Fjármálastöðugleikaráð - fundargerð frá 26. september 2019
Fundinn sátu: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eggert Þröstur Þórarinsson, starfandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands, Bryndís Ásbjarnardóttir, forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hófst 13:10 26. september 2019
1. Kynning formanns kerfisáhættunefndar á helstu þáttum greinargerðar hennar
a. Fjallað var um verðbólgu og verðbólguvæntingar sem hafa verið að lækka að undanförnu. Fram kom að það stefndi í samdrátt á árinu 2019 og að spár fyrir næsta ár hafi verið nokkuð bjartsýnar en líkur væru á að næstu spár um framhaldið gætu dregið þar úr. Fram kom að enn væri töluverð óvissa á erlendum mörkuðum og síðustu misseri hefði hún leitt af sér lægri vexti, einkum langtímavexti. Þrátt fyrir þessa óvissu væru íslenskir bankarnir með tiltölulega lágt áhættuálag og mjög vel fjármagnaðir í erlendum myntum. Viðnámsþróttur þeirra væri enn töluverður en lausafjárstaðan, sérstaklega í íslenskum krónum, gæti verið betri. Rætt var um lánastarfsemi lífeyrissjóða, bæði fasteignalán og lán til fyrirtækja.
2. Umræðuskjal um fasteignalánahlutfall og viðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins vegna veikleika á húsnæðismarkaði á Íslandi
a. Forstöðumaður Þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu hélt kynningu á viðvörun Evrópska kerfisáhætturáðsins vegna veikleika á húsnæðismarkaði á Íslandi og fjallaði um lykilþætti á íslenskum húsnæðismarkaði. Viðvörunin var birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins 23. september sl. og var Íslandi gefinn kostur á að bregðast við viðvöruninni. Viðbrögð Íslands voru birt samhliða viðvöruninni sjálfri. Evrópska kerfisáhætturáðið lagði til, í kjölfar greiningar sinnar á húsnæðismarkaði hér á landi, að skoðað yrði að setja hámark á skuldsetningarhlutfall (e. loan to income, LTI). Fjármálaeftirlitið hyggst senda út samráðsskjal til þeirra er málið varðar og kalla eftir sjónarmiðum þeirra um viðvörunina, áhættu tengda fasteignamarkaði og um takmörk á skuldsetningarhlutfalli.
3. Ársfjórðungsleg ákvörðun um sveiflujöfnunarauka
a. Samþykkt tillaga um óbreyttan sveiflujöfnunarauka.
4. Önnur mál
a. Ísland er aðili að alþjóðlegum samtökum gegn peningaþvætti (Financial Action Task Force (FATF)). Á árinu 2018 gerði FATF úttekt á fylgni Íslands við viðmið um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í kjölfar úttektarinnar voru settar fram úrbótakröfur og hefur Ísland verið undir sérstakri eftirfylgni samtakanna um framgang þeirra. Farið var yfir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í ljósi þess að brátt mun niðurstaða samtakanna um árangur Íslands í þessum málum liggja fyrir.
b. Fréttatilkynning samþykkt.
Fundi slitið 14:30