Sýningin "Ísland og arkitektúr?" opnuð í Berlín
Í dag verður sýningin "Ísland og arkitektúr?" opnuð í sameiginlegri miðstöð sendiráða Norðurlandanna í Berlín. Þá verður jafnframt blásið til málþings með þátttöku arkitekta frá Íslandi. Sýningin fjallar um arkitektúr á Íslandi, þar sem hefðbundin byggingarefni á borð við timbur og múrsteina voru um langt skeið ekki aðgengileg og því var notast við gras og mold. Sýningin varpar fram áleitnum spurningum t.a.m. um þróun arkitektúrs á Íslandi, einu ríkasta landi Evrópu, á tímum efnahagsuppgangs og efnahagshruns. Sýningarhönnun annaðist Sabine Schirdewahn en hún byggir m.a. á ljósmyndum Guðmundar Ingólfssonar, ljósmyndara og heimildarmynd breska leikstjórans Henry Bateman "Future of Hope".
Frumkvæði að sýningunni hafði Peter Cachola Schmal safnsstjóri Þýska arkitektúrsafnsins í Frankfurt sem kom henni á fót innan ramma Sögueyjunnar Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011 í samstarfi við Matthias Wagner K listrænan stjórnanda menningardagskrár Sögueyjunnar. Peter Cachola Schmal er jafnframt kynnir á málþinginu.
Þátttakendur í málþinginu eru: Pétur H. Ármannsson, arkitekt, sem flytur stuttan fyrirlestur um megin einkenni á íslenskum arkitektúr, Olga Guðrún Sigfúsdóttir og Jörn Frenzel, arkitektar frá verkefninu Vatnavinir og Steve Christer arkitekt frá Studio Granda.
Arkitektarnir Hjördís Sigurgísladóttir & Dennis Davíð Jóhannesson fjalla um íslenska sendiherrabústaðinn í Berlín. Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar tekur jafnframt þátt í umræðum.
Sendiráð Íslands í Þýskalandi efnir til sýningarinnar með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu í samstarfi við Þýska arkitektúrsafnið í Frankfurt og Hönnunarmiðstöð Íslands, sem aðstoðaði við undirbúning málþingsins.