Spáni og þá hafi spænsk stjórnvöld ekki fjallað um mál hans. Það sé því mat Útlendingastofnunar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður í máli kæranda sem eigi að leiða til þess að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að Spánn, sem sé eitt af ríkjum Evrópusambandsins, sé bundið af þeim tilskipunum sem samþykktar séu innan sambandsins, þ. á m. móttökutilskipuninni nr. 33/2013. Spænsk stjórnvöld hafi árið 2014 breytt kerfinu varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og hafi m.a. veitt fjármagn til hjálparstofnana sem þjónusti umsækjendur. Útlendingastofnun fjallar einnig um málsmeðferðir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni. Segir Útlendingastofnun að miða verði við 3. gr. sáttmálans þegar verið sé að flytja umsækjendur milli landa. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi sett háan þröskuld við mat á þessu og þurfi slæm meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að ná tilteknu alvarleikastigi til að falla undir gildissvið ákvæðisins og vísar stofnunin í dóma Mannréttindadómstólsins í málum A.M.E. gegn Hollandi frá 13. janúar 2015 og A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015. Það sé mat stofnunarinnar að með hliðsjón af framangreindu verði ekki séð að aðstæðum í hæliskerfinu á Spáni verði jafnað við ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í skilningi 42. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann vilji alls ekki fara til Spánar því það hafi verið ætlun hans og bróður hans að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Kærandi byggir aðallega á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi þar sem í fyrsta lagi að Dyflinnarreglugerðin mæli ekki fyrir um ábyrgð Spánar á umsókn bróður hans og í öðru lagi sé þess krafist á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga.

Í máli bróður kæranda kemur fram að að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé fæddur [...] og sé því fylgdarlaust barn, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð þeirra bræðra er gerð athugasemd við það að Útlendingastofnun taki ekki afstöðu til þess í ákvörðun sinni í máli bróður kæranda að hann teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem fylgdarlaust barn. Haldið sé fram í greinargerðinni að við beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar hafi Útlendingastofnun litið fram hjá 1. og 4. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Fram kemur einnig í greinargerðinni að í ljósi þess að kærandi sé löglega staddur hér á landi þá byggi bróðir kæranda á því að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar beri Ísland ábyrgð á afgreiðslu umsóknar hans. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli beita viðmiðunum, til að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð, í þeirri röð sem þau eru sett fram. Því hafi 8. gr. reglugerðarinnar þannig forgang fram yfir 11. og 12. gr. hennar. Kærendur telji að þau viðmið sem komi fram í 1. og 2. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar eigi við um þá og leggi því ábyrgðina á íslensk stjórnvöld.

Kærandi bendi á að rétt sé að hafa í huga 14. lið inngangsorða Dyflinnarreglugerðarinnar og í því samhengi vísar hann jafnframt í meginreglu 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem kveði m.a. á um einingu fjölskyldunnar. Telji kærandi að sérstök tengsl og sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. skyldi íslensk stjórnvöld til að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

Þann 22. maí 2017 lagði kærandi ásamt bróður sínum fram sameiginlega viðbótargreinargerð ásamt fylgigögnum til kærunefndar. Fram kemur í greinargerðinni að bróðir kæranda hafi greint talsmanni þeirra frá því að [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að spænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Spánar er byggt á því að kærandi sé með gilda vegabréfsáritun þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 316/2017 var ákvörðun Útlendingastofnunar í máli bróður kæranda felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem eru uppi í málinu og með vísan til tengsla bræðranna, en bróðir kæranda er sem áður segir fylgdarlaust barn, telur kærunefnd að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd telur því að þrátt fyrir að staðfesting spænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar liggi fyrir þá beri, eins og hér háttar sérstaklega til, að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                 Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta